föstudagur, júlí 28

Fyrst

ég er nú byrjuð að blogga verð ég að sýna ykkur mynd af mér og hinum brosmilda bróðursyni mínum:


Lifið heil og góða helgi.

     |

Ferðasagan - II hluti

Ætli það sé ekki best að halda áfram með ferðasögUna.

Flórens - 24. til 25. júní

Við skötuhjúin erum svo skilvirkir túristar að við náðum að skoða Feneyjar á einum degi. Héldum því til Flórens örlítið fyrr en planið var. Hótelið í Flórens var stillt inn í leiðsögukerfið og af stað. Það er um 5,5 tíma akstur frá Feneyjum til Flórens og það því þarf maður að finna sér eitthvað til dundurs á meðan. Ég manaði Hr. R í ,,hver er maðurinn" en sá leikur gengur út á að finna út hvaða persónu ég er með í huga. Ég kom með minn sígilda Eirík Hauksson en Hr. R var ekki alveg að skilja leikinn rétt. Þetta á að vera léttur og skemmtilegur leikur en ekki hjá Hr. R. Persónurnar sem hann kom með voru: austurríski vísindamaðurinn Doppler og svo dirfðist trúleysinginn að koma með Ólaf Skúlason, fyrrverandi biskup. Þess má geta að ég gat upp á þessum báðum herramönnum, en eftir langa mæðu. Hann fékk gula spjaldið eftir þetta og fékk einn séns í viðbót. Þá kom hann með Norman Schwarskopf, sem var ofursti í bandaríska hernum í Persaflóastríðinu. Þess má geta að hann er núna í 3ja ára banni í leiknum ,,hver er maðurinn". Þó ég hafi getað upp á ofurstanum.

Þegar til Flórens var komið, tóku þröng stræti á móti okkur og steikjandi hiti. Það var því gott að koma upp á hótel. Við höfðum pantað á litlu og vinalegu "bed and breakfast" hóteli sem var í eigu fjölskyldu einnar. Ég beið með töskurnar á meðan Hr. R fór með bílinn í geymslu. Vinalegi Ítalinn talaði litla ensku en faðir hans kom innan tíðar og talaði mjög góða ensku. Nógu góða til að segja okkur að við ættum alls ekki pantað hjá þeim 24.-25. júní. Heldur 24.-25. júlí!! Eitthvað hefur internetið verið að stríða okkur þegar við pöntuðum. Nú voru góð ráð dýr, dýrari en við héldum. Stjórinn fór í símann og reddaði okkur gistingu neðar í götunni, en það eina sem var laust var svítan. Við tókum hana. Svítan var á 2 hæðum og með svölum sem við nýttum okkur óspart. Við röltum ,,niður í bæ" og túristuðumst aðeins. Keypti meðal annars rasp og krem til að koma fótunum á mér í lag eftir rigningUna og svörtu skóna í Munchen. Ég settist út á svalir með rauðvínsglas og setti heitt vatn í einhverja fína keramikskál, sem ég fann í svítunni, og byrjaði verkið. Hr. R fannst mér sækjast það heldur seint og greip af mér raspinn og kláraði verkið. Fótsnyrting númer 2 í mánuðinum, ekki slæmt það.

Það var hitabylgja þegar við vorum í Flórens og hitinn var um 35+, sem er aaaaalltof heitt inni í borg. Við skoðuðum allt það markverðasta, meðal annars bókasafn sem Michaelangelo skreytti, og fórum svo upp í eitthvað virki sem er uppi á hæð einni. Annar aðilinn í ferðinni vildi alltaf fara upp á hæsta punkt og taka myndir yfir... Ungfrúin fékk líka þennan fína snert af sólsting og þurfti að fara upp á hótel. Eftir það var henni ekki hleypt út án þess að vera með eitthvað yfir höfðinu. Ég dröslaðist þó um kvöldið út að borða og sé ekki eftir því. Á veitingastaðnum sem við vorum á var afar sérkennilegur maður, hann var í rauðum jakkafötum og hvítum bol og svo til að toppa þetta var hann með rauða púffteygju í hárinu. Hann var tónlistarmaður staðarins! Gekk um og heilsaði fólkinu. Við hliðina á okkur voru tvær bandarískar konur á fimmtugsaldri. Honum fannst þær heillandi og gerði allt sem í hans valdi stóð til að sjarmera þær. Fyrst byrjaði hann að syngja lítið lag til þeirra en ekki virkaði það sem skyldi. Þá fór hann í róttækari aðferðir sem enduðu með því að hann söng Ave Maria og setti smá trommusóló með! Þá dó ég úr hlátri. Brosið fraus á vörum fraukanna sem hann var að reyna að sjarmera, ég skildi þær vel.

