miðvikudagur, desember 31

Gott nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár og bjarta framtíð. Eitt svona í lokinn. Vissuð þið að orðin tómatamót og raksápupáskar er hægt að segja bæði aftur á bak og áfram. Ekki slæmt að enda árið á þessari visku. Lifið heil

     |

Spilakvöld

var haldið í Hófgerðinu í gær. Valdi, Sædís, Þráinn og Gísli kíktu í Gettu betur keppni. Ég var Logi Bergmann í fyrstu umferð. Valdi, Sædís og Þráinn unnu þau Gísla og Soffíu. Í annarri umferð brá Þráinn sér í gervið hans Loga. Til að gera langa sögu stutta þá unnum við Gísli og Soffía þau Sædísi og Valda. Valdimarinsky var ekki sáttur. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, desember 30

jahá

Var að koma úr smá vinnustaðateiti. Það var verið að afhenda miðana til Kanarí. Já, ég er að fara til Kanarí anarí, narí, arí, rí, í eins og Hallgrímur Ormar hefði sagt. Skrítið hvað lífið breytist á stuttum tíma. Þann 3. janúar 2003 flutti ég til Neskaupstaðar að kenna, í skítakulda og bílinn minn fraus fastur við jörðina, en 3. janúar 2004 verð ég í flugvél á leiðinni í sælUna. Lífið er fljótt að breytast. Eða öllu heldur: maður er fljótur að breyta lífi sínu. Góðar stundir

     |

LOTR

Skellti mér á ræmUna Hilmir (Snær) snýr aftur í gærkvöldi. Bara eitt um það að segja: Magnað. Lifið heil

     |

mánudagur, desember 29

Skítaveður

Skítaveður

     |

Hangs

Ásdís og co. náðu í mig í gær um hádegisbilið og við fórum í snæðing. Var reyndar ekki alveg upp á mitt bezta. Svo var bara hangsað heima hjá Skrattheu Skorrdal. Horft á eins og eina ræmu og kjafað. Stundum er gott að gera ekki neitt. Lifið heil.

     |

Hafði það

mjög gott yfir hátíðarnar. Fór á Þorláksmessu til Þorlákshafnar í skötuveislu. þar var öll familían hennar mömmu samankomin. Jólin samanstóðu svo af veislum og aftur veislum. Já, og fjölskylduboðum. Emil Karel. litli bróðir minn, drap mig næstum úr hlátri þegar hann fann prumpupúða heima hjá Emmu frænku og setti undir rassinn á afa þegar hann var að setjast niður. Afa brá reyndar svolítið en var fljótur að jafna sig. Það þarf svo lítið til að gleðja mig. Sælir eru einfaldir. Fór í bæinn á laugardaginn og hitti Ömmurnar + Sveinsdóttur og Mannfræðinginn. Týndi pasmínunni minni, rautt sjal, og meira verður ekki sagt um þetta kvöld. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, desember 23

Gleðileg jól

GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR. BJARTA FRAMTÍÐ. Þeir sem eru ekki búnir að fá jólakort frá mér, þá er það hér. Lifið heil og hafið það gott um jólin.

     |

Sagan og siðirnir, Jól

Jól hefjast nú aðfarakvöld 25. desember. Þau eiga sér á norðurslóðum ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum. Nafnið er norrænt, og er einnig til í fornensku. Frummmerking þess er óljós. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið, sennilega með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig þau voru haldin, nema að þau voru "drukkin" með matar- og ölveislum. Buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju. Norræn jól féllu síðar saman við kristna hátíð. Svipuð kristnun heiðinna hátíða um þetta leyti hafði áður átt sér stað suður við Miðjarðarhaf, og var þá ýmist minnst fæðingar krists eða skírnar. Á 4. og 5. öld komst sú venja víðast á að minnast fæðingarinnar 25. desember en skírnarninnar og tilbeiðslu vitringanna 6. janúar, og má þangað rekja jóladagana 13 á Íslandi. Helgi aðfangadagskvölds á rót sína í vöku sem almenn var kvöldið fyrir katólskar stórhátíðir enda var oft talið að sólarhringurinn byrjaði á miðjum aftni klukkan sex. Fasta fyrir jól var einnig lögboðin, stundum miðuð við Andrésmessu 30. nóvember, en oftast fjórða sunnudag fyrir jól. Þaðan eru sprottnir aðventusiðir síðari tíma.
Mikil þjóðtrú tengist jólum og jólaföstu í miðju íslensku skammdegi. Grýla er þekkt sem flagð frá 13. öld og er á 17.-18. öld barnaæta tengd jólunum. Fyrst fréttist af jólasveinum á 17. öld sem afkvæmi Grýlu og miklu illþýði. Þeir taka nokkuð að mildast á 19. öld, koma þá ýmist af fjöllum eða af hafi, eru oftast 9 eða 13. Spurnir eru af rúmlega sjötíu jólasveinanöfnum. Seint á 19. öld tekur eðli jólasveina og útlit að blandast dönskum jólanissum annarsvegar en evrópskum og amerískum jólakarli hinsvegar. Um 1930 verður sú aðlögun að jólasveinarnir koma fram í rauðum alþjóðaklæðnaði og verða gjafmildir, en halda íslenskum sérnöfnum og fjölda. Um miðja 20. öld fóru jólasveinarnir að gefa börnum í skóinn að norðurevrópskum sið.
Til jólahaldisns var oft slátrað kind á fyrri öldum og höfð kjötsúpa á aðfangadagskvöld. Hangiket var einnig fastur jólamatur, en rjúpur upphaflega fátækrafæði. Vegna korneklu voru grautar og brauðmeti þó mesta nýnæmið eins og við önnur hátíðabrigði á fyrri öldum, þar á meðal laufabrauðið sem áður virðist útbreitt um allt land en einkum norðan og norðaustan eftir miðja 19.öld. Snemma á 20 öld hefst kökugerð í stórum stíl til jóla og yfirgnæfði sjálfan jólamatinn, en hefur nú látið undan síga fyrir fjölbreyttara veislufæði.
Jólatré breiddust upphaflega út frá mótmælendum í Þýskalandi. Einstaka grenitré tók að berast til Íslands á síðara hluta 19. aldar en slík jólatré urðu ekki algeng fyrr en um síðari heimsstyrjöld. Þangað til var hérlendis oftast notast við heimasmíðuð tré. Jólagjafir tíðkuðust ekki hérlendis fyrr en seint á 19. öld, og voru sumargjafir öldum saman almennari. Hinsvegar fékk vinnufólk og heimilsmenn sitthvað klæðakyns fyrir jólin sem einskonar launauppbót. Tengdar því eru sagnir um jólaköttinn, sem á sér ættingja í nautslíki við Eystrasalt og annan af geitarkyni í Noregi

