þriðjudagur, ágúst 30

Skeyti

Er Lasarus. Stopp. Fékk pest. Stopp. Helvítis. Stopp. Faðmaði Gustavsbergið til 7 í morgun. Stopp. Gat ekki sagt stopp við pestina. Stopp. Var ég búin að segja helvítis? Stopp.

     |

sunnudagur, ágúst 28

Fannst

ég hafa séð tvífara Gísla Marteins um daginn. Hann var alla vega mjög líkur honum. Kannski var það bara Andrés Önd. Lifið heil

     |

laugardagur, ágúst 27kaupa gallabuxur er greinilega orðið fjárfesting. Sá í fréttum Stöðvar 2, í gærkvöldi, að Diesel gallabuxur kosta 20.000 kr! Verslunarstjóri verslunarveldisins 17 sagði að gallabuxurnar væru svona dýrar vegna þess að Diesel hefði lagt mikið í þær og að hver sletta og rifa væri þaulhugsuð. Jahá. Sagði jafnframt að það væri orðið erfiðara að sauma e-a spíssa á gallabuxurnar. Gott og vel. Mér finnst ekki mikið rokk kaupa gallabuxur þar sem hver rifa og sletta er þaulhugsuð. Fyrir utan það að ég geng nær aldrei í gallabuxum. Tek pilsin mín fram yfir. Finnst fólki það engin vísbending um að verðlagningin er út í hött, þegar það þarf að skipta greiðslum í tvennt til að fólk hafi efni á fötum? En sem sagt, fólk fer greinilega ekki lengur að kaupa sér gallabuxur. Það fjárfestir. Góðar stundir og góða helgi.

     |

föstudagur, ágúst 26

Horfði

á assgoti góðan þátt á Rúv í gær. Þátturinn heitir "Distant Shores", sem útleggst sem ,,á ókunnri strönd" á ástkæra ylhýra. Eru enskir þættir sem eru skemmtilega kaldhæðnir. Slysaðist til að horfa á fyrsta þáttinn síðasta fimmtudagskvöld. Ég horfði á þáttinn í Sporthúsinu í gær, á hlaupabrettinu nánar tiltekið. Veit ekki alveg hvað fólkið í kringum mig hélt um mig. Flissaði oft upphátt, var greinilega ekki meðvituð um þá staðreynd að ég væri ekki heima hjá mér. Var næstum dottin af hlaupabrettinu þegar ég greip um andlit mér, tvisvar sinnum. Á það nefnilega til að grípa ósjálfrátt fyrir andlitið þegar fólk gerir sig að fífli. Lifi mig helst til of mikið inn í vandræðaganginn. Átti til dæmis mjög bágt með mig þegar ég horfði á snilldarþættina The Office. Átti það stundum til að ,,tala" við persónurnar ,,nei, ekki gera þetta!". Eða þurfti að skreppa aðeins fram til að ,,athuga" svolítið á meðan karltuskan gerði sig að fífli. Smá útúrdúr. En sem sagt mæli með "Distant Shores" Lifið heil

     |

fimmtudagur, ágúst 25

Sellan.is

Á grein á Sellunni í dag. Góðar stundir.

     |

mánudagur, ágúst 22

Þá er

búið að ákveða hvert við förum í janúar. Við munum heiðra Kanaríeyjar með nærveru okkar. Munum verða á Puerto Rico ströndinni á ótrúlega flottu hóteli. Getið séð það hér. Ég vissi það. Það byrjaði á K. Þó ekki Kerlingafjöll sem Bragi minntist á, né Kína eins og Sandra benti á. Lifið heil

     |

föstudagur, ágúst 19

Er

búin að fara 2 x í bíó á 2 sólarhringum og kvöldmaturinn var líka snæddur 2x í bíó á 2 sólarhringum. Er einnig búin að fara 3x í sturtu á rúmum sólarhring. Þetta er þó ekkert tengt. Bara að láta ykkur vita að ég lifi á brúninni....

Vinnukokteill í vinnunni á eftir. Markmið haustsins sett og afhjúpað verður hvert við förum í janúar, það er að segja ef markmiðin nást. Mín ágiskun er Kanaríeyjar eða Kúba. Alla vega land sem byrjar á K. Mig langar til Kúbu.