Cinque Terre - 25. júní til 1. júlí

Á leið okkar til Cinque Terre fórum við og heimsóttum skakka turninn í Pisa. Pisa er pínulítill bær og ekkert er þar að skoða nema þennan blessaða turn og byggingarnar í kring. Það var því lítið mál fyrir skilvirku túristana að massa það á mettíma. Ég reyndi að rétta skakka turninn við og það gekk ágætlega... með myndavélinni. Hann varð þó skakkur í hina áttina.

Við vorum í Cinque Terre í 6 daga og það var frábært. Eru fimm litlir bæir sem eru byggðir upp í klettana. Í Monterosso, bænum sem við vorum í, búa um 1.800 manns. Skemmtilega gamaldags með ágætum ströndum. Við skoðuðum alla bæina, tókum lest og bát til skiptis, og það var afar gaman. Enduðum í Vernazza(bærinn við hliðina á Monterosso) og pöntuðum okkur borð á sjávarréttastað. Hann var afar góður og útsýnið frábært. Eftir að hafa dvalið í Cinque Terre var maður þó kominn með nett leið á sjávarréttum. Smakkaði ansjósur, kolkrabba, skelfisk, hörpuskel og sitthvað fleira. Þó Cingue Terre hafi átt að vera afslöppun þá var hún það í raun ekki. Við gistum á stað sem var lengst uppi í fjallinu og þurftum að labba um 40 mín á ströndina, upp og niður 162 snarbrattar tröppur. Vorum komin í ágætisform eftir þetta allt saman. Löbbuðum að meðaltali 2x á dag þessa leið. Ströndin var snilld, himneskt að liggja á vindsæng úti í sjónum og láta sig reka... Mig langar aftur út!

Framhald síðar. Góðar stundir



     |

þriðjudagur, júlí 18

Fyrirmyndaríkið

Gott að það er verið að leggja niður leiðir með Strætó á meðan bensínverð er í hæstu hæðum og ríkisstjórnin tekur til sín æ meir af bensínhækkununum.

Það fer allt til andskotans á meðan Íhaldið er bæði í borginni og í ríkisstjórn, það er vitað mál.

Góðar stundir.

     |

sunnudagur, júlí 2

Smá fréttir af ferðalöngunum

Munchen - 20. júní til 22. júní

Við lögðum upp í reisUna þann 20. júní og flugum til Munchen. Faðir hr. R, hann Hafsteinn flaug með okkur út. Til að heimsækja bróður sinn sem býr rétt fyrir utan Munchen og svo einnig til að fara á leik á HM. Flugvélin var nánast tóm þannig að við gátum lagt mörg sæti undir okkur. Mjög fínt. Við gistum hjá vinahjónum Hr. R sem voru stödd í landi tækifæranna, gott að hafa heila íbúð undir sig og sitt. Þegar við komum til Munchen voru gífurleg fagnaðarlæti og Leopoldstrasse var lokað fyrir umferð. Fagnaðarlætin voru ekki okkar vegna heldur höfðu Þjóðverjar unnið leik og þúsundir streymdu út á götunar. Þetta var eins og þjóðhátíð í 5ta veldi. Hr. R sýndi mér svo borgina daginn eftir (bjó þar í 4 ár) og sleppti mér lausri í H&M. Það eru 2 H&M búðir í Munchen og þær eru næstum við hliðina á hvor annarri. Var búin að fara í þessa svokölluðu "second hand" og ætlaði að hitta Hr. R í hinni búðinni því hann fór að skoða e-r raftæki (vorum búin að fara á e-ð torg í millitíðinni) Hann benti mér á hina H&M búðina og hélt af stað. Ungfrúin labbaði hins vegar aðeins of langt og endaði aftur í sömu búðinni. Skildi svo ekkert í því af hverju hann hefði bent mér aftur á sömu búðina! Ég labbaði bara inn í hana og verslaði smá. Hr. R beið hins vegar áhyggjufullur í hinni H&M búðinni (ég var ekki með símann minn) og hélt að Ungfrúin væri búin að gera einhverja gloríu. Hún fattaði mistökin þó á endanum og hitti sveittan og áhyggjufullan Hr. R fyrir.

