föstudagur, febrúar 25

Afmælisbarn dagsins

er Ungfrú ég :) Ég er sem sagt 25 ára + 36 mánaða í dag.

Lifið heil

     |

mánudagur, febrúar 21

Gáta

Spurt er um orðatiltæki:

A) tengist dauðanum

B) tengist Ásatrú

Orðatiltækið er oft notað af hinni Kristnu kirkju, en samkvæmt lögmálum hennar er þetta þó bannað. Hvert er orðatiltækið?

Sá/sú sem svarar rétt fær boð í afmælisboð mitt á laugardaginn. Góðar stundir.



     |

fimmtudagur, febrúar 17

Stundum þarf

lítið til að gleðja mann.

Það var einn kaldan vetrarmorgun sem Ungfrú ein vaknaði við klukkUna kl. 05:55. Syfjuð var hún. Með hálf lokuð augun þreifaði hún sig fram á gang og tók íþróttaföt af snúrunni. Hún smeygði sér í þau. Hún tók eftir því, þegar hún var búin að klæða sig í þau, að þau voru enn blaut. Hún var ekki kát með það, en greip annað par og skellti sér í það. Held að hún hafi verið hálfsofandi. Þegar Ungfrúin kom fram á gang, þá smellti hún sér í íþróttaskóna sem hún er vön að vera í, í ræktinni. ,,Nei", muldraði hún við sjálfa sig ,,þessa skó á ég að fara í þegar ég er komin í Sporthúsið". ,,Best að fara í einhverja aðra". Hún komst klakklaust í hús það kennt er við sport og jafnvel í gegnum æfingUna. Gott mál. En svo var allt ómögulegt þegar heim kom. Það var ekki til mjólk út á Cheeriosið, fötin sem hún ætlaði að fara í voru óhrein og svo framvegis. Þegar í vinnUna kom tók ekki betra við. Tölvan var með leiðindi, erfitt símtal og dulítið álag. Skapið var því ekki upp á það besta.

En það þarf ekki mikið til að breyta hlutunum. Ungfrúin var á gangi í fyrirtækinu þegar einn karlkyns samstarfsmaður segir ,,sæl og blessuð". ,,Sæll", segir hún og býst til að halda áfram". ,,Hvernig er það, hefurðu ekki grennst svolítið". Ungfrúin segir,,júúú" (á innsoginu) ,,um 10 kíló", og brosir. ,,Já, er það ekki, frábært. Það var sem ég hélt". Þá kemur annar aðvífandi og segir ,,já, er það. Hvernig fórstu að þessu". ,,Tja, bara með meiri hreyfingu og bættu matarræði" segir Ungfrúin. ,,jahá". Góða skapið var komið.

Þannig að þið sjáið að ein setning getur breytt heilmiklu. Ungfrúin ætlar að muna að hrósa fólki, þegar það á við. Það er svo oft sem maður hugsar, hve jákvæða hluti fólk er að gera, en gleymir að segja því það. Góðar stundir.

* Þessi frásögn er ekki byggð á sannsögulegum atburðum og engin dýr sköðuðust við gerð sögunnar...

     |

mánudagur, febrúar 14

Blússandi

góð helgi er að baki. Þorrablót Skerjóhópsins var haldin heima hjá Lindu & Helga á föstudagskvöldið. Drengirnir pöntuðu matinn frá Múlakaffi en við stúlkurnar komum með okkar mat sjálfar. Borðum fæstar þetta ,,gums". Þorramaturinn minn var kartöflumús, hangiket og harðfiskur. Svo var skálað í íslensku brennivíni, í ísglösum sem Helgi hafði búið til. Mjög flott. Við heiðruðum bæinn svo með nærveru okkar. kíktum á Kaffibarinn, ÖlstofUna og Hverfis. Fínt kvöld með skemmtilegu fólki

Ég var nú dulítið þreytt á laugardaginn en hunskaðist þó í bíó með Signýju Zen. Ræman Sideways varð fyrir valinu. Varð ekki fyrir vonbrigðum. Mjög góð ræma og persónurnar magnaðar.

Sunnudagur = afslappelsi í Citýinu. Jytte bra. Góðar stundir

     |

föstudagur, febrúar 11

Boj ó boj

Suma daga er maður misheppnaðri en aðra. Ég var að senda yfirlit um daginn til viðskiptavinar, sem vildi fá stöðUna á þeim sjóðum sem hann er að fjárfesta í. Ekki málið, ég skellti yfirlitinu í póst. Nema bara hvað, ég var að fá tölvupóst frá honum þar sem hann þakkaði fyrir yfirlitið... og kjúklingauppskriftina sem fylgdi með...

Heiða samstarfskona var að senda okkur einhverja uppskrift um daginn og ég prentaði hana út. Það er búið að vera frekar mikið að gera og yfirlitið hefur legið ofan á uppskriftinni. Ég hef svo bara skellt henni með... Stundum er mér ekki viðBjargandi, þó að ég heiti Björg að seinna nafni.

