föstudagur, maí 28

Hvítasunnan

er framundan. Nóg að gera. Stúdentsveisla í dag. Brúðkaup hjá Dagnýju og Skúla á laugardaginn og heimkomuteiti fyrir Asíufarana á sunnudagsköldið. Góða helgi, yfir og út. Lifið heil.

     |

fimmtudagur, maí 27

Er enn með gæsahúð

eftir tónleika gærdagsins. Pixies voru brilljant. Tónleikarnir byrjuðu full rólega en þegar þau tóku Hvar er hugur minn þá komust þau á skrið. Fékk extra mikla gæsahúð þegar Hey var spilað. Var búin að lofa Sigurrós að hringja í hana og leyfa henni að heyra þegar þau tóku Hey(býr í Danmörku), efndi loforð mitt. Svona er tæknin máttug. Gæsahúð yfir einu lagi, í 2 löndum! Það var passlega margt í höllinni og ég skemmti mér konunglega. Eitt finnst mér skrítið og það er fólk sem situr og hreyfir sig ekki á meðan tónleikum stendur. Ég þarf alltaf að dilla mér. Er þó ekki eins og í Weekend at Barneys þar sem hann má ekki heyra tónlist án þess að hreyfa sig. En á tónleikum þá er nú skylda að hreyfa sig í takt við tónlistina. Pixies tóku mest af lögunum á Doolittle og Surfer Rosa. Var hálf svekkt þó þegar tónleikarnir voru búnir, því að þau tóku ekki Velouria. En kættist þegar þeir tóku það í uppklappinu. Gott mál. Hins vegar var upphitunarhljómsveitin Ghost Digital ekki gott mál. Þvílík hörmung. Hefðu mátt standa undir nafni og vera ósýnilegir, eins og drauga er von. Jafnvel hverfa. Uss uss, skelfilegt. Lifið heil

     |

miðvikudagur, maí 26

Gríðarleg eftirvænting

Þá er dagurinn runninn upp, sem ég er búin að bíða eftir í langan tíma. Já, Pixies spila í kvöld! Pixies er búin að vera ein af mínum uppáhald uppáhalds síðan ég var 14 ára. Á margar minningar tengdar þessari tónlist. Til dæmis þegar ég var nýbúin að fermast og þessar forlátu Pioneer græjur stóðu inni í herbergi. Ég, Guðlaug og Stína (þríeykið) sátum við græjurnar og tókum upp Pixies diskana hennar Írisar. Sátum í marga tíma að velja lög á spólurnar. Úr urðu 3 nákvæmlega eins spólur. Minntist á það við Óla og Ingvar, um daginn, að við þyrftum að tala við Júlíus (föður Ingvars) um að fá Golfinn lánaðan og bruna á honum á tónleikana. Hann er enn til. Golfinn var nefnilega oftar en ekki notaður til ballferða og á rúntinn. Pixies var oftar en ekki á fóninum (kasettutækinu) ásamt Violent Femmes, U2 og svo videre. Jei, hvað ég hlakka til. Góðar stundir.

     |

mánudagur, maí 24

Undarlegt

hvað veðrið hefur mikil áhrif á sálartetrið. Er alvarlega að íhuga að skella mér í sund eftir vinnu. Sund!, kynni einhver að segja sem þekkir mig vel og veit að mér er meinilla við svoleiðis fyrirbæri. Já, sund segi ég þá. Mikill er máttur góðrar veðurtíðar. Góðar stundir.

     |

miðvikudagur, maí 19

Get ekki orða bundist

Ég hef haft orð á því í fyrri bloggum mínum að hann Ingvi Hrafn er maður sem ég hef engar mætur á. Ekki hækkaði hann í áliti þegar hann lét eftirfarandi orð út úr sér, í þætti sínum Hrafnaþing, á mánudaginn:

