Síðasta helgi
var hin bezta. Sambýlismaðurinn bauð mér óvænt út að borða í tilefni nýja starfsins. Fórum á Indian Mangó á Frakkastíg, mæli með honum. Er lítill og kósý staður og góður matur en oftast verður að panta borð. Eftir snæðinginn kíktum við aðeins á B5 og Reynir hitti okkar þar.
Laugardagurinn var tekinn snemma, rokið í ræktina og var svo mætt heim til Helgu á slaginu hálf eitt því framundan var hin árlega óvissuferð Ammanna (ML dömurnar). Helga og Sigurbjörg sáu um skipulagningUna að þessu sinni. Við lögðum að stað um kl. 13:00 og ferðinni var heitið niður á Laugaveg að mála á postulín, nánar tiltekið í smiðju að nafni keramik fyrir alla. Við vorum misflinkar með keramikið, ég valdi mér til að mynda mjög áhættulausan hlut á meðan aðrar voru listrænari í sér. Mjög skemmtilegt. Vorum þar í um tvo tíma en þá gerðist Helga óþreyjufull því við vorum bókaðar annars staðar um hálf fjögur. Það var því stormað út í bíl og út í óvissUna. Næsti staður var slökkvistöðin í Hafnarfirði. Þar var okkur skipt í tvö lið og fyrir okkur voru lagðar þrautir, tímaþrautir. Fyrst fórum við í tækjasal slökkviliðsins og vorum látnar taka einn þrekhring. Þar næst áttum við að renna okkur niður súluna, ég var í pilsi þannig að ég tók bara Bridget Jones á þetta. Ekkert annað í stöðunni. Skyndihjálp var þriðja þrautin og fjórða þrautin fól í sér kapphlaup við tímann inni í sal hjá öllum slökkviðsbílunum, undir planka og yfir brunabíla. Að þrautunum loknum var svo sest að snæðingi og spjallað við snillingana sem tóku á móti okkur. Þegar við yfirgáfum stöðina var ferðinni heitið heim til Helgu að ná í allt dótið sem við þurftum að taka með og okkur var skutlað í Baðhúsið í pottinn þar. Búið að gera Baðhúsið að mestu upp og er orðið hið bezta. Þar lágum við í pottinum, spjölluðum og skáluðum í freyðivíni. Þegar við vorum búnar að vera pottormar í um klukkutíma fórum við upp úr og gerðum okkur fínar því næsti liður fól í sér að setjast að snæðingi niðri í bæ. Þar mætti svo leynigesturinn Vigdís. Hún var í vinnuferð og mætti því óvænt frá London. Svo var haldið í teiti heim til Helgu, fengið sér hvítvín og sungið í sleifar (siður sem við höfum lengi haft)

og svo niður í bæ að danza. Allt í allt frábær dagur og frábært kvöld.

Hluti Ömmuhópsins