föstudagur, október 31

Pravda & basketball

Ætla að storma í Cityið í kvöld til að horfa á KFÍ, Hrafn Hansen og félaga, keppa á móti Þór Þorlákshöfn. Zen kemur með. Svo er ætlunin að horfa á Idolið með henni móður minni. Þetta á að vera róleg helgi. Kíki samt annað kvöld í afmæli til Arndísar löggu og Sæunnar klippikonu á Unique sem haldin verður á Pravda. Annað er ekki planað. Lifið heil

     |

Hart í bak

Já, það var hart í bak og allir á stjórnborða í gær. Sofnaði á sófanum í gær og var hálf vönkuð þegar Signý hringdi til að fá mig á tónleika. Það var ekkert til að borða heima þannig að mér fannst tilvalið að fara í bíó og fá mér Natchos í leiðinni. Tónleikarnir biðu því lægri hlut fyrir Natchos og Kill Bill. Ég beið í langri röð til að versla mér veigarnar. Nema bara hvað loksins þegar kemur að mér þá er sósan köld og ekki hægt að fá gúmmilaðið. Uss uss uss og ég með gaulandi garnir. Kill Bill var alveg stórkostleg mynd. Snilld. Ekkert meira um það að segja, nema bara það að ég hlakka til að sjá volume 2 og að Uma nafna mín, svo gott sem, var mögnuð. Góðar stundir.

     |

fimmtudagur, október 30

Fimmtudagar eru tónleikadagar

Svei mér þá ef fimmtudagar eru ekki að verða að tónleikadögum hjá mér. Fór á Dúndurfréttir, sællar minningar, í síðustu viku og nú er ætlunin að fara á Nasa til að sjá og heyra í Maus, Mínus og fleiri hljómsveitum. Gaman að því. Góðar stundir

     |

miðvikudagur, október 29

Hamborginsky

Hún Signý Zen ætlar að bjóða í hamborginsky í kvöld því að hún tapaði veðmáli. Þá er bara að bruna til hennar eftir ræktina. Gaman að því, góðar stundir.

     |

Heimsmeistari

Ekki amalegt að verða heimsmeistari í þessari ,,íþrótt". Spurning um að skrá sig á næsta ári! Ekki er öll vitleysan eins. Góðar stundir

     |Valdimarinsky er búinn að kasta af sér eymingjabloggs titlinum og er farinn að blogga aftur eins og vindurinn. Til lukku með það Valdi. Lifið heil

     |

Wokedí wok

Það var eldaður kínverskur matur í Hófgerðinu í gær. Alveg ekta. Matreiðsluskvís sá um það. Ægilega gott alveg. Svo voru það hreingerningarnar. Það er alltaf þrifdagur hjá okkur á þriðjudögum. Allt tekið í gegn. Þannig að nú er allt glansandi heima. Ekki leiðinlegt það. Nýi diskurinn með Strokes var settur á fóninn. Silence is easy með Starsailor var einnig mikið spilað, er í miklu uppáhaldi núna. Fortíðarsmellurinn Breiðholtsbúgí með Langa Sela og Skuggunum fékk líka að óma. Helvíti gott lag! Góðar stundir

     |

þriðjudagur, október 28

Skrýtni leikifimikennarinn

Fór í leikfimi eftir vinnu í gær. Kennarinn sem er venjulega að kenna þennan tíma var veik þannig að önnur hljóp í skarðið fyrir hana. Ég hélt á tímabili að hún væri full eða á einhverju. Hún talaði allan tíman, og hló, og held að hún hafi sofið með herðatré í munninum. Hún brosti nefnilega alla hringinn. Það var ekki það eina sem mér fannst einkennilegt við hana. Hún var líka berfætt! Berfættur eróbikkkennari. Hún reyndar gerði mest lítið af æfingunum. Benti alltaf á fremstu konUna og sagði: ,,gerið eins og hún" eða þegar hún gerði æfingar þá sagði hún. ,,stelpur, beygið ykkur neðar, þó að ég komist ekki neðar þá getið þið það". Svo þegar hún fór að minnast á jólabikiníið þá leist mér ekkert á blikUna. Hún púlaði okkur út, fyrir jólabikiníið hver notar svoleiðis!, og einu sinni þá lét hún okkur hlaupa á staðnum eins hratt og við gátum. Átti að vera í 30 sek en hún gleymdi sér við að tala við eina konUna að það var að fara að líða yfir nokkrar þegar hún áttaði sig og sagði að við mættum slaka á. Ja, hérna hér. Já, og hún gleymdi sér oft þegar hún var að telja niður. Áttum kannski að gera 10 magaæfingar í viðbót. Hún byrjaði að telja. tíu, níu, sex! Svo áttaði hún sig. Nei ekki sex, átta. Þannig að við þurftum alltaf að gera miklu fleiri en upphaflega stóð til. Ég hafði nú samt lúmskt gaman að þessu. Eða lýmskt eins og Hildur mundi segja. Já, já þetta var ágætt. Fyndið alla vega. Græddi alla vega heilmiklar harðsperrur. Góðar stundir