,,þá er komið í ljós að líklegast er Ólafur Ragnar Grímsson að skríða út lambagærunni á forsetaembættinu, formaður Alþýðubandalagsins og líklega mesti pólitíski óþverri sem Ísland hefur alið af sér, gekk til liðs við stjórnarandstöðuna og olli þvílíku uppnámi í þjóðfélaginu að í mörgum tilvikum hafa fjölskyldur verið klofnar í herðar niður"

Ég hef aldrei verið nein sérstök stuðningskona Ólafs Ragnars, heldur ekki á móti honum. En það sem Ingva Hrafni virðist sjást yfir er sú staðreynd að það var Davíð Oddsson sem skapaði þetta öngþveiti með fjölmiðlafrumvarpinu. Þegar honum er mótmælt er sá aðili að skapa öngþveiti. Áfram heldur karltuskan:

,,Og nú þegir hann þunnu hljóði, þessi flotti karl, búinn að gera meira ógagn heldur en nokkru sinni síðan hann klauf möðruvallahreyfinguna á sínum tíma eða var forseti Framtíðarinnar... um að hann sé maður sem að ber falska virðingu, nýr saman höndum, því hann er ófriðarseggur. Hans mun minnst sem óþverra í pólitík, sem gat ekki hætt að vera formaður Alþýðubandalagsins, þótt hann yrði að forseta Íslands, fékk náttúrulega sjokk þegar hann var kosinn með minnihluta, allt til að hefna sín á Davíð Oddssyni sem hann kallaði í þingræðu með skítlegt eðli, tvisvar".

Aumingjans Davíð Oddsson, og ætli metnaður Ólafs Ragnars hafi ekki verið meiri en að hefna sín á Davíð Oddssyni. Á bágt með að trúa því að hefnd hafi verið ástæðan fyrir því að hann bauð sig fram sem forseta.

Málsvari Davíðs heldur áfram og er ekki að spara stóru orðin:

,,Hrundu þá gluggar í glerhúsum þegar Ólafur Ragnar lét þau orð falla ... að hann væri að íhuga!, hugsið ykkur það! Þetta mannkerti, manngerpi, að íhuga að neita að staðfesta fjölmiðlafrumvarpið. Maður á ekki að gera þessum manni það til geðs að yfirleitt tala um hann. Þetta á að vera prúður og kurteis maður sem á að halda kjafti. Annað en þær ræður sem hann á að flytja í embættiserindum. En hann á ekki að vera í því ár eftir á að kljúfa þjóðina í herðar niður... Nú er hann dottinn í það aftur [fjölmiðlafyllerí]. Hann var, og hefur staðfest það, að hann er mesti pólitíski óþverri sem Ísland hefur alið. Og þessir þrír asnar sem eru að reyna að safna undirskriftum til að bjóða sig fram gegn honum, þeir eru allt í einu orðnir góður kostur".

Hann kallar hann svo forsetafífl að lokum. Greinilega maður sem lætur skapið ekki hlaupa með sig í gönur... Læt Hávamál hafa lokaorðið, greinilegt að Ingvi Hrafn hefur ekki tileinkað sér þau:

Að hyggjandi sinni
skyli-t maður hræsinn vera,
heldur gætinn að geði.
Þá er horskur og þögull
kemur heimisgarða til,
sjaldan verður víti vörum.
Því að óbrigðra vin
fær maður aldregi
en mannvit mikið.

Góðar stundir.

     |

þriðjudagur, maí 18

Haldið þið

að hann karl faðir minn hafi ekki hringt í mig áðan og boðið mér í grill í Citýið í kvöld. Foreldrar voru að kaupa sér nýtt gasgrill og af því tilefni verður grillaður humar í forrétt og lamb í aðalrétt. Ekki slæmt. Lifið heil