Þá vitið þið það...

Tekið af þessum vef.

     |

Jólin nálgast

Þá er Þorláksmessa upp runnin og því er það mjög viðeigandi að fara í Þorlákshöfn Citý í kvöld. Er búin að kaupa allar jólagjafir, á bara eftir að pakka þeim inn. Þetta er því allt að smella saman. Annars fæ ég ekki magasár þó að allt sé ekki tipp topp. Maður á að njóta þess að vera til á þessum árstíma, sem öðrum. Nú er bara að klára vinnudaginn, rölta Laugaveginn og fara svo í Citýið. Góðar stundir

     |

mánudagur, desember 22

Ekki er gott að vera...dökkhærð(!)Hún var svo mikil ljóska að hún...


skilaði treflinum því að hann var alltof þröngur.....gat ekki farið á vatnaskíði því að hún fann ekkert vatn með brekku.....gat ekki unnið í apóteki því að lyfjaflöskurnar pössuðu ekki í ritvélina.....varð yfir sig ánægð þegar hún kláraði púsluspil á 6 mánuðum..því það stóð 4-6 ára á kassanum.....var föst í rúllustiga í 4 tíma því að rafmagnið fór af.....gat ekki hringt í 112 því að hún fann ekki 12 á símanum.....þoldi ekki M&M því að það var svo leiðinlegt að taka utan af þeim.....slasaðist alvarlega þegar hún var að raka saman laufum..hún datt niðurúr trénu.....hvað þýðir "brrrúmmm... skrenss! brrúúúmmmm!!!!... skrens... brúúúmmm... skrens..? ljóska á bil við blikkandi rautt ljós...tvær ljóskur læstu lyklana sína innan í bílnum og voru að reyna að komast inní hann... önnur sagði, " við verðum að vera fljótar, bráðum fer að rigna og toppurinn er niðri!!

     |

Helginsky

Helgarfléttan að þessu sinni: fór í stúdentaveislu til Magneu Helgadóttur frænku minnar á föstudagskvöldið. Hitti þar ættmenni og önnur menni. Restinni af kvöldinu var svo eytt í rólegheitum. Vaknaði snemma á laugardagsmorguninn og fór í Body Combat í Baðhúsinu með Soffíu. Ægilega fínn tími. Fínt að fá útrás þarna. Er reyndar með ægilega harðsperrur núna en vel þess virði. Eftir tímann lágum við svo í pottinum í leti. Ármann náði svo í mig og við fórum að versla jólagjafir. Vorum nokkuð snögg að því enda vissum við alveg hvað við ætluðum að gefa fólkinu. Þórhalla bættist í hópinn og við hittum mömmu, pabba og Emil Karel á Ara í Ögri og fengum okkur að borða. Svo var farið heim að taka sig til fyrirheimkomupartýið hennar Ágústu. Þetta var helv...gott partý. Soffía tók myndir. Fórum svo niður í bæ en það voru raðir alls staðar. Fórum inn á nokkra staði fyrir heimför. Sunnudeginum var svo eytt í almennri leti. Góðar stundir.

     |

föstudagur, desember 19

Það er svo glatt...

