fimmtudagur, júlí 31

Verlunarmannahelgin

Við ætlum að storma í Þrastaskóg með Andansmönnum á föstudaginn. Við verðum þar alla vega eina nótt og sjáum svo til. Kannski málum við borgina rauða laugardag og sunnudag. Fer allt eftir aldri og fyrri störfum. Annars er útihátíðarlag Andansmanna tilbúið og hljómar svo:

Á útihátíð einu sinni enni

Þrastalundur bíður, þeysum nú af stað
Þangað ætla Andansmenn að mæta.
Brennivín í bokku, ég efast ekki um það
Að bjórinn fái kverkarnar að væta.

Með Finnboga í frelsi, ég raula þetta lag
eins og undir Fjósakletti forðum.
Dísa drusla dansar, það er hennar fag
Því verður aðeins lýst með þessum orðum:

Það verður fjör og frelsi
á útihátíð
Andansmanna einu sinni enn!

Það verður fjör og frelsi
einu sinni enn.
Á útihátið fara Andamenn

Í kotruspil við tökum og kætumst yfir því
að kæliboxin er full af bjór.
Það verður fjör og frelsi, Þrastaskógi í
Á útihátið syngjum við í kór:

Það verður fjör og frelsi
á útihátíð
Andansmanna einu sinni enn.

Það verður fjör og frelsi
einu sinni enn.
Á útihátið fara Andamenn

Góðar stundir

     |

Kúrekabíllinn svínaði á mig

Var á leiðinni í vinnUna áðan og þá svínaði gulur bíll á mig. Það stóð eitthvað í glugganum á bílnum þannig að ég ók í humátt á eftir honum og viti menn, það stóð kúrekabíllinn. Ekki varð þetta til að auka hróður kúrekatónlistarinnar í mínum augum. Þetta er eins og að vera með bílabónsauglýsingu á drulluskítugum bíl. Það er kannski allt í lagi að útfæra þessa hugmynd. Setja nafn og símanúmer þess sem hefur gert manni eitthvað, í gluggann, svína á nokkra og þá fær hann öll reiðisímtölin. Ekki svo galin hugmynd. Lifið heil!

     |

miðvikudagur, júlí 30

Afmælisbarn dagsins

Afmælisbarn dagsins er hann Helgi Þorgilsson, verkfræðingur með meiru og kafbátamaður. Til lukku með tuttuguogsexáraafmælið, eða kvartfjórðungsaldarafmælið+eittár. Góðar stundir

     |

Kleinubakstur

Var vakin klukkan níu því mamma og Sirrý voru að fara að baka kleinur og ég átti að hjálpa til. Það var nú reyndar ekki mikil hjálp í mér, sneri við nokkrum kleinum. En ég var látin í önnur verk, eins og að fara með Núma, litla frænda minn í klippingu, og að fara út í Kaupfélag að kaupa fleiri Kardimommudropa. Svo var ég náttúrulega rosalega dugleg við að borða kleinurnar og drekka mjólk með. Þetta kalla ég gott dagsverk, verst að dagurinn er bara hálfnaður. Hvað skyldi ég afreka restina af deginum! Lifið heil.

     |

Hneyksli

Það er engin gúrkutíð í fréttum. Öll óráðsían í þjóðfélaginu er að koma í ljós. Var ánægð með prófessorinn minn hann Svan Kristjáns, skrifaði B.A-inn minn hjá honum, í fréttunum í morgun. Hann sagði að Olíufélögin hefðu getað haft samráð í skjóli verndar stjórnmálaflokkanna. Þetta finnst mér mjög rökrétt, Sjálfstæðismenn geta varla borið á móti þessu. Kristinn Björnsson var forstjóri eins Olíufélagsins og á meðan var frúin hans Dómsmálaráðherra! Kolkrabbinn kemur þarna sterkur inn í og hann er nátengdur Sjöllunum. Ah, nenni ekki að svekkja mig á þessu. Eða jú, annars. Það er ekki hægt annað. Svo er það líka málið með Árna Johnsen, maðurin á að vera í fangelsi fyrir að misnota almannafé. Það var byrjað á því að kaupa nýjar dýnur fyrir karlinn og félaga hans á Kvíabryggju. Núna vilja Eyjamenn að honum verði sleppt til að geta verið í brekkusöngnum. Er ekki allt í lagi! Maðurinn er í fangelsi en ekki sumarbúðum. Hann fær kannski að fara um helgar í laxveiðar! Á ekki orð. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, júlí 29

Helgi verslunarmannanna

Hvað eru mörg N í því? Senn líður að verslunarmannahelginni. Alltaf þegar líður að þessari helgi er maður límdur við veðurfréttirnar og meira að segja fólk sem veit varla hvað veðurfréttir er, er farið að glápa á þær í kassanum. Ég veit ekkert hvert ég fer um helgina. Langaði til Eyja á sunnudeginum en fer líklega ekki. Ætla að vera hagsýn húsmóðir og reyna að spara. Fer kannski bara í Þrastarskóg með Andansmönnum, það er alltaf gaman að hitta þau. Góðar stundir