     |

mánudagur, maí 17

Evrósjón

Helgin var líka svona splendid. Saumaði mér eins og eitt pils á föstudaginn til að vera í, í Evrósjón teitinu. Evrósjón teiti Skerjóhópsins byrjaði á hinni árlegu krokket keppni, sem var haldin heima hjá Þráni að þessu sinni. Ég mætti í krokketgallanum, sem er happa anorakkkurinn og pollabuxur, staðráðin í að vinna annað árið í röð. Svo fór ekki. Rétt missti af sæti í úrslitunum Sigtryggur vann, aka Þráinn. Krokket stíllinn minn er svolítið frábrugðinn annarra. Líkist mest blöndu af billjard og krokket. Bragi kallar þetta Júdas stílinn, en svo var hann farinn að taka afbrigði af stílnum þannig að ekki verður mikið mark tekið á þessum ummælum. þeir sem tóku þátt að þessu sinni voru: Þráinn, Ingimundur, Gísli, Tóti, Bragi, Valdi, ég og Lalli

Evrósjón teitið sjálft var svo haldið heima hjá Ingimundi og Gerði. Þangað kom restin af Skerjóhópnum. Gaman að hafa hópinn saman aftur. það var grillað og farið í Evrósjón drykkjuleik sem ég spann á staðnum. Leikurinn var þannig úr garði gerður að fólk dró miða með nafni þátttöku lands á. Ég var til dæmis Tyrkland. Þegar landið, sem fólk dró, var uppi á sviði með atriðið þurfti að drekka einn bjór. Þegar stigin voru veitt þurfti að drekka einn sopa fyrir hvert stig. Júlli, vinur Dóra, var svo óheppinn að draga Úkraínu og samkvæmt stigatöflunni drakk hann 280 sopa. Vel að verki staðið. Að sjálfsögðu var veðjað á úrslitin og Mundi og Soffía deila verðlaununum. Voru næst úrslitunum. Ég veðjaði á að Úkraína myndi vinna en sagði að Ísland myndi enda í 14. sæti. Það borgar sig ekki að vera bjartsýnn. Það hefur sýnt sig. Þegar Evrósjónin var búin tóku Gísli, Dóri og Júlli atriði úr O brother where art thou. Kölluðu sig Soggy Bottom Boys og sungu lagið I am a man of constant sorrow. Gísli var vatnsgreiddur og búinn að klæða sig í smekkbuxur. Mjög smekklegt allt saman. Hann söng en Dóri og Júlli spiluðu á gítar. Mikil stemning. Svo var spilað á gítar og sungið. Yndislegt kvöld! Góðar stundir

     |

föstudagur, maí 14

Wunderbar

Gærdagurinn var svona líka splendid. Fór eftir vinnu og náði mér í smá geislamengun (fór í ljós). Hef ekki fengið útfjólubláa geisla lengi lengi lengi. Var orðin svo hvít að ég var farin að vera samlit veggjunum heima. Brunaði svo til Skrattheu Skorrdal og við fórum og náðum í Pixies miðann til Von Ölves hins hressa. Því næst var haldið og náð í hana Vilborgu löggu (verður formlega lögga í dag) og fórum svo niður á Ægissíðu í heljarinnar göngutúr. Yndislegt veður. Eftir göngutúrinn var svo haldið á Nings og gætt sér á heilsunúðlum. Eftir allan þennan hasar ákvað ég að róa mig aðeins niður og lét renna í freyðibað, setti á mig maska og lá í baðinu með Da Vinci lykillinn. Fátt sem er þægilegra en þetta. Það eina sem var ekki skemmtilegt var að Sex and the City er hætt. En það veður aldrei sannað að það hafi lekið tár af því tilefni í gær.

Svo er það Evrósjón partý hjá Munda á morgun. Byrjað snemma með hinni árlegu Krokketkeppni ef veður leyfir. Ég er Krokketmeistarinn 2003, hver skyldi fá titilinn á morgun? Góðar stundir