á góðra vina fundi. Held að ég hafi overdozað á malti og appelsíni í gær. Kíkti í heimsókn til Stínu og Kristjáns í gærkvöldi. Fannst tilvalið að kíkja til þeirra og fara með jólakortið í leiðinni. Langt síðan ég hef séð þau skötuhjú og hann Sigurgísli Fannar litli ...er bara ekkert svo lítill lengur. Farinn að labba og allt. Fékk malt og appelsín þar. Ákváðum að reyna að kíkja á skrallið í Citýinu sem verður á milli jóla og nýjárs. Gaman að því. Lalli og Hafdís buðu mér svo að kíkja til þeirra. Þar var fyrir múgur og margmenni: Signý, Þráinn, útValdi, Maggi, Gústi, Hlynur og Ingimundur. Fékk mér náttúrulega meira malt og appelsín þar. Alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk. Strákarnir fóru svo í öl á ÖlstofUna en hún Una fór heim að sofa. Enda verður að spara kraftana fyrir laugardagskvöldið þegar skemmtunin mikla verður. Lifið heil og góða helgi.

     |

fimmtudagur, desember 18

Staðföst stúlka

Já, ég skrifaði 17 jólakort í gær og saumaði pilsið. Geri aðrir betur. Fór líka og hitti Maríönnu hina óléttu, Soffíu, Lindu og prinzipezzu Guðbjörgu Ingu í Kringlunni. Prinzipezzan var líka svona ægilega hrifin af spennunum sem ég var með í hárinu. Marg skoðaði þær og spugleraði mikið. Hún er líka nýfarin að labba og fannst ekkert smá mikið sport að spóka sig í kringlunni. Hittum meðal annars Herra Benna sagnfræðing og hann hélt að ég ætti barnið. Gaman að því. Maríanna er orðin blómleg enda er stutt í fæðingUna. Gaman að hitta hana. Stoppaði reyndar stutt í Reykjavíkinni því að hún var á leið norður til familíunnar. Góðar stundir

     |

miðvikudagur, desember 17

það er nú margt til í þessu..., en ekki öllu...

Fiskarnir

Augu Fisksins eru falleg og tjáningarrík og fatastíllinn er afar persónulegur, oft með frumlegu mynstri og sniði eða á hinn bóginn gömul, snjáð föt sem eigandinn hefur notað árum saman. Fiskar hafa afar mikinn áhuga á fótum og fótabúnaði, sem getur einkennst af sömu öfgum og annar fatnaður, en fætur Fisksins eru oft fallega lagaðir og nettir. Fiskar eru oftast miklir dansmenn og hafa yndi af allri tónlist. Þeir eru víðsýnir og nægjusamir og láta vel að stjórn, nema þegar þeir eru beittir þrýstingi. Fiskarnir eru einkar uppteknir af þjáningum annarra, og reyndar líka sínum eigin, og margir í þessu merki finna hjá sér þörf fyrir píslarvætti. Fiskar eru rómantískir og dreymnir og hafa djúpa ást á lífinu, en láta sig oft reka með straumnum og eru litlir baráttumenn, enda eiga þeir bágt með að vinna markvisst. Þeir hafa næma eðlisávísun og eru mjög hjartahlýir og hjálpsamir, enda eru þeir oft vinamargir, en stundvísi er ekki þeirra sterkasta hlið. Fiskar hafa mikla sköpunargáfu og finna sér oft starf sem tengist listum, gjarnan ljóðlist eða rómantískum bókmenntum, og margir Fiskar eru tónlistarmenn eða vinna við kvikmyndir. Fiskar hafa líka einlægan áhuga á náttúrunni og umhverfisvernd, trúarbrögðum og félagslega bágstöddu fólki, svo störf á þeim vettvangi gætu veitt þeim mikla ánægju. Draumlyndi Fisksins veldur því hins vegar að hann verður oft fyrir vonbrigðum í lífinu og hann mætti gjarnan tileinka sér raunsærri lífssýn á ýmsum sviðum

Lifið heil

     |

Bissinsky

í gær ætlaði ég að klára að skrifa jólakortin og vera ægilega dugleg heima hjá mér en margt fer öðruvísi en ætlað er. Fór og keypti mér efni í leðurpils, sem er þá eðli hlutarins samkvæmt úr leðri, sem ég ætla að vera í á laugardaginn þegar heimkomupartýið mikla verður fyrir mastersnemann. Keypti mér nefnilega ægilega sætan bol á mánudaginn. Ætlaði svo að fara heim og slappa af, skrifa kort og sauma. Þá hringir Sveinsdóttir, Soffía. Hún sat á Súfistanum og langaði að labba Laugaveginn. Fannst það ágætishugmynd. þannig að við örkuðum upp og niður veg þann. Fengum okkur svo snæðing á Vegamótum. Á meðan við vorum að þessu stússi þá hringdi Sveinsdóttir, Hildur Krisín og bað mig um að koma og redda sér því hún er að framkvæma mælingar í sambandi við BS ritgerðina sína í sjúkraþjálfun. Það hættu 2 einstaklingar við og hana vantaði fórnarlömb. Þetta var mæling á e-m viðbrögðum í hálsi. Mín viðbrögð voru í fínu lagi. Og þyki þess vegna kvenkostur góður í mörgum heimslálfum;) Dró Soffíu með mér. Þóra,konan hans Kidda Kalla kom svo í heimsókn og gaf mér gjöf. Hjálpaði henni mikið í vetur í sambandi við ritgerðasmíðar. Sætt af henni að gefa mér þetta. Að lokum skelltum við Sveinsdóttir okkur á Sólon þar sem ég var búin að mæla mér mót við Signýju. Hún var eitthvað að kvarta um daginn að hún sæi mig aldrei. Það var snarlega bætt úr því. Nú verður ekkert rugl í kvöld. Jólakortin verða skrifuð og pilsið saumað. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, desember 16

Sá/sú

...sem segir að maður hafi ekki endalaus not af fermingargjöfunum sínum...hefur rangt fyrir sér. Ég fékk til dæmis einn forláta útvarpsvekjara í fermingargjöf. Fann hann uppi í skáp um daginn og núna er hann útvarpið mitt í vinnunni. Ótrúlega nýtin húsmóður hún ég (klapp á öxlina Una) Fermingarútvarpsvekjarinn...gjöf sem heldur áfram að gefa... Góðar útvarpsvekjarastundir

     |

Stjörnuspáin mín

FISKAR 19. febrúar - 20. mars
Þú ert tilbúin/n til að nota eigur þínar á nýjan hátt. Þú sérð að það má nýta þær á annan hátt en þú hefur gert til þessa.