     |

mánudagur, júlí 28

Helgin

Já, helgin var mjög ljúf. Slappaði af á föstudaginn og horfði á nokkur myndbönd. Horfði á ræmurnar The Good Girl og Salton Sea, ágætis skemmtun alveg. Á laugardaginn stormaði ég upp á Laugarvatn þar sem fjölskyldan hans pabba var í útilegu. Tjölduðu við hjólhýsið hans Ómars, bróður hans pabba. Laufey og fjölskylda hennar eru í sumarfríi á Klakanum en þau búa í Luxemborg og koma svo í heimsókn á sumrin. Þegar ég kom var Ómar einn í hjólhýsinu því restin af Dagvarðará ættinni var að skoða Gullfoss og Geysi að sið túristanna. Helen Sif, dóttir Laufeyjar, á nefnilega lúxemborgískan kærasta og það varð að sýna honum þessa týpísku staði. Það er ekki hægt að láta sér leiðast í kringum hann Ómar. Hann er svo hreinn og beinn eitthvað. Ef eitthvað liggur honum á hjarta þá lætur hann það flakka. Ég held reyndar að hann sé ofvirkur því hann getur ekki setið kyrr lengur en 7 mín. Hann var samt ótrúlega rólegur í sveitinni og sat kyrr í heilan hálftíma að horfa á eitthvað sundmót í sjónvarpinu. Sem mér fannst reyndar ekki leiðinlegt því að aðrir eins kroppar eru vandfundir. Horfði því á sundmótið með honum, Straumlínulagaðir strákar eru alveg þess virði að horfa á. Þegar hele familien kom til baka var farið í það að grilla. Pabbi grillaði læri handa okkur og það var ótrúlega gott. Ármann kom í mat með Þórhöllu kærustunni sinni og öll ættin kepptist við að kynna sig því þau höfðu aldrei séð hana áður. Eftir matinn var farið í samkvæmisleiki og spjallað fram á nótt. Alveg ágætiskvöld. Svaf svo í tjaldvagninum hjá mínum ástkæru foreldrum. Reyndar var pabbi ekki alveg í uppáhaldi því hann hraut svo hryllilega hátt að ég hélt að hann mundi soga tjaldvagninn inn um nasirnar á sér! Hafði það þó af að sofna seint og um síðir. Var svo vakin um 9 leytið því það átti að drífa sig í sund. Ég er engin sundmanneskja, hef ekki farið í sund síðan í útskriftarferðinni árið 1997. Reyndar fór ég í Bláa Lónið árið 2001 en ég gleymdi sundbolnum mínum þar og bíður þess að ég komi að sækja sig. Við fórum svo upp í sumarbústað til Laufeyjar og Hans en það er sundlaug þar. Ég slappaði bara af á meðan allir voru í sundi. Sólaði mig aðeins því það var ótrúlega gott veður. Þegar að allir voru búnir í sundi skoraði ég á pabba í mini-golf, en það er 9 brauta völlur við hliðina á sumarbústaðnum. Hann tók áskoruninni og við héldum út vopnuð kylfum og kúlum. Við hlógum svo mikið að það komu alltaf fleiri og fleiri til að taka þátt í skemmtuninni. Um miðjan daginn var eiginlega öll fjölskyldan komin í mini-golf. Ég tók 2 hringi en pabba fannst þetta svo gaman að hann tók 4. Helgi og Hans voru hans helstu keppinautar og mikil samkeppni var ríkjandi. Hans er ótrúlega fyndinn maður. Hann er maðurinn hennar Laufeyjar frænku og vinnur hjá Cargolux. Hann er búinn að vera að reyna að hætta að reykja í 3 ár. Hann og Laufey ætluðu að hætta saman að reykja þá. Henni tókst það en ekki honum. Hann var alltaf að laumast til að reykja. Hann gekk þó aðeins og langt síðasta vetur. Þannig var að hann var að reykja inni á klósetti og stóð uppi á klósettinu, það er nefnilega þakgluggi á húsinu. Hann rann einhvern veginn af setunni og hrundi niður af klósettinu með rettUna í munninum og viðbeinsbrotnaði. Það komst því upp um kauða og nú er hann hættur að reyna að fela þetta. Hann reykir bara. Lifið heil

     |

föstudagur, júlí 25

Rólegheit framundan

Já, það verður slakað á þessa helgina og ætli sófinn og bíllinn minn eigi ekki eftir að sjá mikið af mér þessa helgina. Ætla að horfa á kassann í kvöld já, eða kannski einhverja ræmu í myndbandstækinu. Á morgun held ég svo í fjölskylduútilegu að Laugarvatni. það verður bara alveg ágætt held ég. Hafið það gott um helgina og góðar stundir

     |

Dúndurfréttir

Fór á tónleika í gær með Dúndurfréttum ásamt henni Soffíu. Var búin að heyra góðar sögur af þeim þannig að ég fór með miklar væntingar í farteskinu. Þeir brugðust mér ekki. Spiluðu lög eftir Led Zeppelin, Pink Floyd og Uriah Heep. Þeir voru hreint út sagt frábærir. Ég beið spennt eftir því hvernig þeir mundu ná Robert Plant en Pétur náði honum ótrúlega vel. Fékk gæsahúð á tímabili þegar þeir tóku gömlu Zeppelin slagarana! Fyrsti geisladiskurinn minn var Remasters með Led Zeppelin en þá var ég einungis 14 vetra. Annars fannst mér líka skemmtilegt að horfa í kringum mig og allt fólkið sem var þarna. Þetta var eins og að vera á þorrablóti. Þarna var allur aldur. Allt frá 18 ára aldri og upp úr, skemmtilegt að sjá fimmtuga virðulega menn slá hausnum í takt og lifðu sig þvílíkt inn í tónlistina. Á næsta borði við mig var greinilega forfallinn aðdáandi bæði Pink Floyd og Zeppelin. Hann var reyndar orðinn svo fullur að hann gat bara staulað út úr sér einstaka texta og virkaði oft á tíðum eins og þorskur á þurru landi. Varirnar á honum voru bara einhvern veginn þannig. Stórkostlegt að fylgjst með honum. Hann var rosalega lágvaxinn og þurfti að vera á hnjánum á stólnum til að sjá bandið. Á tímabili var hann í þvílíku stuði að hann dillaði sér í gríð og erg, hló eins og kerling og söng hástöfum. Þetta var reyndar áður en hann sturtaði í sig 2 bjórum á 10 mín! Ágætis skemmtun alveg. Reyndar var loftið á Gauknum svo þurrt að það hefði verið hægt að skera loftið með hníf. Linsurnar voru að drepa mig og sem betur fer var Soffía með augndropa þannig að ég gat farið að sjá út aftur. Reyndar var svo mikið af fólki á Gauknum að það var ekki nokkur leið að komast á klósettið þannig að Soffía þurfti að halda á spegli fyrir framan mig á borðinu sem við sátum og ég reyndi að hella dropunum í augun á mér. Það tókst ekki betur en það að önnur linsan datt úr auganu. Náði reyndar að halda henni á höndinni á mér þannig að ég gat komið henni aftur á sinn stað. En ég fékk reyndar nokkur skrítin augntillit og margir hafa örugglega velt fyrir sér hvað í andsk... ég var að gera. Góðar stundir.

     |

fimmtudagur, júlí 24

USA stórveldið - lýðræði eða lýðskrum?