     |

fimmtudagur, maí 13

Óskírður Oddnýjar og Gíslason

Hér eru myndir af prinsinum. Góðar stundir

     |

Viðgerð

Vaskurinn er stíflaður svo ég lagðist í viðgerðir í gær. Hann er reyndar búinn að vera stíflaður síðan á sunnudag. Var búin að moka stíflueyði í hann í nokkra daga en það var ekki að virka. Næsta ráð var því að nota drullusokk (fékk einn slíkan í afmælisgjöf frá Skerjóstrákunum með von um að þetta yrði eini drullusokkurinn í mínu lífi...)Drullusokkurinn virkaði heldur ekki. Nú voru góð ráð dýr. Ég vatt mér því í það verk að skrúfa leiðsludraslið í sundur til að laga þetta. Ég er ekki mikil viðgerðarkona, hef ekki þolinmæði í þetta. Náði þó að skrúfa þetta drasl í sundur og hreinsa. Skrúfaði allt saman aftur, en viti menn, rennslið var samt lengi í gegn. Hafði skánað en ekki eins mikið og ég vildi. Það heyrðist því hljóð úr horni, eða réttara sagt blót úr horni, þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti að skrúfa þetta í sundur aftur. Ég vatt mér því í það. Til að gera langa sögu stutta þá gekk þetta ekki. Vaskurinn er því enn hálf stíflaður. Nú heyrðist enn meira blót úr horni, ég sem blóta nær aldrei. En ég held að Kolbeinn Kafteinn hefði verið stoltur af mér á því sviðinu í gær. Lifið heil

     |

miðvikudagur, maí 12

Sellan

Er byrjuð að skrifa á SellUna.Með grein í dag. Góðar stundir.

     |

Dagný Gæs

Á laugardaginn gerðist sá atburður að Dagný var gæsuð. Reyndar byrjaði gæsunin á föstudaginn, en þá náði 50 ára Harley töffari í hana í vinnUna á mótorhjóli. Hún vinnur í utanríkisráðuneytinu og þar setti hann hana í skærgrænan leðurgalla og keyrði hana um Reykjavíkina. Svo gerðist ekkert fyrr en á laugardaginn. Dagný var samt þess fullviss að meira ætti eftir að gerast á föstudeginum. Fór heim og blés á sér hárið og var til í action! Á laugardagsmorguninn vaknaði ég snemma og gerði ratleikinn kláran. Fór svo til hennar á slaginu ellefu með fyrstu vísbendingUna, körfu og stafræna myndavél. Dinglaði og sagðist heita Guðný hjá Íslandspósti og að ég væri með ábyrgðarsendingu til hennar. Hún hleypti mér upp og var eitt spurningamerki þegar ég birtist í dyrunum með körfUna. Tengdaforeldrar hennar,tilvonandi, voru komnir því það var búið að plata þá til að passa. Hún hélt að þeir væru einungis í heimsókn. Fyrsta spurningin hennar var: ,,er verið að fara að gæsa mig. Kemst ég í æfingagreiðsluna klukkan 14:00 í dag"? Tilkynnti henni að það væri búið að fresta henni og að hún ætti tíma að viku liðinni. Nú, verðandi frúin gerði sig til og tók við að ráða fyrstu vísbendingUna. En hún var svohljóðandi:

Kæra Dagný,


Að giftingu líður senn
Eftir því bíða menn.
Nú er gæsun skollin á,
Bíddu eftir því sem verða má!

Þú þrautir verður að leysa
Við lofum því að þetta verður engin hneisa.
Þú á staði verður að benda,
til að komast á leiðarenda.

Fyrsta vísbending:

Staður þessi er kenndur við leika
Og í þeim geira má engu skeika.
Þar klæðast menn búningum með röndum
Þú hefur unnið þar og binst vináttuböndum.

