fimmtudagur, október 20

Brandur Ari

Breyttir tímar...

Endur fyrir löngu, í landi langt, langt í burtu, rakst falleg, sjálfstæð og sjálfsörugg prinsessa á frosk þar sem hún sat og velti vöngum yfir vistfræðilegum álitamálum við bakka ómengaðrar tjarnar á fagurgrænu engi nálægt kastalanum sínum. Froskurinn stökk upp í kjöltu prinsessunnar og sagði: Fagra frú, ég var eitt sinn gjörvilegur prins en grimm norn lagði á mig álög. Ef þú smellir á mig einum kossi mun ég aftur verða að þeim snotra prinsi sem ég raunverulega er. Þá getum við, mín kæra, gifst og stofnað heimili í kastalanum þínum. Þú getur framreitt málsverði fyrir mig, þvegið klæði mín, alið börnin mín og fundið til þakklætis og hamingju um alla eilífð.

Sama kvöld sat prinsessan yfir málsverði sínum - léttsteiktum froskalöppum - og hló lágt með sjálfri sér: Ég held nú fokking síður

Lifið heil.

     |

þriðjudagur, október 18

Anda inn - anda út

að venju er langt síðan ég bloggaði síðast. Þetta fer að verða eymingjablogg. Ég fæ þó ekki magasár af því tilefni. Stress í vinnu og skóla væri líklegra til að verða þessa valdandi. Var að uppgötva að það er kominn miður október og það fer að koma að skilaverkefnum og framsögu. Mér mundi finnast þetta alveg nóg en svo er ekki. Jórunn samstarfskona mín er að fara til Kína í 3 vikur og ég verð því meira og minna í 2 störfum þann tíma. Anda inn - anda út. Þetta hefst allt saman en ég mun ekki eiga mikið líf fyrr en, ja einhvern tíman um jól. Fólk verður því að fyrirgefa mér sambandsleysi við umheiminn í smá tíma. Notaði vikUna vel til að fara á mannamót og blanda geði við fólk.

Matarklúbbur Skerjóliða vaknaði úr sumardvalanum og Lalli & Hafdís riðu á vaðið. Kíktum upp í sveit, Mosfellsbæ/sveit, í góðan mat og góðan félagsskap. Form matarklúbbsins hefur breyst örlítið. 4 börn innan við eins árs voru á staðnum og einn bumbubúi. Skerjóliðar eru greinilega frjósamir. Gott kvöld með góðu fólki.

Á föstudaginn brunaði ég í Citýið og lét Þrasa skipta um dekk á drossíunni. Betra að vera vel undir veturinn búin. Það er eins og við manninn mælt, búin að vera bongóblíða og marautt síðan. Ég vil þakka það dekkjaskiptingum mínum. Aðaltilgangur Citýferðarinnar var þó að hitta foreldra, bróður og frænkur. Hið árlega frænkupartý Hamraættarinnar var haldið á Eyrarbakka að þessu sinni. Ég var svo elskuleg að keyra systurnar (mömmu, Emmu og Sirrýju) í partýið enda þurfti ég að vera hress daginn eftir vegna lærdóms. Frænkupartýið heppnaðist vel og þar voru dömur frá 17 ára aldri til 7tugs. Skemmti mér mjög vel og Sirrý frænka fór á kostum eins og venjulega. Nokkrar frænkurnar voru farnar að grenja af hlátri yfir sumum sögunum. Gott kvöld með góðu fólki.

Laugardaginn notaði ég til lærdóms. Hefði reyndar getað verið duglegri. Var næstum búin að gleyma því að vinir Sveinsdóttur hefðu fengið íbúðina lánaða fyrir síðbúna brúðkaupsveislu. Eru norskir lögfræðingar sem búa í Osló en brúðurin á nokkra íslenska vini og kom því hingað í síðbúna brúðkaupsferð. Þetta var athyglisvert og skemmtilegt kvöld. Ótrúlega góður matur og gott rauðvín með. Veislugestir voru af ýmsum þjóðernum og hin ýmsu tungumál töluð: norska, enska, þýska og íslenska. Áhugavert fólk. Einn veislugesta, íslensk stelpa, átti ísraelskan kærasta sem er grænmetisæta. Ekkert áhugavert við það en það áhugaverða er að hann hefur verið það frá 5 ára aldri. Sá þátt í sjónvarpinu um slátrun dýra og ákvað í kjölfarið að gerast grænmetisæta. Gott kvöld með góðu fólki.

Góðar stundir

     |

miðvikudagur, október 5

Leikhús

Við, ML Ömmurnar, erum að spá í að fara í leikhús þar næstu helgi. Miklar umræður hafa farið fram um á hvaða stykki ætti að storma. Engin niðurstaða hefur fengist. Einhverjar tillögur?

Lifið heil.

     |

Uppfærsla

Það sem á daga mína hefur drifið síðan ég náðsamlega bloggaði síðast:

- vinnuferð
- draugasetrið á Stokkseyri
- humar á við Fjöruborðið
- ball með Sálinni
- þreyta
- tiltekt
- henti í nokkrar þvottavélar
- straujaði sængurverin mín! (pabbi, ekki láta mömmu vita. Hún gæti haldið að ég sé að verða húsmóðir)
- smá lærdómur
- ræktin
- vinna
- kvef
- og síðast en ekki síst, ný ryksuga bættist í rafmagnstækjafjölskyldu Hófgerðisins. Lukka.

Góðar stundir

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com