Horfði á viðtal í gærkvöldi við Roger Waters fyrrverandi Pink Floyd meðlim. Hann er staddur hér á landi til að veiða lax, eins og svo margir aðrir. Hann var að kommenta á Bandaríkin og var ekki par hrifinn. Ég var alveg sammála því sem hann sagði. Bandaríkin eiga að heita vagga lýðræðisins en er að mínu mati vagga lýðskrumsins. Bush forseti komst til valda þó að hann hefði fengið færri atkvæði en Demókratinn Al Gore. Það var í skjóli kosningakerfisins sem er þannig upp byggt að hvert fylki hefur kjörmenn sem ráðast af fólksfjölda. Úrslitin réðust í Flórída þar sem ríkisstjórinn er bróðir George W. Bush, en Flórída hafði 25 kjörmenn og þeir réðu úrslitum. Fyrst á kosningavökunni þá var sagt að Flórída hefði fallið í hendur Demókrötum en var svo dregið til baka með undarlegum hætti og talning ekki endanleg fyrr en um mánuði seinna. Er það eðlilegt? Ef Bush hefði ekki komist til valda þá er nær öruggt að heimsmyndin væri önnur í dag. Kannski bíða Georg W. Bush sömu örlög og föður hans, en hann tapaði kosningunum á móti Bill Clinton. Í gær voru skotárásir í ráðhúsi New York og borgarstjórinn, sem er Repúblikani, sagði að skotárásin væri árás á lýðræðið, hvaða lýðræði segi ég nú bara. Bandaríkjamenn hafa aldrei haft neina heildstæða utanríkisstefnu, sem sést best á því að þeir studdu Talíbanastjórnina árið 2001, létu þá fá peninga en réðust svo inn í landið árið 2002 og settu Talibana af. Sem var reyndar kominn tími til, en aðrar aðferðir hefðu kannski verið skynsamlegri en að gera árásir á heimili saklausra borgara. Þeir þjálfuðu Saddam Hussein þegar hann barðist á móti Sovétmönnum árið 1979 en eru svo að súpa seyðið af því núna. Hafa stutt ótal herforingja til valda í því skyni að fella kommúnismann og jafnvel horft í gegnum fingur sér þegar þessir herforingjar fóru að myrða saklaust fólk eða hvern þann sem mótmælti herránunum. Bandaríkjamenn virðast ekki hugsa langt fram í tíman og þjóðir heims eru að átta sig á að USA er að verða eins og tifandi tímasprengja. Bandaríkjamenn eru í vissri mótsögn við sjálfa sig. Þeir segjast ætla að ráðast gegn þeim ríkjum sem eiga kjarnavopn. Gott og vel en hverjir eru það sem eru að efla sinn her og eru þeir einu sem hafa notað kjarnavopn gegn öðrum? Eru það ekki einmitt Bandaríkjamenn! Þeim finnst þeir vera í fullum rétti til að ráðast á aðrar þjóðir fyrir það sem þeir eru einmitt að gera sjálfir. Bandaríkjamenn sögðu upp samningi við Rússa sem fól í sér að fækka kjarnavopnum og eyðingu þeirra, er það til þess fallið að auka stöðugleikann í heiminum? Nei, það hefði ég ekki haldið. Bandaríkjamenn eru einnig að reyna að koma því á að bandarískir hermenn verði undanskyldir stríðsglæpa dómstólum á meðan þeir skilgreina þá sem þeir gruna að séu hryðjuverkamenn sem stríðsfanga og þannig geta þeir tekið af þeim sjálfsögð mannréttindi og haldið þeim föngnum á Guantanamo Bay. Varð bara að koma þessu frá mér. Þessari stefnu eru íslensk stórnvöld svo sammála! Góðar stundir

     |

Jahá

Já, þá er það staðfest. Þarf að fá mér vekjaraklukku sem sparkar mér fram úr rúminu á morgnana. Fer í það í kvöld að finna svoleiðis græju upp. Fæ einkaleyfi og stórgræði. Kannski væri bara auðveldara að fá sér kærasta sem dregur mann á lappir. Eða hvað?

     |

miðvikudagur, júlí 23

Þriðjudagur

Vaknaði á skikkanlegum tíma og brunaði í vinnUna. Ágætisdagur. Við Ágústa fórum að skoða nýju íbúðina hjá Lindu og Helga eftir vinnu. Það var ekkert smá gaman að sjá þau skötuhjúin. Þau voru svo hamingjusöm að ef hamingja væri mæld í vindstigum þá hefðu þau verið 11 vindstig til 12. Linda er svo fyndin, hún getur ekki beðið eftir því að flytja inn og er byrjuð að tína allt svona smávægilegt inn í íbúðina. Það er samt ekki komin nein húsgögn ennþá, fyrir utan stóla og eitt útileguborð. En ísskáurinn er kominn og hann er nær fullur af mat! Hún er svo mikil húsfreyja hún Linda mín:) Hringdi í mömmu á leiðinni heim og spurði hvað hún ætlaði að elda handa mér. Hún sagðist nú ekki ætla að elda neitt handa mér. Hún væri að baka og það væri nú alveg nóg. Ég mótmælti hástöfum og taldi hana á að elda burrito ef ég mundi kaupa grænmetið. Þannig að ég fékk eitthvað gott í gogginn eftir allt saman. Guðlaug kom svo í heimsókni og við brunuðum á rúntinn í Cityinu. Rifjuðum upp gamla daga og plönuðum að fara á stuðmannaball sem verður í Þorl. City helgina eftir verslumarmannahelgina. Þá eru svokallaðir Hafnardagar heima og brjálað stuð. Ætlum að reyna að hóa saman liðinu sem hékk alltaf saman þegar við vorum yngri. Það verður örugglega alveg frábært. Ég er alltaf að reyna að fara snemma að sofa en það gengur aldrei. Fór að sofa um hálf 2 sem er alls ekki nógu gott, því ég er allaf svo syfjuð á morgnana. Verð að fara að gera eitthvað í þessu. Lifið heil!