Allar vísbendingarnar voru í bundnu máli. Dagný var ekki lengi að ráða gátUna og því héldum við að KR heimilinu. Þar þurfti hún að segja við manninn í móttökunni: ,,hver vill kyssa gæs?” og afgreiðslumaðurinn heimtaði náttúrulega koss. Hún fékk vísbendingu númer 2 og þurfti einnig að leysa þraut í KR heimilinu. Þurfti að láta taka mynd af sér með einhverjum í KR – búningi. Við röltum um svæðið en fundum engan! Að lokum aumkaði afgreiðslumaðurinn sig yfir hana og leyfði mér að taka mynd að henni með KR ljóninu. Næsta vísbending vísaði á Háskólann og þar þurfti hún að láta taka mynd af sér með gæs. Þá fékk hún næstu vísbendingu, en hún leiddi hana í Spútnik. Hún skoðaði sig lengi um í spútnik og var viss um að vísbendingin væri falin innan um fötin. Loks fór hún til afgreiðslukonunnar og sagði: ,,ég hef tekið þátt í fegurðarsamkeppni” en það var setningin sem hún þurfti að segja til að fá næstu vísbendingu. Ég var búin að fara með gömul föt af henni í Spútnik og þar þurfti hún að fara inn í mátunarklefa og skipta um föt. Svipurinn sem Dagný setti upp þegar hún sá fötin var óborganlegur! Mamma hennar hafði sent okkur skærbleikar íþrótta tights, gamla íþróttapeysu merkta Reyni Sandgerði og grænt ennisband. Í þesssari múnderingu þurfti hún að vera í góðan tíma í viðbót. Næsta vísbending var í Liverpool og þar þurfti hún að smella af mynd. Því næst var haldið heim til Þráins, vinar míns, og þar var loka vísbendingin. Þegar við komum þangað svaraði enginn og nú voru góð ráð dýr. Sem betur fer kom Jonni í heimsókn til Þráins og barði allt að utan. Í dyragættinni birtist syfjaður Þráinn. Hann var ekkert smá tuskulegur. Dagný sagði þá við hann: ,,íþróttir eru hættulegar”. Þráinn horfði á hana eins og hún væri geimvera og var eitt spurningamerki í framan. En hún mátti ekki fá næstu vísbendingu nema segja þessa setningu. Hann áttaði sig loks og lét hana fá umslagið. Lokavísbendingin hljóðaði svo:

Vísbending 6:

Nú hyllir undir lok leiðar
Og eitthvað annað þig til sín seiðar.
Þú að þeim stað halda skalt
Sem setur lögin þúsundfalt.

Að styttu skaltu ganga,
Sem af vinailmi mun anga.
Þar létu Daníel og færeyska kvinnan sig pússa saman.
Ó, nú verður gaman!

Við héldum því niður á Austurvöll en þar beið fólkið sem tók þátt í gæsuninni. Við hoppuðum upp í bíla og ókum sem leið lá á Hlíðardalsskóla. En hún var þar í sumarbúðum þegar hún var lítil. Þar voru settar upp þrautir sem flestir tóku þátt í. Næst lá leiðin í Eden í Hveragerði þar sem tilvonandi frúin fékk einn lítra af ís með reðurtákni á. Upp spunnust umræður um hvort að það væri sniðugt að setja á fót bakarí með erótísku ívafi. Kalla til dæmis ostaslaufurnar lostaslaufur og þar fram eftir götunum. Skemmtileg pæling. Þaðan lá leiðin á Laugarvatn, þar sem við vorum í menntaskóla. Þar skoðuðum við gamlar myndir og fórum upp að Jónasi (sem við löbbuðum ósjaldan í menntó með lögg í flösku). Þar skáluðum við í kampavíni. Eftir alla þessa yfirferð var stormað í Reykjavíkina og grillað heima hjá Karen og tappinn tekinn úr hvítvínsflöskum og bjórum. Nú loks mátti hún skipta um föt. En var þá auðvitað sett í önnur föt sem við höfðum valið á hana. Settum hana í fegurðardrottningarkjól, með kórónu og borða. Gaman að því. Splendid dagur. Reyndi greinilega meira á suma, en aðra, því að Héðinn fréttapési steinsofnaði á sófanum.

     |

þriðjudagur, maí 11

Nýr erfingi landsins fæddur

Þeim skötuhjúum Oddnýju og Gísla fæddist lítill hárprúður og fallegur snáði klukkan 21:00 í gærkvöldi. Prinsinn var 53,5 cm og 16,5 merkur. Öllum heilsast vel. Til lukku með prinsinn Oddný og Gísli.

