laugardagur, febrúar 25

Afmælisbarn dagsins

er hún ég.

Góðar stundir

     |

föstudagur, febrúar 24

Helgin sem leið

var hin fínasta. Skerjóþorrablót átti að vera á föstudaginn en þar sem við borðum fæst súran mat (lesist ónýtan mat) brá Bragi á það ráð að breyta þorrablótinu í matarklúbb. Hann ku hafa verið í eldhúsinu allan föstudaginn ásamt sinni heittelskuðu að matbúa gúmmilaði. Fínn matur og góður félagsskapur. Eitthvað eru Skergerðingar að róast, má það merkja á því að nokkrir drengir í hópnum voru farnir að ræða um barnalækna og fæðingarorlof. Ein tilkynning var um væntanlega fjölgun innan hópsins, drengjamegin. Héldum heim á leið um miðnætti.

Laugardagurinn fór í verkefnavinnu með hópnum í stefnumiðaðri stjórnun (héldum fyrirlestur á fimmtudaginn) og svo var horft á Evrósjón og eldað var ofan í mig dýrindismáltíð. Eftir það var stormað í afmæli/innflutningspartý til vinar Hr. R en sökum verkefnavinnu á sunnudaginn var útstáelsið ekki mikið og sódavatnið var drykkur köldsins.

En hvað skyldi þessi helgi bera í skauti sér? Lifið heil.

     |

föstudagur, febrúar 17

Melónufasta

Mér datt það snjallræði í hug á mánudaginn, ásamt Jórunni samstarfskonu, að fasta í 2 daga og borða ekkert nema vatnsmelónur og drekka vatn. Tilgangurinn var að hreinsa líkamann. Nú skil ég hvernig keppendunum í Survivor líður...

Góðar stundir.

     |

föstudagur, febrúar 10

Akueyris

Leiðin liggur til Akureyrar í kvöld, eða Akureyris eins og einhver orðaði það svo skemmtilega. Þetta er stelpnahelgarferð, sem við Signý Zen og Sveinsdóttir erum að leggja í. Tilgangurinn er að heimsækja Mæju & Hrafn, slappa af og skemmta okkur. Ungfrú Hansen er búin að skipuleggja laugardaginn. Förum í geislamengunartíma og svo í heitan pott þar sem við getum sötrað hvítvín. Leiðin liggur svo út að borða, á veitingastað sem bróðir Lalla á. Ætli koníaksstofan verði ekki heimsótt, þó svo engin okkar drekki koníak. Það er aukaatriði. Þetta verður góð ferð, ferð í góðum félagsskap getur ekki klikkað. Góðar stundir og góða helgi.

     |

miðvikudagur, febrúar 8

.

Ég er ekki alveg að standa mig í bloggheimi. Margt kemur til, mikið er að gera og skrifleti blandast inn í. Margt hefur á daga mína drifið í janúar. Þetta er helst:

- varð föðursystir
- fór til Kanaríeyja í viku. Var á flottu hóteli í góðum félagsskap
- fór í sumarbústaðarferð með Hr. R
- fór á árshátíð meistaranema viðskiptafræðideildar HÍ
- fór á ML reunion
- var beðin um að vera veislustjóri í brúðkaupi vinkonu minnar með Skrattheu Skorrdal
- unnið
- fór í afmæliskaffi til frú Ásdísar
- einnig farið í afmæliskaffi til Lalla
- sótt tíma
- fór út að borða á Argentínu
- fór í splitt og fékk harðsperrur í hægri rasskinnina
- keypt skó
- fór í stelpnahitting á Vegamót
- verið lukkuleg
- reynt að leggja vísakortinu
- var næstum búin að kaupa mér ferð til Kaupmannahafnar, en komist að því að ég get ekki gert allt í einu (eða svo er mér sagt)
- boðið í óvissuferð í byrjun mars, út fyrir landsteinana.

Hvað skyldi febrúar bjóða upp á?
Lifið heil

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com