     |

Til lukku með daginn Maríanna mín

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag. Hún á afmæli hún maríaaaaaaaaaaanna, hún á afmæli í dag. Hún er 28 ára í dag, hún er 28 ára í dag, hún er 28 ára hún Maríaaaaanna. Hún er 28 ára í dag. Hún lengi lifi, húrra húrra húrra húúúúúrra!

     |

þriðjudagur, júlí 22

Á móti umferð

Kom heim úr vinnunni klukkan 18 í gær, vinn í Kópavogi og bý í Þorlákshöfn City, þannig að ég er um hálftíma að keyra heim. Var ekki fyrr lent en að mamma bað mig um að koma með sér í Reykjavík því hún þurfti að útrétta. Ég staulaðist inn í bíll og var ekki alveg að nenna því en hvað gerir maður ekki fyrir móður sína. Þegar við vorum komnar í bæinn þá fórum við á Laugaveginn að stússast. Þegar við vorum komnar neðst á Laugaveginn þá var allt lokað, líka hjáleiðin þannig að nú voru góð ráð dýr. Bílstjórarnir tóku þá upp á því að keyra á gangstéttinni hjá Sævari Karli og Sólon. Mamma elti bílana og jésúsaði sig í bak og fyrir því hún var að keyra uppi á gangstétt og á móti umferðinni þar að auki. Held að þetta hafi alveg ruglað hana í ríminu. Stuttu seinna vorum við að keyra í áttina að Skeifunni, vorum á gatnamótum Grensás og Skeifunnar, þegar frú Ásdís tók sig til og keyrði á móti umferðinni þegar hún var að taka beygju. Ég hélt að ég yrði ekki eldri, hjartað fór alveg upp í háls. Einhver karlfauskur var ekki alveg sáttur við mömmu og sendi okkur tóninn! Sem betur fer var lítil umferð og við komumst brátt afur á réttan vegahelming. Mamma var alveg pollróleg yfir þessu en hún hefði ekki verið svona róleg ef ég hefði ekið á móti umferð með hana innanborðs. Gleymi því aldrei þegar ég var nýkomin með bílpróf. Ég var að keyra í vinnuna og það var lyftari sem ók á móti okkur. Mamma byrjaði að láta mig vita að það væri lyftari á ferð þegar það voru svona 2 km að honum. Svo þegar við vorum að nálgast hann þá fór tónninn hækandi, þegar við vorum alveg að nálgast hann þá hrópar mamma: ,,Una Börg það er lyftari þarna!!! Una Bjöööörg þarna er lyyyyyyyyyftari" . Ég sagðist nú vita það og að hann væri að keyra á móti okkur en ekki á okkur. Hún hefur greinilega ekki alveg treyst mér fyrir kagganum þegar ég var að byrja að keyra. Á leiðinni heim í Cityið aftur þá reyndi ég að æsa hana aðeins upp og sagði að ég ætti alltaf eftir að prófa fallhlífastökk. Hún æsti sig ekkert, sagði bara: ,,jah, ætli ég fari nokkuð að prófa það úr þessu". Ég var svo hissa að ég átti varla orð! Ég bauðst til að gefa henni fallhlífastökk í jólagjöf en hún afþakkaði pent og sagðist heldur vilja eitthvað inn í stellið frá Tékkkristal. Skil ekkert í því. Lifið heil!

     |

mánudagur, júlí 21

Sunnudagurinn

Vaknaði um tólf leytið mjög hress eftir langan svefn. Matta fór út í bakarí og keypti brunch. Við fórum svo út á lóð til Gumma og Lísu, sátum á teppi, sóluðum okkur, borðuðum brunchinn og kjöftuðum. Rosalega erum við fjölhæf;) Spókuðum okkur þar í nokkurn tíma en fórum svo inn því að sólin var eitthvað að svíkja okkur. Stormaði svo í Cityið og svaf enn meira á meðan mamma var með tuskuæði og klófesti allt það ryk sem var í augnsýn og líka það sem ekki var í augnsýn. Sunnudagar eru sjónvarpskvöldin okkar mömmu, við horfum alltaf á sögu Forsyte ættarinnar og tökum upp 24, reyndar eru þeir þættir búnir núna en þá tökum við bara upp Taken í staðin. Horfi annars eiginlega aldrei á kassann. Skrítið að það þurfi endilega að vera 2 bestu þættirnir á sama tíma! Góðar stundir