Kannski ég fari núna að sitja í sófanum...

     |

Skrýtni leikfimi kennarinn: partur II

Skellti mér í leikfimi í gær, sem er ekki í frásögur færandi nema bara hvað að sérvitri kennarinn var aftur að leysa Ásu af. Hún var nú reyndar í skóm núna. En hún var berfætt síðast. Hún talaði non stop allan tímann og nú veit ég eiginlega allt um fjölskyldu hennar og hvað fyrrverandi maðurinn hennar vildi skíra börnin þeirra. Vildi skíra þau Sigurð og Sigríði. Nei, það fannst henni ekki sniðugt því að hún gat ekki borið það fram. Hún er ensk. Já, og systir hennar er að koma til landsins núna 21. des með dóttur sína. Eróbikk kennarinn er ekki búinn að skreyta, ætlar að bíða eftir systurinni sem er að koma frá Hong Kong. Maðurinn hennar er að vinna þar við eitthvað tengt tölvum. Já, fyrst minnst er á tölvur þá segist hún ekki eiga tölvur og er líklega sú eina á Íslandi, að hennar sögn. Þegar hún er á bekkjarkvöldum hjá syni sínum, sem er 7 ára, þá vilja allir skiptast á e-meilum. Það getur hún ekki, því hún á ekki tölvu! Gæti sagt meira um hana en þetta er nóg. Hún gerði eiginlega engar æfingar heldur sagði okkur að gera þær. ,,Lengra stelpur, beygja sig lengra niður og taka á því!" Ekki hata mig, þið eigið eftir að þakka mér fyrir þetta", Eruð þið ekki í stuði fyrir armbeygjur!" Þetta eru allt setningar sem hún notaði inn á milli þess sem fjölskyldusagan var rakin. Hún gekk á milli og sagði sögur. Mér fannst það nú svo sem allt í lagi en þegar hún sagði við mig í miðjum tíma: ,,flott á þér hárið, ég er alltaf að reyna að taka mitt svona upp en gengur aldrei" Þá gat ég ekki varist brosi. Það síðasta sem ég er að hugsa um þegar ég er í Eróbikk er hvernig hárið á mér lítur út. En sérvitringar eru þeir sem gefa lífinu gildi. Hef einstaklega gaman að þeim. Góðar stundir

     |

Ráðhildur ráðagóða

Ekki vera með opið ílát með body lotion-i í bílnum og keyra svo eins og brálæðingur heim... það er ekki að virka. Lifið heil

     |

mánudagur, desember 15

Helgin

Þetta var rólegheita helgi. Kærkomið. Þetta er fyrsta helgin í rúma 2 mánuði þar sem ekkert er á planinu, það er að segja. engin afmæli, innflutningspartý, út að borða eða jólaglögg. Við Soffía fórum til Önnu Rúnar að horfa á Idol á föstudagskvöldið. Fór svo snemma í rúmið. Reyndi að klára Ilminn en það er svo merkilegt að ég get ekki lesið nema cirka 3 blaðsíður þegar ég er komin upp í rúm að þá er ég steinsofnuð. Vakna svo með bókina við hliðina á mér eftir svona klukkutíma. Merkilegt alveg. Það mætti halda að ég mundi læra af þessu og hætta að lesa uppi í rúmi... en svo er ekki. Á laugardaginn vaknaði ég eldhress og skellti mér í baðhúsið fyrir allar aldir. Ægilega hress alveg. Var þar fram að hádegi og skellti mér svo í Þorlákshöfn city. þar tóku foreldrar á móti mér. Sirrý systir hennar mömmu og Jói maðurinn hennar buðu okkur svo í mat. Þar var setið frameftir. Á sunnudaginn var svo laufabrauðsgerð í Básahrauninu undir styrkri stjórn frú Ásdísar móður minnar. Þetta er árleg hefð sem ég missi aldrei af. Þarna sameinast fjölskyldan mömmu megin og gerir laufabrauð á meðan við hlustum á jólatónlist og spjöllum. Heljarinnar framleiðsla, gerðum yfir 200 kager. Brunaði svo í bæinn um 21:00 leytið. Eða brunaði og brunaði ekki. Það skall á blindbylur og bílaröðin var á 20 km hraða. Rétt sá í næsta bíl og næstu stiku. Stundum varla það. Já, alltaf ævintýri að fara í Citýið. Góðar stundir

     |

Ég vissi það!

Ég er Chandler. Síðast þegar ég tók þetta próf þá var ég Rachel. Greinilega breytt kona í dag... Sá þetta próf hjá Möggu.