     |

sunnudagur, maí 9

stundum er raunveruleikinn

súrrealískari en skáldskapur. Það á við um atvik sem ég lenti í, í dag. Ég var að bakka úr stæði við Landssíman hjá Austurvelli í dag. Ein kerlingatuska tók sig þá til og bakkaði á mig! Það er að segja bílinn minn. Ég sté út úr bílnum og athugaði þetta. Kerlingatuskan sté einnig út úr skrjóðnum sínum. samtalið var eftirfarandi: kerlingartuskan ,,sástu ekki að ég er búin að reyna að koma bílnum í gang og bakka út úr stæðinu í 10 mínútur". Ég: ,,nei, ég hafði nú ekki tekið eftir því". KT: ,,hver ætli sé í rétti?". Ég: ,,það er nú lítill vafi á því, þú bakkaðir og mig og því er ég í 100% rétti". KT: ,,já, ætli það ekki. Hérna er einhver möguleiki á því að ég geti fengið að borga skemmdirnar með málverki? Ég er listamaður og er nefnilega svo blönk núna!" Ég: ,,ha, nei það er ekki möguleiki!" Þetta er með fáránlegri aðstöðum sem ég hef lent í. Góðar stundir.

     |

föstudagur, maí 7

Þegar

maður er að hugsa um margt í einu þá geta skrýtnir hlutir gerst. Eins og að maður, já eða kona, sendi röngum aðila tölvupóst, kaupir sér súpu í Nóatúni og gengur á glerhurð. Nú, eða gleymir lyklunum í skráargatinu á útidyrahurðinni heima hjá sér. Spurning um að einbeita sér að einum hlut í einu. Það verður þó aldrei sannað að þetta hafi komið fyrir mig í dag. Lifið heil.

     |

miðvikudagur, maí 5

Fjölskyldan mín!

Who is in your celebrity family? by cerulean_dreams
User Name
MomMeryl Streep
DadSean Connery
BrotherAshton Kutcher
SisterBritney Spears
DogRin tin tin
BoyfriendJohnny Depp
Best friendDrew Barrymore
Created with the ORIGINAL MemeGen!

     |

The hills are alive with the sound of music

og ég er líka á lífi. Bezt að reyna að sýna smá lit. Fyrir utan litaprófið sem ég tók um daginn. Nenni ómögulega að reyfa það sem á daga mína hefur drifið síðustu daga. Var ofvirk í flestu nema bloggi. Ætlaði meira að segja að labba á EsjUna á fimmtudaginn en því var aflýst vegna þoku.

Fékk póstkort frá Asíudrottningunum Helgu og Ásdísi í gær. Þær voru í Seúl og leiðin lá svo til Tælands. Ekki er laust við öfund í þeirra garð. Jákvæð öfund þó. Takk fyrir kortið stelpur :)Getið fylgst með ferðum þeirra hér.

Er búin að fá miða á Metallicu þökk sé honum Jóni Mínum. Jei. Lifið heil

     |

sunnudagur, maí 2

Eins og sólin


YELLOW



You are very perceptive and smart. You are clear and to the point and have a great sense of humor. You are always learning and searching for understanding.




Find out your color at Quiz Me!




Góðar stundir

     |

laugardagur, maí 1

Lenti

í óskemmtilegri aðstöðu áðan. Fór með drossíUna á sjálfvirka bílaþvottastöð. Hef aldrei áður notað svoleiðis tæki. Hef alltaf bónað minn bíl sjálf, já eða mútað litlum frændum til að sjá um það. Þegar bíllinn færðist á færibandinu byrjuðu burstarnir að koma og þetta var eins og kolkrabbi væri að gleypa bílinn og ég fékk hálfgerða innilokunarkennd. Stillti Metallicu í botn og söng með, til að reyna að bægja þessu frá. Uss uss. Var þeirri stund fegnust þegar ég sá fyrir endan á þessu. Held að ég bóni minn bíl sjálf héðan í frá... eða haldi áfram að múta ættmennum. Lifið heil

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com