fimmtudagur, desember 30

Það er nefnilega það

Þegar klukkan slær 12 á hádegi verður lunch í vinnunni og við fáum farseðlana til Kanarí. Og einnig jólagjöfina okkar. Ekki amalegt. Bara 6 dagar í Kanarí anarí narí arí rí í. Lifið heil!

     |

fimmtudagur, desember 23

Gleðileg jól

allir saman. Já, krakkar mínir jólin eru að koma. Núna er bara að rölta við hjá Von Ölves í kakó og svo er það skötuveisla í Citýinu hjá foreldrum. Þorláksmessa - Þorlákshöfn. Sjáið þið einhverja tengingu?

Aðfangadagur verður haldinn hátíðlegur í Citýinu hjá foreldrum. Jól snúast um hefðir og án hefða eru engin jól. Amma Guðbjörg, kölluð Bubba (mamma hans pabba míns) verður hjá okkur um jólin í fyrsta sinn. Afi Uni Garðar, kallaður Garðar Karls (pabbi mömmu minnar) verður hjá okkur einnig. Líf og fjör.

Gleðileg jól elskurnar mínar og sjáumst hress á nýju ári, eða fyrr. Góðar stundir.

     |

þriðjudagur, desember 21

Klukkan 19:21

21. desember 2004, komst ég í smá jólaskap. Heyrði þetta fína jólalag í útvarpinu á leiðinni heim. Það þarf svo lítið til að gleðja mann. Ég var þá að enda við að kaupa jólagjafir handa foreldrum og Ármanni & Þórhöllu. Á því bara eftir að kaupa 2 jólagjafir. Ég var líka búin að skrifa öll jólakort, í huganum. Kættist við það. Raunverulega eru þau nokkur sem eftir eru. Ætla að skreppa á kaffihús með Signýju Zen á eftir og skrifa restina af kortunum þar. Hagsýn húsmóðir, á tímann alla vega. Ja hérna hér. Það eru að koma jól! Góðar stundir.

     |

mánudagur, desember 20

Það örlar á því

að það er mikið að gera á stóru heimili. Tja, kannski ekki svo stóru. Er að fara yfir um á vinnu og á eftir að kaupa allar jólagjafirnar + skrifa jólakort. Er þó búin með nokkur. Dominos auglýsingin er ekki til að bæta það. Minnir mig á allt það sem ég á eftir að gera. Þetta reddast allt og það þýðir ekkert að stressa sig á þessu. Tek mér tíma í að hitta vini og kunningja. Annars færi ég yfir um. Er farin að sjá Kanaríferðina þann 5. janúar í hyllingum.

Hitti Ástrík á fimmtudagskvöldið á Galileo, í tilefni af því að Tjörvi og Anna eru í stoppi á Ísalandinu mikla. Búa í DK. Vorum um 20 sem sátum og snæddum. Gaman að því og flottur staður.

Föstudagskvöldinu eyddi ég í afslöppun. Fékk mér malt og appelsín og skrifaði nokkur jólakort á meðan Sveinsdóttir sambýlingur bakaði. Fann þá fyrir smá jólatilfinningu. Er maður farinn að eldast þegar maður er skriðinn upp í rúm um miðnætti á föstudagskvöldi? Nei, varla. Bara merki um þreytu.

Fór í rækina um leið og ég opnaði augun á laugardagsmorgninum. Svo strunsaði ég í VinnUna. Kom heim um 18:00 og rölti Laugaveginn með Sveinsdóttur. Settumst inn á Vegamót og ég fékk mér hvítvínsglas og snarl. 2 meðlimir Jagúar sátu á neðri hæðinni og spiluðu. Frábært. Þetta var ekkert smá notalegt. Maður er hættur að voga sér í verslunarmiðstöðvar. Það eru allir svo stressaðir og það er ekkert tillit tekið til annarra vegfarenda. Er ekki hrifin af slíku. Laugavegsröltið var akkurat það sem ég þurfti. Eyddi smá pening í mig. Sem er vel. Var boðin í stelpnapartý til Heiðu, frænku Signýjar, en það var í Grafarvogi. Nennti ekki að fara alla leið þangað. Signý var líka að vinna til 22:00 þannig að það tók því ekki að storma út í sveit. Klara, samkennari Sveinsdóttur í MH, opnaði sína íbúð og Bragi kom með okkur þangað. Sátum og kjöftuðum. Splendid alveg. Bragi var með nýju myndavélina og fannst ekki leiðinlegt að taka myndir. Þessi myndaárátta fór þó illa með hann því honum var vísað út af Ölstofunni fyrir að taka myndir. Var búin að segja honum að svo myndi fara, en Bragi Rebel varð að athuga hvort að svo mundi fara. Svo fór. Skemmtilegt kvöld. Hitti fullt af skemmtilegu fólki. Suma var ég þó ekki alveg að skilja. Legg ekki meira á þig.