     |

Laugardagurinn

Vaknaði um tólf leytið, gisti hjá Möttu gullmola, og við fórum og náðum í Arndísi. Það var þvílík rjómablíða að við stormuðum niður í bæ. Fórum á Vegamót til að fá okkur að borða. Þar hittum við Ármann bróður og Þórhöllu kærustUna hans. Settumst hjá þeim skötuhjúum og snæddum. Þar næst héldum við niður á Austurvöll og spókuðum okkur. þar var rosalega mikið af fólki og annar hver maður var að steggja eða gæsa einhvern! Hitti meðal annars Auði sem er að fara að gifta sig honum Frey þann 23. ágúst. Það var auðvitað verið að gæsa hana og hún sat þar í svakalega bleikum búningi og beið eftir hvað yrði næst gert við hana. Mig langaði að gæsa einhvern og spurði Möttu hvort við mættum ekki gæsa hana þó að hún væri ekki að fara að gifta sig en hún var ekki alveg á því. Kannski seinna. Hittum Gumma og Lísu og sóluðum okkur með þeim til 18:00! Það var ekkert smá gaman að fylgjast með mannlífinu á Austurvelli. Alls konar fólk var þar. Allt frá rónunum sem spiluðu Minning um mann til athafnamanna. Við örkuðum svo á Sólon þar sem Matta var búin að fá matarlystina og spókuðum okkur enn meir. Eftir spókunina á Sólon var kominn tími til að halda heim til Möttu og þar sátum við úti á svölum og sóluðum okkur enn meir. Sofnaði þar og slappaði af. Tók líka ágætan lit! Vorum að spá í að fara niður í bæ á kaffihús en nenntum því ekki, pöntuðum okkur pizzu og spiluðum Gettu betur með Gumma og Lísu. Ég tapaði naumlega fyrir Gumma en það er allt í lagi að fá silfrið!! Við spiluðum eina umferð og drukkum rauðvín, mjög þægilegt og afslappað allt saman. Eftir að Gummi og Lísa fóru þá leigðum við okkur spólu, Lilya 4-ever, ótrúlega góð mynd. Maður byrjar að horfa á hana með kökkinn í hálsinum og hann stækkar eftir því sem lengra líður á myndina, eins og hún Fríða sagði. Hvernig getur lífið verið svona grimmilegt! Var alveg búin eftir þessa miklu sól og lagðist upp í rúm með bókina hennar Betu Rokk. Ætlaði að lesa hana alla en hætti snarlega við. Hún er rosalega hrokafull og það er eins og að hún sé vinsælasta og merkilegasta manneskjan á Íslandi og Belgíu. Hún sagði til dæmis að því hærra póstnúmer því meiri lúðar búa þar. 740 Raufarhöfn = lúði, 101 Reykjavík = örugglega sæt/ur. Og svo voru fleiri alveg ótrúlega heimskulegar athugasemdir. Mér er alveg sama þótt að þetta sé hálfur skáldskapur eða ekki. Hún byggir þetta á sinni reynslu og það vantar greinilega nokkrar blaðsíður í svona fordómafullt fólk. Alla vega klára ég ekki fleiri blaðsíður af þessari bók. Góðar stundir.

     |

Föstudagurinn

Þetta var alveg ágætis föstudagskvöld. Gott veður og alles. Fór frekar seint í Reykjavík, eins og mér er einni lagið, og fór til Arndísar þar sem ég hitti Möttu, Héðinn, Þóri fyrrverandi meðleigjanda og Kötu vinkonu Þóris og Héðins frá London. Sátum heima hjá Arndísi til klukkan 2 og kjöftuðum. Reyndar ekki Héðinn þar sem hann svaf vært á sófanum. Örlítið þreyttur karltuskan. Fórum svo niður á Hverfisbar. Það er alltaf ótrúlega löng röð þar og sem betur fer voru Þórir og Kata fremst í röðinni og við gátum smyglað okkur inn. Ætla aldrei aftur að formæla þeim sem smygla sér fremst í röðina hjá vinum sínum! Jú, geri það örugglega en mér finnst allt í lagi að ég geri það! Svona er maður nú sjálfhverfur;) Hittum Dr. Guggu, vinkonu mína sem er í læknanámi í DK, alltaf gaman að hitta hana. Síhress og skemmtileg. Við dönsuðum af okkur rassinn og skemmtum okkur konunglega, að vísu var ég eiginlega ekkert kennd og sá allt sem var að gerast í kringum mig. Þórir var eini strákurinn með okkur og hann fílaði það í botn að vera miðpunktur athyglinnar. Það er skemmtileg flóra fólks á Hverfis., litla freka tíkin sem þurfti pláss á við 4 því hún sagðist vera góður dansari og þurfa pláss. Settum Þóri í að ýta við henni! En að lokum var það Harpa, sem var að vinna með mér í ÍTR sem sagði henni til syndanna og hún lúffaði! Svo voru það drukknu útlendingarnir sem klipu í allt sem fyrir varð, fegurðardrottningar, ekki-fagrar drottningar, stússí gaurinn með breik taktana og allt þarna á mili. Við vorum á Hverfis til 5 og fórum þá og fengum okkur Hlölla. Að vísu fórum við Þórir bara þangað því að Matta og Arndís voru að tala við Unnstein íþróttaálf á meðan. Mér fannst eitt mjög skemmtilegt við þetta kvöld og það var það að einhver kona út í bæ hrósaði mér í hástert fyrir pilsið mitt og veskið mitt. Ekki amalegt að fá hrós frá einhverjum sem maður þekkir ekki neitt. Góðar stundir.

     |

föstudagur, júlí 18

Blessuð sólin elskar allt...

Það var enginn smá hiti á mælinum í Cityinu í morgun þegar ég var að sóla mig þar. 30 gráður takk fyrir, að vísu skein sólin aðeins á hann. En þetta er samt mjög gott. Er ekki frá því að ég hafi tekið smá lit. Finnst ég alla vega ekkert smá brún lokuð hérna inni á skrifstofunni;)

