föstudagur, nóvember 25

Týnd, ekki týnd. Týnd, ekki týnd...

gæti verið titillinn á ævisögu peningabuddunnar minnar. Ef slík myndi verða gefin út. Er búin að týna greyinu 3x á 3 vikum. Týningur eitt átti sér stað í Kringlunni. Við Ingimundur spariskór fengum okkur að borða og er við vorum að klára snæðinginn þá finn ég á mér að það vantar eitthvað. Ah, veskið. Stormaði í afgreiðslu veitingastaðarins og náði í það. Er við vorum að fara þá glymur um KringlUna: ,,Una Björg Einarsdóttir er vinsamlegast beðin um að koma í afgreiðslu Subway..." Uh, ég er sko búin að ná í það... heyrðist í mér.

Í sambandi við týning númer 2 þá hef ég ekki hugmynd um hvernig það vildi til. Man að ég tók bensín í Þorlákshöfn Citý og áttaði mig á því þegar ég kom heim að peningabuddan væri ekki með í för. Hringdi í Skálann og það var ekki þar, ekki heldur í bílnum. Ég lét loka kortunum og pantaði ný. Viku síðar hringdi góð kona úr KB Banka og sagði að drengur einn hefði skilað peningabuddunni, hefði fundið hana á höfuðborgarsvæðinu! Hún væri reyndar svolítið blaut en annars í góðu ástandi. Hún sendi hana svo til mín í vinnuna. Skil ekki hvar hann hefur fundið hana. En greyið buddan skilaði sér til mín aftur, köld og hrakin.

Í gær fékk ég svo áfall þegar ég fann hana ekki í Mary Poppins veskinu mínu. Fór í hverfisbúðina mína og athugaði hvort hún væri ekki þar. Lét greyið stelpurnar súast fyrir mig og meðal annars kíkja inn í peningaskápinn og athuga... Var farin að kvíða fyrir að þurfa að hringja í þjónustufulltrúann minn og panta ný kort, aftur. Fór heim og leitaði af mér allan grun. Þegar ég fann hana ekki fór ég yfir ,,ferlið" s.s. rakti slóðir mínar síðan í gærkvöldi. Staðnæmdist þegar ég fór að athuga hvar íþróttataskan mín væri. Mundi þá skyndilega að ég hefði keypt mér ,,búst" eftir spinning tímann um morguninn. Hjúkk. Peningabuddan var í íþróttatöskunni...

Aumingja peningabuddan mín. Hún er farin að halda að ég elski hana ekki, heldur að ég sé að reyna að losa mig við hana. Sem er mesti misskilningur, þykir ægilega vænt um hana. Enda var hún gjöf frá Ásdísi og Helgu þegar þær komu úr Asíureisunni. Skil hins vegar vel að hún sé örlítið óörugg. Elsku peningabudda, þetta hefur ekkert með þig að gera. Heldur mig.

Góðar stundir.

     |

miðvikudagur, nóvember 23

Msn samskipti

Var að tala við Emil Karel bróður minn, sem er 11 ára, á msn-inu í dag:

Emil Karel said:
sæl
Úngfrúin said:
hæhæ
Úngfrúin said:
hver er Guðný?
Emil Karel says:
kærasta mín
Emil Karel says:
I love her

Úngfrúin says:
hverra manna er hún
Úngfrúin says:
og hvað er hún gömul
Úngfrúin says:
á hún heima í Þorlákshöfn?
Emil Karel says:
12
Emil Karel says:
nei

Úngfrúin says:
hvaðan er hún?
Emil Karel says:
vestmanneyjum
Úngfrúin says:
og hvar kynntistu henni?
Emil Karel says:
MSN
Emil Karel says:
en hitti hana í Eyjum
Úngfrúin says:
já, ok og er hún núna kærastan þín
Emil Karel says:
0já

Úngfrúin says:
og hvenær fæ ég að hitta hana?
Emil Karel says:
I don't know
Úngfrúin says:
noh, bara brugðið fyrir sig enskunni
Emil Karel says:
þú mundir láta hana hlæja of mikið
Úngfrúin says:
hahaha, heldurðu það
Emil Karel says:
yes of course
Emil Karel says:
amm
Úngfrúin says:
af hverju heldurðu að ég myndi láta hana hlægja svona mikið?
Emil Karel says:
þú ert svo fyndin
Úngfrúin says:
takk fyrir það Emslinn minn
Emil Karel says:
þú gætir logið um unglingabóluna
Úngfrúin says:
hahaha, já

Úngfrúin says:
jæja verð að fara að vinna
Emil Karel says:
bæ bæ

Sem sagt, litli bróðir minn er orðinn gelgja. Á kærustu og allt. Ja hérna hér. Tíminn líður allt of hratt á gerfihnattaöld.

Lifið heil

     |

þriðjudagur, nóvember 22

Já, einmitt

Ég er ekki mjög góð í því að halda uppi "small talk" samræðum. Leiðist það afskaplega mikið. Forðast það eins og heitan eldinn. Tilgangslausar samræður sem leiða ekki neitt eru tímasóun og vandræðalegar. Maður stendur sjálfan sig að því að segja ,,já, einmitt"afar oft og stundum reikar hugurinn á aðrar slóðir. Stundum verða þó tilgangslausar samræður allt að því skemmtilegar og geta tekið óvænta stefnu. Um daginn var ég á mannamóti og talaði við dreng einn sem ég kannast við en þekki ekki. Töluðum um daginn og veginn en fyrr en varði vorum við farin að tala um húmor. Sem er sérlegt áhugamál mitt. Samræðurnar voru komnar yfir þetta "small talk" stig þegar ég sagði ,,þú ættir að heyra sagnfræðing segja brandara. Það tekur að minnsta kosti hálftíma"! (þekki það af eigin reynslu). Hann hló og mér fannst ég fyndin. Klikkti svo út með því að spyrja hann hvað hann gerði. ,,Ég er í sagnfræði". Já, einmitt var það eina sem ég gat sagt. Skyndilega fannst mér ég ekki fyndin lengur. Vandræðalegt. Samræðurnar urðu aftur að "small talk"

Góðar stundir.

     |

Vangavelta

Hámark letinnar. Er búin að komast að því hvað það er. Það er að nenna ekki að fara að sofa þó maður sé ótrúlega þreyttur. Hámark letinnar. Komst að þessari merkilegu niðurstöðu á sunnudaginn. Lifið heil

     |

þriðjudagur, nóvember 8

sms

Fékk sms frá vinkonu minni og samstarfskonu sem er á ferð um Kína. Að fá sms frá Kína er eins og að fá skilaboð að handan. Get ég ímyndað mér. Góðar stundir.

     |

fimmtudagur, nóvember 3

Er

það heimtufrekja að vilja 32 tíma í sólarhring í stað 24urra? Nei, er það nokkuð?

Lifið heil.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com