Sunnudagurinn fór í vinnu og skreppitúr í Citýið. Alltaf gott að koma í foreldrahús. Síðasta vígið er fallið. Hr. Einar og frú Ásdís, foreldrar mínir, eru komin með internetið. Pabbi var í smá uppskurði og verður frá vinnu fram yfir jól. Hann er eirðarlaus og ekki vanur því að hafa allan þennan frítíma. Hann fékk sér því netið. Ég kynnti hann fyrir hr. Kapli í tölvunni. Þeir felldu hugi saman og faðir sat límdur yfir þessu undri fram eftir degi. Lifið heil.

     |

Jólalagasamkeppni Rásar 2

Lagið hans Þráins, Vögguljóð, er eitt 7 laga sem koma til greina í jólalagasamkeppni Rásar 2. Fínt lag. Um að gera að kjósa lagið hans. Getið gert það hér. Góðar stundir.

     |

þriðjudagur, desember 14

Í fréttum er þetta helst:

vann sjö flöskur í rauðvínshappadrættinu í vinnunni og ég reit grein á Selluna í dag. Góðar stundir.

     |

mánudagur, desember 6

Hittingur í Vík

Hinn árlegi hittingur nokkurra ML-inga, og fylgifiska, var haldinn í Vík um helgina. Þráinn og Æsa eiga gistiheimilið Norður Vík og hóa hópnum saman einu sinni á ári. Í fyrra var villibráðarþema. Í ár var hattaþema og læri elduð ofan í mannskapinn. Við brunuðum í Vík eftir hádegi á laugardaginn. vorum um 30 manns. 2 leynigestir ætluðu að mæta á svæðið en fyrir rest voru þeir öngvir leynigestir því allir vissu af komu þeirra. Skratthea Skorrdal mætti frá Danmörku en gat ekki leynt því að hún væri að koma. Var búin að láta okkur vita af því, svo spennt var hún. Gummi Halldórs ætlaði að mæta öllum að óvörum, en Þráinn gat ekki leynt því. Skemmti mér ekkert smá vel. Fólk var mætt um 18:00 leytið og svo var borðað um 19:00. Eftir matinn var drykkjuleikja bingó, sem felur það í sér að sá/sú sem fær bingó ræður hverjir taka skot. Skemmtilegt. Notaðar voru alvöru bingógræjur sem fengnar voru að láni frá Félagsheimilinu í Vík. Okkar borð var sérlega heppið og fengum oftast bingó. Lukkan Salomon. Þórður Freyr og Pálmi drógu svo upp gítarana og það var því sungið af hjartans lyst. Verst að ég var búin að missa röddina, er með kvef. Tja, eða kannski var það bara lukka fyrir þá sem hefðu orðið að hlýða á söng minn. Geri mér engar grillur um að ég syngi vel. Eftir nokkra Bubba slagara og stigapartýs lög var haldið á Halldórs Kaffi og stiginn dans. Det var bra.

Það er alltaf gaman að hitta gamla skólafélaga. Hló svo mikið að það heyrðist bara tíst í mér fyrir rest. Var gjörsamlega búin að missa röddina. Pálmi átti tilþrif helgarinnar þegar hann var að lýsa svaðilförum Steingríms. Fór með sögUna í bundnu máli við gítarspil. Þá dó ég úr hlátri. Frábær helgi. Takk fyrir mig Æsa, Þráinn og allir sem voru viðstaddir. Lifið heil

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com