I'm Chandler Bing from Friends!

Take the Friends Quiz here.

created by stomps.

En hvað varð um kommenta kerfið. Það er dottið niður. Lifið heil

     |

föstudagur, desember 12

Tónlistargetraun

Hvað heitir lagið og hver/hverjir sömdu textann:

Salernin eru sautján,
sannkölluð guðsnáðhús,
kerlaugar koparslegnar,
úr krönum þar rennur bús


...

Ég bið ekki um lán í bönkum,
bankar fá lán hjá mér.
Ég breyttist úr bjána blönkum
í breiðvaxinn miljóner


í verðlaun er gleði og hamingja í 2 klukkustundir og 18 mínútur.

Lifið heil og góða helgi.

     |

Javla

Áttaði mig á því í morgun að það er skuggalega stuttur tímí í það að ég svamli um í sjónum á Kanarí. Og ég sem á ekki sundbol. Sundbolurinn minn er enn í Bláa Lóninu eftir óvissuferðina með starfsmönnum félagsmiðstöðvanna í Grafarvogi (2 ár síðan). Ferðin var greinilega svo leynileg að sundbolurinn minn ákvað að fela sig... Best að drífa í því að redda sér einhverjum fataleppa til að vera í. Stutt í brottför og allt í volli. Nei, nei þetta reddast allt saman. Fer nú ekki út fyrr en 3ja jan. Hef nægan tíma. Athugaði með passann í gær og hann dugir í 4 ár í viðbót. Gott að hafa svoleiðis hluti á hreinu. það væri leiðinlegra að standa fyrir framan tollvörðinn á Keflavíkur flugvelli og halda ræðUna ,,já, en ég hélt að passinn væri ekki útrunninn". Góðar stundir

     |

fimmtudagur, desember 11

Fleiri próf fleiri próf fleiri próf

Tók prófið hvernig leiðtogi ég er. Sá þetta hjá honum Hirti frjálsa. Niðurstaðan varð þessi:Góðar stundir

     |

Pólitískar stórfréttir

Voru að gerast í Sviss. Þeir eru nú ekki mikið fyrir breytingar blessaðir og hafa haft sömu ríkisstjórnina frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. 4 flokkar hafa átt aðild að samsteypustjórn og ráðherrarnir hafa verið sjö: 1 frá svissneska þjóðarflokknum. 2 róttækir, 2 sósíalistar og 2 frá kristilegum demókrötum. Núna fékks svissneski þjóðarflokkurinn hins vegar einn ráðherra í viðbót og hefur 2 en kristilegir demókratar misstu einn ráðherra. Hægri áhersla inn fyrir miðjuna. Það var hann Christoph Blocher sem fékk stólinn eftir sigur í þingkosningunum í október. Flokkurinn hefur verið að halla sér til hægri og fengið aukinn stuðning með því að vera í andstöðu við innflytjendur og fyrir að vera andsnúnir ESB. Minnir svolítið á Haider í Austurríki. Þetta virðist vera ríkjandi núna að hægri flokkar eru að öðlast meiri vinsældir út á innflytjendamál. Við Íslendingar höfum hingað til ekki verið samtíða öðrum ríkjum í pólitískum stefnum (nema USA auðvitað því við höfum stundum ekki sjálfstæða utanríkisstefnu). Þorri þjóðarinnar hefur verið hægri sinnaðri og meiri einstaklingshyggju fólk en nágrannar okkar í Evrópu. Hvað ætli líði langur tími þangað til Sjálfstæðisflokkurinn eða hinn nýi frjálshyggjuflokkur ,sem ætlar að bjóða sig fram í næstu kosningum, fari að beina sjónum sínum að þessum málum? Það verður fróðlegt að sjá. Það gerist kannski ekki á meðan atvinnuleysi er lítið en þegar/ef það eykst þá megum við kannski allt eins eiga von á því. Vitiði til. já, það verður fróðlegt að sjá.


Þingfararkaupið og eftirlaun forsætisráðherra

Nú liggur fyrir á þingi að formenn stjórnmálaflokkanna, sem ekki eru ráðherrar, fái 50% álag á þingfararkaup. Skyldi þetta vera vísbending um að þegar Davíð víkur úr forsætisráðuneytinu, fyrir Halldóri Ásgrims, þá muni hann verða óbreyttur þingmaður. Ja, maður spyr sig? Eða skyldi hann fara á eftirlaun fyrst það er búið að búa svo í haginn fyrir hann að hann geti lifið góðu lífi af þeim. Samkvæmt frumvarpinu er sett sérákvæði um eftirlaun forsætisráðherra. Hafi hann gegnt embættinu í a.m.k. eitt ár öðlast hann rétt til eftirlauna samkvæmt sama hlutfalli og forseti Íslands. Í frumvarpinu segir að eðlilegt sé að um fyrrverandi forsætisráðherra gildi sérregla sem sé nokkru hagstæðari en fyrir aðra ráðherra þar sem hann er á hverjum tíma hinn pólitíski leiðtogi þjóðarinnar. Eftirlaun hans verða 60% af heildarlaunum, þ.e. ráðherralaunum og þingfararkaupi á hverjum tíma. Hafi hann gegnt embættinu lengur en eitt kjörtímabil verða eftirlaunin 70% og 80% hafi hann gegnt því lengur en átta ár. Davíð hefur nú verið aðeins lengur en átta ár!

