fimmtudagur, júlí 24

Hitt & þetta

Félagslífið hefur verið með besta móti upp á síðkastið. Það mætti halda að maður væri að búa sig undir að vera meira heimavið á næstunni... og hefst þá sagan. Þann 12. júlí fórum við austur fyrir fjall í brúðkaup Gyðu og Sigfúsar. Athöfnin var haldin í Þorlákshafnar kirkju og veislan í Ráðhúskaffi. Tara Dís dóttir þeirra stal senunni í athöfninni og var komin í fangið á prestinum að lokum. Hin besta skemmtun.

Brúðhjónin
Við systkinin í veislunni


Á föstudaginn komu R & R (Rakel & Reynir) í grill og spjall. Alltaf gott að fá þau í heimsókn. Á laugardaginn var stímt út á land í góða veðrið. Byrjuðum á að heimsækja foreldra sem voru í útilegu að Þjórsárverum. Þar var humri skellt á grillið og hann snæddur í hádegismat. Dekurrófur? Myndi halda það. Að hádegismat loknum var ferðinni heitið á Hvolsvöll, að Glámu rétt fyrir utan Hvolsvöll, nánar tiltekið og hús tekið á Úlfari og Guðlaugu, vinum Rúnars frá Munchen. Þar var setið úti í blíðskaparveðri og reynt að fá bolafar. Eftir 2ja tíma stopp héldum við áfram að Hellishólum þar sem Air Atlanta var í útilegu, eða starfsmenn fyrirtækisins altso. Þar plöntuðum við okkur niður og fórum ekki fyrr en um miðnætti heim. Þar var grillað, sungið með trúbadorum og sólað sig.

Á sunnudeginum komu Skerjóliðar saman heima hjá Braga & Eygló í smá hitting, í Matarklúbbinn MM&MM nánar tiltekið, og borgurum og pólskum pulsum var skellt á grillið eins og enginn væri morgundagurinn. Að matarklúbb loknum var haldi í 2X30 ára afmæli Bylgju og Hrannar. Nóg að gera og ekki grenntist maður þann daginn!

Talandi um bumbu. Ætli það sé ekki best að smella inn eins og einni bumbumynd. Á þessari mynd er ég komin akkurat 35 vikur.



Tvær bumbulínur: Linda komin 30 vikur og ég 35.



Og að síðustu mynd fyrir þá sem hafa heimtað slíka af Hr. R, tekin í Þýskalandi um árið.


Lifið heil.

     |

sunnudagur, júlí 6

Hringur á fingur

Hr. R kom mér heldur betur á óvart síðastliðinn laugardag (28. júní). Við vorum í sumarbústað á Flúðum og nutum dagsins í góða veðrinu. Fórum í göngutúr, í pottinn, kíktum á foreldra sem voru í útilegu í Árnesi og skoðuðum umhverfið í kring. Hr. R eldaði svo dýrindis humarsúpu handa okkur þegar tók að kvölda og sagði mér svo að setjast í sófann að málsverði loknum því hann skyldi taka af borðinu og ganga frá. Fínt, hugsaði ég og settist í sófann og hlustaði á tónlist. Það næsta sem ég vissi var að sambýlismaðurinn kraup fyrir framan mig með hring, sagðist elska mig og spurði mig hvort ég vildi giftast honum. Ég játti honum auðvitað, ekki annað hægt. Enda afskaplega heppin með mannsefni. Hann smeygði svo hringnum, sem hann lét Ingibjörgu vinkonu sína smíða handa mér, (er úr hvítagulli með demanti í) á fingurinn. Alla vega vega er rómantíska útgáfan þannig, hin raunverulega útgáfa er að það tók smá tíma að ná hringnum, sem ég var með á fingrinum, af vegna óléttuástands. Það hafðist þó að lokum og hringurinn komst á fingurinn. Restinni af kvöldinu eyddum við í spjall, að hlusta á tónlist & knús. Með betri dögum áratugarins :o) Spurning hvort maður hætti þá að kalla sambýlismanninn Hr. R og noti hans rétta nafn á alnetinu fyrst hann er búinn að setja hring á fingur. Gæti verið.


Lifið heil.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com