föstudagur, september 29

Lundur

Ferðin til Köben gekk bara nokkuð vel, fyrir utan að við settum hluta af Saga Class í uppnám. Það þurfti að stækka rýmið um eina sætaröð til að koma okkur fyrir... allt gekk þetta að lokum. Gistum í Köben fyrstu nóttina og fórum svo yfir til Lundar á fimmtudaginn með leigubíl. Ég hef greinilega valið þann rétta því leigubílstjórinn var áttblindari en ég! Hann hafði aldrei komið til Lundar og spurði okkur hvar það væri. Við þurftum sem sagt að leiðbeina honum til að byrja með en fyrir rest fann hann Lund í leiðsögukerfinu hjá sér og þetta gekk stóráfallalaust fyrir sig. Nema þegar hann ætlaði að skilja okkur eftir á sjúkrahúsinu í Malmö, það hefði verið verra.

Við fórum beint á sjúkrahúsið og Hr. R fór í blóðprufur og einhverja rannsókn. Sænsk burstaklippt hjúkka hugsaði vel um hann. Við fengum okkur svo að borða í anddyrinu og merkilegt nokk var maturinn bara alveg ágætur. Spítalinn í Lundi er örlítið meira ,,upplífgandi" en Landspítalinn. Eftir matinn fórum við að hitta lækninn sem sker hann upp, hann Pelle Gustafson. Héldum við, þurftum að bíða eftir honum í tvo tíma. En það er víst eðlilegt þegar læknar eiga í hlut. Hann upplýsti okkur um aðgerðina og hann verður skorinn upp á mánudaginn, ef ekkert kemur upp á það er að segja.

Á meðan Hr. R var í rannsókninni tékkaði ég okkur inn á Patienthotellet. Það er við hliðina á sjúkrahúsinu. Hmmmm, hvað skal segja um það. Það er stofnun og dauðhreinsað eftir því. Fæðingardeildin er að ég held við hliðina á ,,hótelinu" og nýbakaðar mæður gista greinilega á hótelinu. Það er sjúkrahúslykt á hótelinu. Eins gott að ég er laus við sjúkrahúsafóbíUna...

Ég er búin að komast að því að Svíar eru ekki jafn internetvæddir og við Íslendingar. Þurfti að skila verkefni í Almannatengslum í dag og ég þrammaði um Lund þvera og endilanga til að leita að stað með þráðlausu neti. Fann það loksins á bókasafninu. Þurfti að trufla saklausan stúdent til að koma mér inn á netið, einhverrar skráningar þurfti við. En netið fann ég og verkefnið loksins komið til prófessorsins. Jyttebra!

Hej da og góða helgi.

     |

miðvikudagur, september 27

Á flugvellinum

Sitjum, í þessum skrifuðu orðum, í Saga Lounge á Leifstöð. Ekki slæmt það, þægilegt umhverfi og allt frítt. Hr. R þarf að vera á Saga Class svo að löppin ,,komist" með, það er að segja hann er í gipsi frá nára og niður. Hefði verið erfitt að koma honum fyrir á almenna farrýminu, svo vel væri.

Fljúgum til Köben og gistum þar í nótt, á hóteli rétt hjá flugvellinum. Förum svo yfir til Svíþjóðar (Lundar) á morgun. Tökum annað hvort bílaleigubíl eða leigubíl. Hr. R er búinn að setja kort af DK og Sverige inn í navigationið ef við tökum bílaleigubílinn. Þessi elska veit hversu áttblind ég er...

Svo er það rannsókn á spítalanum á fimmtudaginn og uppskurðurinn verður á mánudaginn eða þriðjudaginn.

Ég ætla að reyna að vera dugleg að blogga, reyna er lykilorðið...

Síðar.

     |

þriðjudagur, september 19

Í fréttum er þetta helst

Hef ekki bloggað ,,af viti" síðan í júlí. Margt búið að gerast síðan þá, ég hef:

- Flutt úr Hófgerðinu og inn á Reynimelinn til Hr. R
- farið hringinn í kringum landið
- heimsótt Mæju og Hrafn á Akureyri
- byrjað í skólanum
- grennst (um heil 8 kg, eða hálf 16 kg...annað hvort)
- fylgt Hr. R á spítala
- hann þarf að fara í aðgerð á hné í Lundi í Svíþjóð, förum líklega út í kringum 28. sept
- farið í skemmtilegt ítalskt matarboð hjá Heiðu og Titti
- hitt Þórhildi Ástralíubúa og prinsana hennar
- komið mér nokkurn veginn fyrir í nýjum húsakynnum
- hitt Citý skutlurnar mínar heima hjá Söndru á Hafnardögum
- skúrað, skúbbað og bónað
- farið í 3tugs afmæli til Möggu hans Sigfúsar
- hitt Ömmurnar mínar (menntaskólapæjurnar)
- veriðí viku í sumarbústað á Flúðum
- eldað ofan í sérvitringinn með misjöfnum árangri (er að reyna að virkja húsmóðureðlið í mér)
- fengið harðsperrur
- fengið þrennar óléttufréttir af vinkonum
- glaðst yfir því
- keypt námsbækur í bóksölu stúdenta. Nei, fyrirgefið látið ræna mig í bóksölu stúdenta
- verið þreytt


Góðar stundir

     |

miðvikudagur, september 13

Ný spurning

Nú spyrja Íslendingar ekki lengur erlenda ferðamenn "how do you like Iceland?" heldur "how do you like Magni from Iceland".

Lifið heil.

     |

Viggó Viðutan

Hef verið frekar viðutan í vikunni. Hr. R er farinn að kalla mig Viggó Viðutan. Ástandið skýrist að hluta til af tímaleysi og vera að hugsa um 25 hluti samtímis. Gengur ekki alveg upp. Steininn tók úr þegar ég var að elda á mánudaginn. Þurfti að taka e-a skúffu úr ofninum áður en ég gat sett steikarpottinn inn í hann. Ég tók skúffUna úr ofninum og lokaði. Fór svo inn í sjónvarpsherbergi í ca 20 mín. Þá heyrist í Hr. R ,,settirðu ekki örugglega matinn inn í ofn". Mér fannst að mér vegið og svaraði ,,jú, auðvitað! hvað heldur þú". Ákvað samt að kíkja fram. Þar stóð steikarpotturinn ofan á eldavélinni... hafði sem sagt gleymt að setja matinn inn í ofn. Matnum seinkaði því örlítið!

Góðar stundir.

     |

miðvikudagur, september 6

Til hamingju

Ármann bró með afmælið í gær (5. september)





Bragi & Eygló með Maríu prinzipezzu



     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com