Lifið heil

     |

Muse

Dreif mig á tónleikana með Sveinsdóttur og Ásdísi. Við Ásdís erum náttúrulega félagar í ömmufélaginu (ML stúlkurnar) og í gær leið okkur eins og alvöru ömmum. Það var ótrúlega mikið af litlum krökkum þarna inni. Sá til dæmis Ása bróður hans Steinars, sem er hvað 13 ára. Hitti líka helminginn af krökkunum sem voru að vinna hjá mér þegar ég var verkstjóri í Citýinu. Alltaf gaman að hitta þau. Mér fannst samt ekki alveg nógu skemmtilegt að sjá 14 ára krakka með rettuna í munninum og reyna að vera það sem þau voru svo innilega ekki. Sad sight. Eitt af mörgu skemmtilegu við að fara á tónleika er að sjá alla þessa flóru fólks. Það úði og grúði af alls konar fólki þarna. Til dæmis litli rokkarinn sem var fyrir framan mig í langan tíma. Hann hoppaði allan tímann og á tímabili kíkti ég í áttina að skónum hans til að athuga hvort að hann væri örugglega ekki með trampólín þarna niðri. Svo var ekki. Hann hamaðist svo mikið að það var ekki svitalykt af honum... heldur meira svona kattarhlandslykt! Þegar hann fékk nóg af hoppinu þá kom annar fyrir framan mig og hann var svo stoned að ég hélt að hann væri sofandi. Svo var líka parið sem vangaði næstum allan tímann. Hnuss. Ég varð nú svolítið hissa. Ég mundi aldrei tíma því að vanga heila rokktónleika, og finnst það ekki passa. Ég hef greinilega aldrei verið svona ástfangin... Góðar stundir

     |

miðvikudagur, desember 10

I am aMUSEd!

Jæja, best að brUna heim úr vinnunni og gera sig klára fyrir tónleikana. Já, á meðan ég man. Lesið þetta. Gulli er með fyndnari mönnum! Lifið heil

     |

Frost hrmpf

Þegar ég kom út í morgun þá var bíllinn minn dulítið frosinn. Ég byrjaði á því að reyna að opna bílstjórameginn. það gekk ekki sem skyldi. Þá prófaði ég að opna farþegameginn en það gekk ekki heldur. Nú voru góð ráð dýr. Allt í einu kviknaði á ljósaperu fyrir ofan höfuð mitt. Eeeeen skottið hugsaði ég og skellti mér fyrir aftan bílinn. Jú, ég gat opnað skottið. Ég þurfti að taka skilrúmið út, opna sætin og klöngrast inn í bílinn. Það tókst! Ég er eiginlega hissa að nágrannarnir hafi ekki reynt að kalla á löggUna. Einhver að klöngrast inn í bíl snemma morguns. Þetta lánaðist allt saman og nú er það næst á dagskrá að kaupa sprey til að setja í falsinn á hurðinni og e-ð dót sem hindrar að lásinn frjósi líka. Góðar stundir

     |

Reykt ýsa

Sveinsdóttir sambýlingur eldaði í gær reykta ýsu og nætursaltaða. Var að bjóða afa sínum í mat. Hún spurði mig hvort að ég borðaði ekki þetta hnossgæti. Ég sagði nú að ég hreinlega vissi það ekki, hefði aldrei borðað svoleiðis. Hún varð nú ekki lítið hissa að dóttir sjómanns hefði aldrei smakkað þetta. Nú, ég smakkaði og þetta er allt í lagi. Það er nú saga til næsta bæjar að Selfyssingur skuli hafa gefið sjómannsdóttur fisk sem hún hafði aldrei smakkað. Lifið heil

     |

þriðjudagur, desember 9

Dugleg, já eða því sem næst

Skrifaði heil 18 jólakort í gærkveldi, og 2 hálf. Nú eru bara tveirþriðju eftir. Ekki svo mikið. Skrapp svo í hádeginu í hitting á Vegamótum með Signýju og Hafdísi. Fékk mér humarsúpu. Hún var ágæt, þó ekki eins góð og á Ara í Ögri. Þar er hún eðal. Lifið heil

     |

mánudagur, desember 8

Rólegheit, ekki alveg jafn mikil rólegheit og smákökur

Föstudagur

Fór í Þorlákshöfn city beint eftir vinnu því að ég var búin að lofa mér í fóstrustarf. Gætti Emils Karels, 9 ára bróðir minn, Péturs Freys og Núma Snæs frænda minna. Höfðum það afskaplega gott, horfðum meðal annars á Idol. Ánægð með að Jóhanna Vala datt út. Mér fannst mjög fyndið þegar ég kom heim. Mamma spurði mig hvort að ég tæki ekki eftir neinni breytingu á heimilinu. Ég sagði náttúrulega að jólaljósin væru ákveðin breyting. Hún var ekki sátt við svarið þannig að ég fór inn í stofu og þar blasti við mér nútt sófaborð. Mamma ægilega stolt. Svo var annað borð líka við hliðina á sófanum. Hún fór samt eitthvað undan í flæmingi þegar ég spurði hana um verðið. 160.000 kall fyrir borð! Nú veit ég hvaðan ég hef eyðslusemina. Ég rak allt hollið í rúmið um miðnætti og lagðist upp í rúm með bók. Emil Karel sá ljós hjá mér og laumaðis upp í til mín með bók. Hann var að lesa Elías kemur heim, Elías bækurnar voru einmitt mitt uppáhald þegar ég var á hans aldri. Auður Haralds er snillingur.