     |

Snyrtistofa Unu

Systur hennar mömmu, Emma og Sirrý, komu í gær heim til okkar vopnaðar háralit og augnháralit. Ég átti sem sagt að snyrta þær dömur til og mömmu líka. Ég hef gert þetta í nokkur ár og það er komið ákveðið kerfi á þetta allt saman. Ég lita til dæmis Sirrý og læt bíða í 7 mín, á meðan lita ég Emmu. Svo þegar ég er búin að því þá þarf að þurrka augnabrýrnar á Sirrý svo að hún líti ekki út eins og Mikki refur. Svo þurrka ég Emmu og því næst augun á Sirrý, og svo koll af kolli. Hörkupúl! Það er nokkurs konar fjölskyldukapítalismi innan familíunnar. Á meðan ég var að lita þær stöllur þá var Pétur, sonur Sirrýjar, að tjöruhreinsa bílinn minn og bóna hann. Þannig að þetta var jákvæður vöruskiptajöfnuður fyrir mig. Mér finnst ekkert eins leiðinlegt að bóna bílinn minn. Tjah, ekki nema þá að taka til heima. Kannski ég ætti að láta Pétur taka til í íbúðinni næst í staðinn fyrir bílinn. Hann mundi örgglega ekki taka það í mál. Strákum finnst allt í lagi að þrífa bíla en ekki hús, merkilegt nokk. það er greinilega ekki eins karlmannlegt að þrífa hús eins og bíla. Þetta er viðfangsefni fyrir sálfræðinga og uppeldisfræðinga! Já, eins og ég sagði áður en ég týndi mér í nokkrum hugleiðingum þá var ég að snyrta móðursystur mínar og móður. Litaði á þeim hárið og gerði þær fínar. Á meðan herlegheitunum stóð þá kom Jói, maðurinn hennar Sirrýjar til að kíkja á verkið. Mamma sagði þá við hann: ,,Jói hvað er að sjá á þér hárið, þú ert orðinn svo gráhærður að þú lítur út eins og gamall karl!" Alltaf jafn pen hún móðir mín. Honum leist greinilega ekki vel á að líta út eins og gamall karl þannig að hann rauk út í Kaupfélag og keyti sér háralit. Ég þurfti náttúrulega að skella honum í hausinn á honum. Þetta gekk allt saman mjög vel nema hann flissaði allan tíman því að hann hlakkaði svo til að sjá svipinn á vinnufélögunum daginn eftir. Liturinn fór honum bara mjög vel og ekkert út á það að setja. Allir voða sælir og mömmu finnst hann vera miklu unglegri og ekki lengur útlítandi eins og gamall karl. Systur mömmu og fjölskyldur eru heimalingar heima hjá foreldrum mínum. Koma daglega í kaffi og spjall. Voða heimilislegt allt saman. Afi kíkir líka oft í heimsókn þannig að það er aldrei lognmolla í Básahrauninu. Hef íhugað að skrifa bók um þegar mamma og co voru að alast upp, þær eru ekkert smá fyndnar þegar þær eru að segja sögur frá uppvaxtarárunum. Maður liggur í gólfinu úr hlátri. Sérstaklegar þegar Sirrý byrjar að segja frá henni og Kalla yngsta bróður þeirra. Kannski geri ég það bara! Góðar stundir.

     |

Andskotans

Týndi öllum færslunum mínum! Þarf að skrifa allt aftur!! Arrrrrg

     |

Fyndnasti maður sunnan Alpafjalla

Hann afi minn, Uni Garðar Karlsson, er fyndnasti maður sem ég hef nokkru sinni hitt. (Hann notar reyndar aldrei Una nafnið) Ég var á leiðinni heim úr vinnunni í gær (15. júl), föst í umferðahnút á Breiðholtsbrautinni andsk... hev... djöfull..., þegar mamma hringdi í mig. Hún og afi voru strandaglópar að Hömrum, eigum veiðikofa þar, því að það sprakk á jeppanum hans afa. Ég átti sem sagt að ná í þau því þau gátu ekki tekið varadekkið undan. Það er staðsett undir jeppanum og þegar mamma spurði hann hvernig ætti að ná í það þá sagðist hann nú bara ekki hafa hugmynd um það. Hann hefði átt kaggann í 4 ár og bara aldrei þurft að nota það. Hann bjóst við að það þyrfti að þjösnast aðeins á því! Nú, þau þjösnuðust meira en aðeins og ekki kom dekkið undan bílnum. Þau gáfust upp og hringdu í mig. Ég fór heiðina og þegar ég var að koma að Hveragerði þá hringdu þau aftur í mig og sögðust vera búin að losa dekkkið. Hef varla heyrt í svo stoltu fólki áður, búin að losa dekkið og allt í lukkunnar velstandi. Ég brunaði því bara heim í Cityið sæl og glöð. Afi er ótrúlega orkumikill maður og hann getur ekki setið kyrr. Hann er 73 ára og kominn á eftirlaun. Hann ætlar nú samt ekki að fara á neitt helv... elliheimili. Hann stakk upp á því um daginn að byggja raðhús við hliðina á elliheimilinu í Þorlákshöfn og honum var alvara. Var kominn með fólk sem vildi byggja með honum en þetta stoppaði í hreppsnefndinni að ég held. Hugsa sér, að nenna ekki á elliheimili en að nenna að byggja við hliðina á því! Sem dæmi um orkUna í honum þá kom ég einu sinni að Hömrum og þá var hann þar. Hann spurði mig um leið og ég kom inn hvort ég hefði ekki tekið eftir neinni breytingu á Hömrum. Ég neitaði því og þá sagði hann ,,hva, sérðu ekki stelpa að ég er búin að slá garðinn hjá nágrannanum!". Ég hélt að ég yrði máttlaus úr hlátri. Systir hennar mömmu var að kaupa sér hús rétt hjá okkur í Cityinu og þegar ég kom í fyrsta skipti í heimsókn til hennar þá var afi uppi á þaki og var að athuga hvort það væri eitthvað ryð þar. Hann skipaði svo Sirrýju að fara og kaupa málningu. Mamma ætlar að girða garðinn okkar í sumar svo að afi hafi eitthvað að gera! Hann er líka rammpólitískur. Var Framsóknarmaður þegar Denni (Steingrímur Hermannsson) var formaður flokksins. Þegar hann fór úr flokknum þá sagðist hann vera anarkisti en núna upp á síðkastið hefur hann sagst vera kommúnisti. Hann er ótrúlega hreinskilinn og segir það sem honum liggur á hjarta. Hann kommentar á ótrúlegustu hluti. Ef honum líkaði ekki hárgreiðslan mín þá spurði hann mig hvort þetta væri skólagreiðslan og það var hans leið til að segja mér að honum þætti ég ekki vel til fara um hárið. Varð bara að deila því með ykkur hvað hann er mikil perla. Góðar stundir.

     |
|

Blessuð sólin elskar allt...