HM leikurinn var hinn skemmtilegasti. Serbía Svartfjallaland - Fílabeinsströndin, leikurinn skipti ekki miklu máli í riðlinum en ég skemmti mér vel. Fór 3-2 fyrir Fílabeinsströndinni (ég hélt með þeim) Leikurinn fór fram á Munchen leikvanginum, skemmtilegur og stór leikvangur. Það var pakkfullt í sæti, eða 66.000 áhorfendur. Veðrið lék við okkur allan leikdaginn (fékk smá lit í kinnarnar) þar til við stigum út úr lestinni og að leikvanginum. Þá komu þrumur og eldingar og úrhellisrigning. Ég var á hlýrabol og í pilsi. Herramaðurinn hann Hafsteinn lánaði mér regnjakkann sinn og óð rigningUna á bolnum. Allt gert fyrir dömUna sem með var í för. Þegar við komum upp í íbúð eftir leikinn var ég að skoða í spegli hversu mikinn lit ég fékk um daginn. Jújú bara komin með lit í kinnarnar. Var voðalega ánægð þar til ég kíkti á lappirnar á mér! Ég hafði farið í svörtum tauskóm á leikinn og þeir blotnuðu náttúrulega í gegn... og fæturnir á mér voru svartir!!! Ég var því ekki ánægð með allan þann lit sem ég fékk þann daginn. Ég rauk í sturtuna og reyndi að ná litnum af, en allt kom fyrir ekki. Hann fór ekki... ég varð því að gjöra svo vel að vera með svartar tær og iljar þangað til við komum til Flórens og ég sem hafði farið í fótsnyrtingu 2 dögum áður. Frábært!


Feneyjar - 22. júní til 23. júní

Við tókum bílaleigubíl í Munchen og keyrðum til Feneyja, lögðum snemma af stað um morguninn. Þegar til Feneyja var komið byrjuðum við á að tékka okkur inn á hótelið, eða stofnunina eins og við kölluðum hótelið, og beint að túristast. Fórum og skoðuðum Markúsartorgið, mér til mikillar mæðu. Ekki misskilja mig, þetta er mjög fallegt torg, en þar eru þúsundir fugla og ég er með fuglafóbíu... Hr. R skemmti sér hið besta við að taka myndir af þeim skelfingarsvipum sem ég setti upp þegar fuglar nálguðust mig. Hló svo eins og skepna! Til að bæta upp fyrir skepnuskapinn bauð hann mér á gondól og það er alveg reynsla út af fyrir sig. Mæli með því ef þið farið. Við sigldum um Feneyjar í 40 mínútur og nutum þess að vera til. Hr. R hélt utan um mig og þegar við mættum gondól fullum af Japönum þá smelltu þau myndum af okkur í gríð og erg, settu upp vísifingur og löngutöng (eins og Arnar hennar Dagýjar gerir alltaf) og sögðu "happy, happy!" Mjög súrrealískt allt saman en fyndið. Þegar við stigum á land báðum við goldólaræðarann um að benda okkur á góðan veitingastað og við héldum þangað. Þar var okkur plantað á borð með fimm manna fjölskyldu frá landi tækifæranna. Mjög matvönd, kanar vilja greinilega bara hamborgara og mikið steiktan mat. Ég pantaði mér steik og fékk einmitt steik. En bara steik. Á Ítalíu pantar maður meðlætið sér, núna veit ég það. Eftir máltíðina löbbuðum við um og settumst við torg eitt. Þar var kona að spila á selló og við fengum okkur rauðvín og osta. Svona á lífið að vera!

Meira um ferðina á morgun. Sit núna í hótelgarði á Nice í Frakklandi með ferðatövlUna og rita þetta niður. Best að skella sér í sólbað. Góðar stundir.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com