Laugardagur

Vaknaði um 9 leytið og gaf strákunum morgunkorn. Við horfðum svo á Fóstbræður, Áramótaskaupið 2002 og fleira fram að hádegi. Fór svo með þá til afa en hann ætlaði að gæta þeirra þar til foreldrar kæmu aftur á sunnudeginum. Fór í Cos og keypti mér nærföt og brunaði svo í klippingu. Það er fátt eins þægilegt og þegar verið er að dúllast í hárinu á mér. Stormaði svo heim til að klæða mig fyrir kvöldið. Vorum öll ægilega fín. Við Soffía náðum svo í Ingimund og Gerði og brunuðum svo á Broadway þar sem við sáum Le Sing. Hafdís reddaði þessu ódýrt, því vinkona hennar er að syngja í sýningunni. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Bjarni töframaður var okkar þjónn. Mér fannst það dulítið fyndið og reyndi að setja hann út af laginu. Tókst, að ég held, einu sinni. Hætti því svo fljotlega. Eftir matinn og sjóvið fórum við heim til Munda og Gerðar þar sem ég skipti um föt. Ekki hægt að fara í sparikjólnum niður í bæ. Þangað komu svo Gústi og Maggi með einn vin sinn. Hann reyndi að sálgreina mig en ég varðist fimlega. Eftir nokkurn tíma sagði hann,, ég næ ekki að opna þig. Þú ert greinilega flókinn kvenmaður". Ég sagði að ég hefði nú getað sagt honum það strax. Skunduðum svo á Thorvaldsen. Ekki alveg minn bolli af te en allt í lagi. Skratthea Skorrdal og Ásdís komu þangað en við fórum fljótlega á Hverfis. Matta vildi fara inn á alla staðina á leiðinni en ég náði að semja við hana um að fara bara inn á Ara og Hverfis á leið okkar á 22. Eftir Hverfis fórum við á 22. Hittum Gísla og Sonju þar. Það er kominn nýr eigandi að 22 og varð ansi vör við breytingarnar. Það var ömurleg tónlist þarna. Einhver house andskoti. Fór og talaði við barþjónana sem sögðu mér að fara og tala við eigandann, sem ég og gerði. Brýndi fyrir henni að hún myndi tapa öllum fastagestunum sem kæmu til að hlusta á rokk. Það eru fullt af börum sem eru með þessa gerð af tónlist en það vantaði rokk stað. Hún lofaði mér því að þetta yrði ekki svona næst. jei. Við flúðum tónlistina og fórum aftur á Hverfis. Það gerist aldrei að það er betri tónlist á Hverfis en 22. Gerðist á laugardaginn. Hittum Hrafn tilvonandi föður og við dönsuðum eins og vindurinn. Það er ekkert smá gaman að dansa við hann. Hann snéri manni hægri vinstri og dýfur teknar. Var komin heim um 6 leytið, eftir ótrúlega skemmtilegt kvöld.

Sunnudagurinn

Fór með Signýju Zen, Skrattheu Skorrdal og Ásdísi í mat. Brunaði svo heim og var andlegur stuðningur fyrir Sveinsdóttir sambýlingi ofurhúsfreyju sem var að baka 3 smákökusortir og jólabrauð. Hún dúkaði svo á borð og við fengum fullt af gestum í heimsókn. Linda, Helgi og Prinzezzan Guðbjörg Inga komu ásamt Steina, Tóta og Valda. Slappaði svo af. Ægilega fínn sunnudagur alveg hreint. Góðar stundir

     |

föstudagur, desember 5

Einhver próf...

...verður maður að taka. Er óvön að þurfa ekki að taka nein próf um þetta leyti þannig að eitthvað verður maður að hafa fyrir stafni.

Artistic
You are naturally born with a gift, whether it be
poetry, writing or song. You love beauty and
creativity, and usually are highly intelligent.
Others view you as mysterious and dreamy, yet
also bold since you hold firm in your beliefs.


What Type of Soul Do You Have ?
brought to you by Quizilla


Er þetta ég?

     |

Love actually

Ég ætlaði að fara í KringlUna í gær að versla föt með Signýju og Hafdísi. Ætlaði að leita mér að bol til að fara á jólahlaðborðið. Ég var þar í svona 10 mín þegar Matta hringdi og við vorum fara í snæðing á Vegamótum með Ásdísi og Arndísi. Skildi því þær stöllur, Signýju og Hafdísi, eftir og dreif mig til Móta þeirra er við Veg er kennt. Fínasti snæðingur alveg. Eftir matinn stormuðum við í KringlUna því að við ætluðum í bíó, á Love actually. Hún var ekki sýnd fyrr en klukkan 21:00 þannig að við gátum spókað okkur í heilan klukkutíma. Náði meira að segja að kaupa mér eins og einn bol. Axlarbrandarar voru líka sagðir í bílförmum, held að ég sé með marblett á öxlinni! Myndin var æði. Held að við stöllur höfum öðlast á ný trú á karlmenn og ástina. Ekki slæmt það. Hvet alla til að fara á hana. Breskur húmor með rómantísku ívafi. Ég hef mikið yndi af kaldhæðnislegum húmor og verð að viðurkenna það að ég er líka svolítill sökker fyrir rómantíkinni.

