mánudagur, febrúar 25

Áfallið

kom ekki þegar ég varð þrítug, þá keypti ég mér bara augnhrukkukrem í fríhöfninni og pældi ekki meira í þessum blessaða aldri. ,,Áfallið" kom í morgun þegar ég vaknaði og var orðin kvartfjórðungsaldar gömul + 6 ára. Að hugsa með sér! Aldur er reyndar hugarástand og í mínum huga er ég enn 25 ára, eða þar um bil.

Lifið heil

     |

sunnudagur, febrúar 24

Útskrift

Loksins rann upp dagurinn, útskriftardagurinn. Byrjaði daginn á því að þjóta í ræktina, eða sannleikurinn er kannski sá að Sigurrós og Skarpi drógu mig í ræktina. Hef ekki verið dugleg við fara upp á síðkastið, ótrúlega gott að byrja daginn á því að sprikla örlítið. Smellti mér svo í dusch bad, setti upp andlitið og klæddi mig í kjól og hvítt. Þurfi að vera mætt upp í Hásólabíó kl. 12 og mætti því korter yfir... Athöfnin byrjaði um eitt leytið og þessu var rumpað af á einum og hálfum tíma, mjög góður millitími. Sveinsdóttir útskrifaðist einnig og sátum við hlið við við hlið, svo samrýndar stöllurnar sjáið þið til.

Ég hélt smá veislu heima fyrir fjölskyldur okkar Hr. R, sem heppnaðist svona líka ljómandi vel. Alltaf gott að hafa fólkið sitt hjá sér. Pantaði Tapas- og brauðveislu frá Veislunni, get alveg mælt með því. Góður matur og ótrúlega vel útilátið. Veislan stóð fram yfir Evrósjón og svo var haldið í teiti til Soffíu. Góður dagur.

Konudagurinn er í dag. Hr. R var að spá í að gefa mér blóm en það eru öngvir lausir vasar til á heimilinu. Íbúðin er eins og blómaverslun í augnablikinu í tilefni útskriftarinnar. Í staðinn ætlaði þessi elska að elda eitthvað gott handa mér. Ég bað um Kentucky (KFC)...

Góðar stundir.

     |

sunnudagur, febrúar 10

Sjalalala

ævintýrin enn gerast. Fórum í sumarbústað um helgina með Magga og Ingibjörgu. Ferðin var ekki alveg tíðindalaus. Við lögðum af stað, á einum bíl, um kl. 18 á föstudaginn í frekar slæmu veðri. Við létum okkur þó hafa það og komumst heil á höldnu upp í bústað og áttum við hið besta kvöld, veðrið bulldi á gluggum og þaki og við urðum áþreifnalega vör við eldingarnar. Haldið var snemma í háttinn og laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Haldið var í kaupstað og viðbótarvistir keyptar en við rétt náðum heim áður en óveðrið skall á aftur. Mér fannst það ,,kósý", er óskaplega lítið veðurhrædd og lít á svona lagað meira sem ævintýri en eitthvað annað. Óveðrinu fylgdi rafmagsleysi og stuttu síðar fór heita vatnið af. Stemning. Stemingin varði í um einn og hálfan tíma en heita vatnið kom ekki á fyrr en síðar um kvöldið. Þetta hafði þó engin áhrif á mannskapinn og snæddur var dýrindis humar í forrétt og nautasteik í aðalrétt. Séð og heyrt spilið var dregið upp og potturinn var notaður af drengjunum. Hið besta kvöld alveg hreint. Get ekki alveg sagt það sama um nóttina. Gullfoss og Geysir (gangur upp og niður) hófu innreið sína á okkur Hr. R. og veikindin standa enn yfir að einhverju leyti. Frábært! Hef ekki orðið svona veik frá því ég var barn. Ingibjörg og Maggi reyndust hetjur dagsins og skveruðu bústaðinn á meðan við hjúin sinntum okkar hlutverki á öðrum vettvangi... og þau keyrðu sjúklingana heim. Helgin var þó í heildina afar skemmtileg ef aðfaranótt sunnudags og sunnudagur eru undanskilin. Það verður samt að setja upp Pollýönnu gleraugun. Það er ákveðin rómantík falin í því að liggja uppi í rúmi hlið við hlið kengbogin og deila með sér Poweraidflösku.

Lifið heil!

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com