Góða helgi og góðar stundir.

     |

fimmtudagur, ágúst 18

Wunderbar

Brúðkaupið hjá Gísla og Sonju var alveg wunderbar. Lögðum af stað á hádegi áleiðis til Laugabakka. Við gistum í Reykjaskóla í Hrútafirði (þar sem við vorum einu sinni í skólabúðum). Gerðum okkur til og svo var haldið til kirkju kl. 17:00. Þetta er pínulítil og sæt sveitakirkja sem rúmar ekki nema 90 manns. Einhverjir þurftu því að standa. Athöfnin var æðisleg. Brúðurinn gekk inn kirkjugólfið við Coldplay lag sem var spilað á orgel og flautu. Mjög flott. Brúðurin var ekki í týpískum hvítum brúðarkjól heldur í grænum og hvítum kjól í sixties stíl. Þetta brúðkaup var ekta þau. Finnst gaman að því þegar fólk hefur þetta eftir sínu höfði í stað stífra siða og hvernig fólk heldur að þetta eigi að vera. Sonja kom Gísla á óvart og söng frumsamið lag eftir föður hennar í kirkjunni. Gæsahúð. Fjölskyldan hennar er mjög músíkölsk og faðir hennar spilaði á gítar í 3 lögum. Systir hennar söng einnig.

Að kirkju lokinni þá var haldið í félagsheimilið Ásbyrgi. Gjöfin frá mér, Munda, Soffíu, Signýju og Tóta vó heil 19 kg (vigtuðum hana). Gáfum þeim pening upp í brúðkaupsferð, þ.e.a.s. klink í Mackindosdós. Veislan var mjög vel heppnuð. Mörg skemmtiatriði. Þar á meðal myndband frá því er Sonja söng Final Countdown í söngvakeppni framhaldsskólana, í 80´s búning. Það var hressandi. Það voru svo mörg skemmtiatriði að þau entust til hálf 2 um nóttina. Okkar atriði heppnaðist ágætlega. Þegar skemmtiatriðunum lauk þá tók við hringdans. Ég lenti oftast á dj. Orra og kenndi honum meðal annars Óla Skans. Gaman að því. Hver segir að danskennsla í Grunnskólum borgi sig ekki. Svo tók við almennur dans. Það vill svo til að mér finnst ekki leiðinlegt að dansa. Var þó á háhæluðum skóm, sem fengu fljótlega að fjúka. Betra að dansa berfætt. Sá að margir fylgdu fordæmi mínu, dömur jafnt sem herrar.

Skemmti mér alveg ótrúlega vel. Gísli & Sonja, takk fyrir mig. Góðar stundir.

     |

miðvikudagur, ágúst 10

Sumarfrí

Er búin að vera í sumarfríi frá verslunarmannahelgi. Ljúft. Var í Citýinu fram á þriðjudag í góðu yfirlæti foreldra.

Á laugardaginn var Reunion og það tókst bara nokkuð vel. Fleiri hefðu mátt mæta en þeir sem mættu skemmtu sér stórvel! Við byrjuðum kl. 14:00 eða þar um bil, í Skrúðgarðinum. Fórum fyrst í brennó og mitt lið vann. Að sjálfsögðu. Þar næst var farið í ratleik um Citýið. Hann tókst vel. Dansatriðið verður lengi í minnum haft. Það var tekið upp og sýnt síðar um kvöldið. Maggi Sæla sló í gegn með afbrigði af svanavatninu & Billy Elliott. Við borðuðum svo uppi í Kiwanishúsi og vorum með smá leiki. Svo var haldið á ball. Skemmtilegt. Getið séð nokkrar myndir hér. Þess ber að geta að þær voru teknar áður en drykkjuleikirnir héldu innreið sína.

Við vorum með plaggöt á veggjunum í Kiwanis, úr gömlum skólablöðum, sem Sandra föndraði. Þar var eitt ljóð eftir Lilju Dröfn vinkonu, sem var í skólablaðinu árið 1992 þegar við vorum 14 ára, og það hljóðar svo:

En hve gaman væri að
prófa að vera Una,
hugsa eins og hún,
hlægja eins og hún
segja eitthvað fyndið
og heimskulegt eins og hún
að vísu væri þá alveg eins gott
að vera Óli.

Þetta fannst mér fyndið.

Núna er ég bara í afslöppun og í því að njóta lífsins. Nóg framundan. Á föstudaginn verður stelpuhittingur hjá okkur sem vorum að vinna í félagsmiðstöðvageiranum í Grafarvogi, Gufunesbæ, 2000-2001. Ef ég þekki Elínu rétt þá heimtar hún að hallærisdansar verði í hávegum hafðir. Á laugardaginn er svo brúðkaup hjá Gísla og Sonju. Verðum að leggja snemma af stað því brúðkaupið er að Laugabökkum. Búin að panta gistingu, brúðkaupsgjöfin og skemmtiatriði er í höfn. Jytte bra.

Farin að njóta lífsins. Góðar stundir.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com