Verð að þakka öllum þeim sem hafa boðið mér gömlu skóna sína, en ég held að ég verði að afþakka. Valdi bauð mér til dæmis gömlu takkaskóna sína, númer 46!. Kannski ég geti notað þá sem skíði. Er ekki annars hægt að taka takkana af? Lifið heil.

     |

fimmtudagur, desember 4

Brandur Ari

Sá þennan brandara hjá henni Auði og fannst hann helv...góður: Hvers vegna er Davíð Oddson ekki ennþá kominn á frímerki?...Þá mundu sjálfstæðismenn ekki vita hvorn hlutann ætti að sleikja...

     |

Skór

Haldiði að mér hafi ekki áskotnast þessir fínu skór í morgun. Hún Jórunn sem er að vinna með mér gaf mér skó. Við vorum að tala um skóáráttu mína um daginn og þá mundi hún að hún átti skó sem pössuðu ekki á hana. Þannig að henni fannst þjóðráð að gefa skórsjúklingnum mér parið. Þetta eru þessir fínu spariskór sem eru alveg ónotaðir. Með flottum hæl. Já, enn eitt parið komið í Hófgerðið. Kannski ég þyrfti að kaupa eins og eina skógrind í viðbót? Aldrei að vita. Lifið heil

     |

Jólasaga...

Jólasaga

Ekki fyrir löngu, á mælikvarða jólanna, kom uppá svolítið vandamál.
Jólasveinarnir voru flestir komnir til byggða að sinna sínum uppáhalds
erindum. Í helli sveinanna voru hins vegar veikindi og kertasníkir sem
síðastur kemur á aðfangadag gekk illa að fá aðstoð við að undirbúa sig
til ferðar. Það styttist í að sveinki þurfti að drífa sig af stað, hann var
orðinn frekar stressaður. Grýla kom í heimsókn sem hafði ekki önnur áhrif
en að stressa sveinka enn meira upp. Hinir bræðurnir höfðu tekið
vélsleðana sem voru í lagi og sá síðasti var bilaður. Hreindýrin voru uppi við
Kárahnjúka og hreindýrasleðinn hafði ekki fengið neitt viðhald í 17 ár.
Með nokkur farlama hreindýr, fyrir sleðanum, sem ekki nenntu í burt vegna
elli, fór sveinki að hlaða á sleðann sem brast undan þunganum og allt fór út um
allt. Kertasníkir æddi inn til að fá sér hálfkaffi (viskí og kaffi). Hann
komst að því að einhver hafði drukkið viskíið og ekkert annað var til.
Kaffibollinn fór í gólfið og brotnaði þannig að brotin fóru um allt gólf.
Þegar hann ætlaði að sópa sá hann að mýsnar höfðu nagað hárin af
kústinum. Þá er bankað á hellisdyrnar, í brjáluðu skapi strunsar sveinki til dyra.
fyrir utan stendur engill með jólatré. "Hvar vilt þú að ég setji tréð?"
spyr engillinn.

Og þannig kom það til, vinir mínir, að engillinn er á toppi jólatrésins.

     |

Skreytum hús með greinum grænum

Sleppti leikfiminni í gær og fór beint heim til að setja upp seríur. Setti upp hvíta seríu í stóra gluggann í stofunni, eina litla í glugganum í herberginu mínu og setti glæru stjörnUna í eldhúsgluggann. Föndraði svo eins og eina seríu til að setja upp á vegg. Kemur vel út. Breytti svo aðeins í stofunni. Sveinsdóttir var því hissa þegar hún kom heim í gær. Mér finnst fínt að samleigjandinn skuli treysta mér fyrir skrautinu. Held að hún hafi ekki mikinn áhuga á þessu stússi. Bananalýðveldið Bergsteinn, aka. Steini kíkti svo í heimsókn um kvöldið og sagði sögur. Hann er nú ekki sagnfræðingur fyrir ekki neitt. Sagði meðal annars óhugnanlegar sögur af sínum heimaslóðum. Ekki er svona gert í Cityinu! Nú er hins vegar annað mál á dagskrá og það er það að við Skerjóhópurinn ætluðum á jólahlaðborð á Borginni á laugardagskvöldið. Við áttum pantað fyrir 18 en svo var fólk að heltast úr lestinni af ýmsum ástæðum. Að lokum voru bara 8 sem ætluðu að fara. Svo kom upp sú hugmynd að við mundum hittast hjá Lindu og Helga í nautasteik. Svo vilja sumir fara út að borða. Ekki einhugur er um málið innan vinahópsins en það hlýtur að leysast. Góðar stundir.

     |

mánudagur, desember 1

Lasarus

Var lasarus í morgun og var því heima. Hafði samt ekki eirð í mér að liggja lengur og fór því í vinnUna í hádeginu. Í vinnunni hef ég alla vega nóg að gera en það gildir ekki sama um að liggja heima. Já, svona er lífið. Lifið heil

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com