Veðrið er búið að vera ótrúlegt. Það var 30 stig á mælinum heima í morgun, skein aðeins á hann en ótrúlegar tölur. Er bara ekki frá því að ég hafi tekið lit í morgun. Finnst ég vera ægilega brún hérna lokuð inni á skrifstofunni. Maður á náttúrulega að storma í útilegu, en kannski slappar maður bara af og sötrar hvítvín með góðu fólki. Ekkert planað, kíki örugglega til Tjörva og Önnu en þau ætla að halda Teiti því þau eru að fara afur út. Hafið samband ef þið ætlið að gera eitthvað sniðugt. Góðar stundir.

     |

Snyrtistofa Unu

Systur hennar mömmu komu í gærkvöldi, Emma og Sirrý, vopnaðar háralit og augnháralit. Ég átti sem sagt að lita þær og mömmu líka. Hef gert þetta reglulega í nokkur ár. Það er komið system á þetta. Á meðan ég lita eina og bíð þá tek ég af annarri, hörkupúl fyrir mig! Systur hennar mömmu og fjölskyldur eru heimalingar heima, koma alltaf daglega í kaffisopa og spjall. Mjög notalegt allt saman og heimilislegt. Það er nokkurs konar fjölskyldukapítalismi í familien því að á meðan ég var að lita þær stöllur þá tjöruhreinsaði Pétur, sonur Sirrýjar, bílinn minn og bónaði. Þannig að vöruskiptajöfnuðurinn var jákvæður hjá mér, finnst ekkert eins leiðinlegt og að bóna kaggann. tjha, nema kannski að taka til. Maske get ég látið Pétur gera það næst þegar ég snyrti móðursystur mínar. Hann mundi örugglega ekki taka það í mál. Skrítið með stráka, þeim finnst allt í lagi að þrífa bíla en að þrífa heimilið er nú síðasta sort. Það er greinilega miklu karlmannlegra að þrífa bíla en heimili. Þetta er verkefni fyrir sálfræðinga og uppeldisfræðinga! Jói, maðurinn hennar Sirrýjar kom svo í heimsókn á meðan ég var að snyrta stöllurnar og mömmu fannst hann vera orðinn svo gráhærður að hann væri að verða eins og gamall karl. Mamma alltaf jafn pen. Nú, Jói rauk niður í Kaupfélag og keypti sér lit og ég varð að klína honum í hausinn á honum. Það tókst nú bara nokkuð vel en hann flissaði eiginlega allan tíman á meðan ég var að lita hann því hann hlakkaði svo til að sjá svipinn á vinnufélögunum daginn eftir. Þetta tókst nú bara alveg ágætlega. Allir ánægðir og að sögn mömmu lítur hann út fyrir að vera ungur en ekki gamall! Góðar stundir

     |

fimmtudagur, júlí 17

Fyndnasti maður sunnan Alpafjalla

Hann afi minn, Uni Garðar Karlsson, er fyndnasti maður sem ég hef nokkru sinni hitt. (Hann notar reyndar aldrei Una nafnið) Ég var á leiðinni heim úr vinnunni í gær, föst í umferðahnút á Breiðholtsbrautinni andsk... hev... djöfull..., þegar mamma hringdi í mig. Hún og afi voru strandaglópar að Hömrum, eigum veiðikofa þar, því að það sprakk á jeppanum hans afa. Ég átti sem sagt að ná í þau því þau gátu ekki tekið varadekkið undan. Það er staðsett undir jeppanum og þegar mamma spurði hann hvernig ætti að ná í það þá sagðist hann nú bara ekki hafa hugmynd um það. Hann hefði átt kaggann í 4 ár og bara aldrei þurft að nota það. Hann bjóst við að það þyrfti að þjösnast aðeins á því! Nú, þau þjösnuðust meira en aðeins og ekki kom dekkið undan bílnum. Þau gáfust upp og hringdu í mig. Ég fór heiðina og þegar ég var að koma að Hveragerði þá hringdu þau aftur í mig og sögðust vera búin að losa dekkkið. Hef varla heyrt í svo stoltu fólki áður, búin að losa dekkið og allt í lukkunnar velstandi. Ég brunaði því bara heim í Cityið sæl og glöð. Afi er ótrúlega orkumikill maður og hann getur ekki setið kyrr. Hann er 73 ára og kominn á eftirlaun. Hann ætlar nú samt ekki að fara á neitt helv... elliheimili. Hann stakk upp á því um daginn að byggja raðhús við hliðina á elliheimilinu í Þorlákshöfn og honum var alvara. Var kominn með fólk sem vildi byggja með honum en þetta stoppaði í hreppsnefndinni að ég held. Hugsa sér, að nenna ekki á elliheimili en að nenna að byggja við hliðina á því! Sem dæmi um orkUna í honum þá kom ég einu sinni að Hömrum og þá var hann þar. Hann spurði mig um leið og ég kom inn hvort ég hefði ekki tekið eftir neinni breytingu á Hömrum. Ég neitaði því og þá sagði hann ,,hva, sérðu ekki stelpa að ég er búin að slá garðinn hjá nágrannanum!". Ég hélt að ég yrði máttlaus úr hlátri. Systir hennar mömmu var að kaupa sér hús rétt hjá okkur í Cityinu og þegar ég kom í fyrsta skipti í heimsókn til hennar þá var afi uppi á þaki og var að athuga hvort það væri eitthvað ryð þar. Hann skipaði svo Sirrýju að fara og kaupa málningu. Mamma ætlar að girða garðinn okkar í sumar svo að afi hafi eitthvað að gera! Hann er líka rammpólitískur. Var Framsóknarmaður þegar Denni (Steingrímur Hermannsson) var formaður flokksins. Þegar hann fór úr flokknum þá sagðist hann vera anarkisti en núna upp á síðkastið hefur hann sagst vera kommúnisti. Hann er ótrúlega hreinskilinn og segir það sem honum liggur á hjarta. Hann kommentar á ótrúlegustu hluti. Ef honum líkaði ekki hárgreiðslan mín þá spurði hann mig hvort þetta væri skólagreiðslan og það var hans leið til að segja mér að honum þætti ég ekki vel til fara um hárið. Varð bara að deila því með ykkur hvað hann er mikil perla. Góðar stundir.