Lifið heil

     |

miðvikudagur, febrúar 9

Ef

ég mundi blogga um allt það sem ég hugsa um að blogga, væri ég mjööööög duglegur bloggari. Væri líka hnyttin og skemmtileg. Raunveruleikinn er hins vegar annar. Það er líka allt í lagi. Segjum það. Yfir og út. Góðar stundir.

     |

þriðjudagur, febrúar 8

Frá 13. janúar

hef ég brallað ýmislegt. Ég hef:

- farið í vinnUna
- farið í útskriftarpartý til Braginsky. Getið séð myndir hér
- farið á kaffihús með Ömmunum
- tekið upp úr töskunum
- fengið spennandi símtal frá Auði Styrkárs á Kvennasögusafni Íslands, sem var að falast eftir ,,sérfræðiþekkingu" minni. Kemur bráðum í ljós í hvaða samhengi það er;)
- fengið þær fréttir að Eva og Vigfús eru orðnir foreldrar. Til lukku með Prinzinn bæði tvö :)
- skrifað grein á SellUna
- gleymt þvotti inni í þvottavél en hrokkið upp af værum blundi og munað eftir honum... en þá verið staðsett í Þorlákshöfn Citý (og þvotturinn í Kópavogi)
- farið í kveðjumatarboð hjá Þórhildi, sem er að flytjast til Ástralíu með sínum heittelskaða
- farið í Afródans í Betrunarhúsinu
- farið í diskókeilu með Skrattheu, Ásdísi, Þóri & Gulla (úrslit verða ekki kunngjörð!)
- næstum dáið úr hlátri þegar Gulli vann Þóri á síðustu keilunni og Gulli dansaði eins og vindurinn
- farið í matarboð til Signýjar
- fengið þær fréttir að Linda og Helgi eru að fara að fjölga mannkyninu aftur. Til lukku með það:)
- verið löt
- verið hress
- farið á the Aviator með Sigurrós
- reynt að mæta í ræktina
- klárað Engla og Djöfla
- verið Lazarus
- slappað af
- ekki slappað af
- fengið áfall yfir því hve mikil eyðslukló ég er
- gleymt að skila bókasafnsbókum
- aftur gleymt að skila bókasafnsbókum
- alls ekki nennt að blogga
- greinilega aldrei verið heima hjá mér...

Góðar stundir

     |

mánudagur, febrúar 7

Jæja

Það er ekki seinna vænna að fara að skrifa um Kanaríferðina og það sem á daga mína hefur drifið síðustu vikur.

Kanaríferðin var alger snilld, enda ekki nema von. Ég á svo frábæra vinnufélaga í KB Ráðgjöf. Samtals var það 55 manns sem fóru. Unnur Ása vinkona, frá Nes Town, ákvað að skella sér með í sólina. Jytte bra. Nú hópurinn lagði af stað þann 5. janúar og við komum heim þann 12. Við vorum á ensku ströndinni. Veðrið var kannski ekki alveg upp á það besta þar, en það gerði ekki svo mikið til. Við brunuðum bara á ströndina á Puerto Rico, sem var í 10 mínútna fjarlægð. Þar var flagmagað í 27 stiga hita með englana og djöfla hans Dan Brown við höndina. Held að ég hafi farið þangað 3 eða 4 daga, ekki slæmt það. Ég hentist líka í rennibrautagarðinn og þar varð ég vitni að mjög skondnu atriði. Þannig var mál með vexti að ég og Unnur Ása vorum að rölta á milli rennibrautanna þegar ég sé 2 litla sænska stráka, hafa verið um 10 ára, allt í einu stara þeir á brjóstin á mér og annar þeirra sagði við hinn lágum rómi "jaaa, godar tuttar!".Hann hefur greinilega haldið að ég mundi ekki skilja hann. Ég hélt að ég mundi andast úr hlátri!.

Ég prófaði að kafa, í blautbúning með kút únd alles, og það var alveg stórkostlegt. Gísli, sem er að vinna með mér, er sportkafari og hann fór með okkur, 10 stk, niður í Puerto Rico að kafa. Reyndar til reyndra kafara sem fóru yfir öll atriðin með okkur áður en við fórum út á rúmsjó. Þetta var ólýsanlega gaman og ég væri til í að prófa þetta aftur. Geri það örugglega að ári. Á myndir og video af mér við köfunina, sem Gísli tók. Skelli því kannski á netið innan tíðar.

Ég fór að sjálfsögðu og verslaði agnar ögn. Það voru nefnilega útsölur í Las Palmas. Tókum strætó í heilar 45 mínútur til að komast í herlegheitin. Ég keypti þó ekki mikið, einungis 4 pör af skóm, Benetton gallajakka og sitthvað fleira. Kidstuff!

Árshátíð og uppskeruhátið fyritækisins var haldin úti og heill kínverskur veitingastaður var tekinn fyrir herlegheitin. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og appelsínuöndinn á staðnum er með betri mat sem ég hef smakkað. Jytte bra.


Frábær ferð með frábæru fólki. Það er nefnilega það. Góðar stundir

     |

miðvikudagur, febrúar 2

Sellan

á grein á Sellunni í dag. Þorlákshöfn Citý gæti borið á góma í greininni.

Góðar stundir.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com