     |

mánudagur, júlí 14

Helgin

þetta var nú bara hin besta helgi. Slappaði af á föstudaginn og fór í grill til foreldrinsky í Cityinu. Leigði eitt stykki spólu, Catch me if u can,, sem var hin ágætasta ræma. Á laugardaginn var svo komið að veislu sumarsins. Soffía og Ingimundur héldu útskriftarveislu í Nauhólsvíkinni, nóg af söngvatni og skemmtilegu fólki. Vð mættum klukkan átta eins og lög gerðu ráð fyrir og vorum einu gestirnir í svolítinn tíma. Merkilegt hvað Íslendinar eru óstundvísir, ef manni er boðið í veislu klukkan átta þá á maður að mæta klukkan átta en ekki hálf tíu! Það var drukkið, dansað og sungið. Linda gerði allt þetta!, í fyrsta skipti í langan tíma og það var ekkert smá gaman að fylgjast með henni. Hún var í banastuði og hafði greinilega engu gleymt. Söngtextarnir hans Sibba voru dregnir upp og Arnar gítarleikari hélt uppi stuðinu. Við vorum þarna til þrjú en þá fórum við niður á 22 að dansa. Skammaði plötusnúðinn eins og venjulega og sagði honum að spila almennilegt rokk, sem hann og gerði upp frá því. Hitti Siggu sem bjó á Skerjó á sama tíma og við. Ég hef ekki hitt hana í langan tíma og það var skemmtilegt að hitta hana aftur. Íslendingar eru ekki mjög duglegir við að hrósa fólki og gera það oft á skrýtinn hátt. Sigga sló mér gullhamra og sagði að ég liti mjög vel út og ef að hún væri lessa eða strákur þá hefði hún reynt við mig, eða neglt mig eins og hún sagði. Ég þakkaði henni pent fyrir. Fór svo aftur upp í Nauthólsvík og þá voru fáir eftir. Þau vildu endilega fara í smá bað í Víkinni og gerðu það á meðan ég sat og horfði á. Hin besta skemmtun, einn fór meira að segja á Evuklæðunum út í. Eða ætti ég kannski að segja Adamsklæðunum. Fór heim um 7 um morguninn. Fór heim til Signýjar með leigubíl en þá var hún ekki komin heim. Tók þá leigubíl til Soffíu og gisti þar. Góðar stundir

     |

föstudagur, júlí 11

Fór í matarboð í gær til Dennis og Sólveigar, foreldra Unnar, og það var ekkert smá gott. Skunduðum svo í bíó og sáum Englana hans Kalla. Fín Girl Power mynd! Mér fannst þær mjög flottar og gott að stelpur fái að berja aðeins á strákunum. Mér fannst eitt hlutverk ekkert smá fyndið. Það var einn strákur sem átti að vera leigumorðingi, hann var alltaf ber að ofan en sagði aldrei orð. Hasarkroppur sem gladdi augað. Mér fannst persónan hennar Drew Barrymore ekkert smá flott. Hún er rokkari og gerir það sem henni sýnist. Hún var líka í ,,venjulegum" fötum en ekki í barnastærðum eins og hinar skutlurnar tvær. Tónlistin var mjög góð: Progidy, Chemical Brothers og margar fleiri góðar. Það var samt eitt sem pirraði mig og það var Demi Moore. Konan virðist bara ekki getað leikið! Hún var eins og illa gerður hlutur, hún er örugglega góð í Baywatch myndum þar sem hún getur hlaupið í hringi og ekki sagt orð. Mæli með að hún leiki ekki í öðrum myndum en þeim. Jæja, best að fara að drífa sig í Cityið, pabbi bauð mér í grill. Ætlar að grilla humar handa okkur. Góðar stundir.

     |

fimmtudagur, júlí 10

Góðan daginn!

Góðan daginn frú mín góð, góðan daginn frú mín góð við ætlum að selja þér pappír og berjaljós! Var að rifja það upp áðan hvað Stella í Orlofi er í raun góð mynd. Þegar ég var að kenna í Neskaupstað þá var ég oft með frasa úr Stellu á hraðbergi en fáir könnuðust við þá. Ég hætti samt ekki að tyggja frasana heldur leyfði staðarbúum bara að ég væri ekki alveg með öllum mjalla. Ég reyndar skikkaði Unni Ásu til að horfa á hana svo að hún skildi það sem ég var að tala um!

     |

miðvikudagur, júlí 9

Skítaveður

Alveg er merkilegt hvað veðrið ræður miklu í sambandi við líf manns og skap. Maður er einhvern veginn alltaf í betra skapi þegar veðrið leikur við mann. Kannski er bara ágætt að það rigni eins og hellt er úr fötu, ég braut nefnilega sólgleraugun mín og svo er þetta gott fyrir gróðurinn. Pollyönnusyndrome! Góðar stundir.

     |

þriðjudagur, júlí 8

Helgin

Ætlaði ekki að gera neitt um helgina en svo fór að ég stormaði til Eyju þeirrar er við Vestmenn er kennd. Unnur Ása vinkona frá Nes Town kom og gisti hjá okkur í Cityinu og svo var haldið á haf út á laugardeginum. þar vorum við í góðu yfirlæti hjá Guðrúnu systur hennar Unnar. Hún var óð á blandaranum og blandaði ofan í okkur einhvern jarðaberjakokteil (sem innihélt Captain Morgan, jarðaber og klaka) sí og æ. Hefði átt að fatta það strax að þetta mundi ekki fara vel í mig, en gerði það ekki. Gerðum heiðarlega tilraun til að sjá forseta voran en þá var búið að flytja allt heila klabbið út í eitthvað íþróttahús þannig að við misstum af honum. Sá hann og Dorrit reyndar á flugvellinum þegar við náðum í Ástu þannig að deginum var bjargað. Þegar nær dró miðnætti fórum við í Skvísusund, neibb er ekki skírt eftir mér, og þar var mikið húllumhæ. Hitti frænkur mínar úr Cityinu og fleira fólk. Skemmti mér konunglega en ekki allir konungar skemmta sér eins! Ég skemmti mér mjög vel en minnið ekki alveg upp á marga fiska þegar komið var undir morgun. Fór beint í Herjólf og sem betur fer var ég í koju, annars hefði skrattinn skemmt sér á minn kostnað. Hann gerði það reyndar seinni partinn á sunnudeginum því ég faðmaði klósettskálina til 21 um kvöldið! Góðar stundir

     |

mánudagur, júlí 7

Góðan daginn frú Stella! Una er farin að blogga:)

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com