     |

mánudagur, október 27

Rennibraut og kökuveisla

Vaknaði um 11 leytið þegar Matta hringdi. Drifum okkur á Stælinn með henni Soffíu. Soffía var eitthvað að barma sér að hana langaði í sund. Við tókum hana á orðinu og drifum okkur. Hún bjóst alls ekki við því að ég mundi nenna, hef ekki farið í sund síðan jah veit ekki hvenær. Það var mjög hressandi að fara í sund. Fór 7 ferðir í rennibrautina! Geri aðrir betur. Synti líka smá. Nennti ekki að hanga í pottinum. Eftir sundið náðum við í Signýju og fórum í eftiráafmæli til hennar Guðbjargar Ingu. En hún móðir hennar var búin að bjóða okkur í afganga frá afmælisveislunni daginn áður. Veglegar veitingar voru á borðum. Ekki sviknar af því. Var reyndar dulítið þreytt og svaf restina af deginum. Uss uss suss. Góðar stundir

     |

Afmæli og sjónvarpsupptaka

Vaknaði um 10 leytið á laugardeginum og slappaði af með Frú Ásdísi og Emil Karel. Við brunuðum svo í Hveragerði til að horfa á Emil Karel keppa í körfubolta. Þeim gekk nú bara alveg ágætlega. Fór svo í bæinn til að hitta Möttu og kaupa gjöf handa Titti. Ég náði ekki á hana í síma en vorum búnar að mæla okkur mót klukkan 3. Skildi ekkert í þessu en hún svaraði ekki símanum. Svo hitti ég hana allt í einu í Kringlunni. Síminn hennar var ónýtur og hún var á leiðinni heim til sín til að hringja í mig úr heimasímanum. Þá sá hún bílinn minn á bílastæðinu og ákvað að leita að mér. Við fórum og keyptum föt á Titti. Matta fjárfesti svo í nýjum síma. Vorum allan daginn í Kringlunni og Smáralindinni að leita að fötum. Var komin með hælsæri á endanum. Uss uss suss. Svo var stormað í afmælið hans Titti. Hildur hin vanfæra og Gummi gáfu mér far. Það var margt um manninn í litlu íbúðinni þeirra. Meðal annarra var vinur hans Titti sem er hálfur Ítlali og hálfur Ungverji. Með honum í för var ungverska sjónvarpið. Þeir gera þætti um Ungverja um allan heim og nú var röðin komin að honum. Þurftum meðal annars að syngja afmælis söngin á ítölsku. Verður sýnt í Ungverjalandi í næsta mánuði. Þetta verður tekið upp fyrir Titti og hann ætlar að leyfa okkur að sjá. Gaman að því. Við Matta, Ásdís og Helga gáfum honum rauðan hálfermabol og svo hvítan langermabol undir. Ég varð náttúrulega að fá að sjá hann í þessu þannig að ég rak hann náttúrulega í fötin. Hann var ægilega ánægður með gjöfina. Var í henni restina af kvöldinu. Svo var stefnan tekin á ÖlstofUna og Hverfisbarinn. Þar var mikið af fólki. Hitti meðal annarra Ölmu, Sæunni og Rakel Magg+kærasta. Þórir og Davíð kíktu líka við. Helvíti skemmtilegt kvöld. Lifið heil

     |

Fortíðardraugur

Fékk upphringingu frá fortíðardraug einum á föstudagskvöldið. Hef ekki heyrt í honum í tvö eða tvö og hálft ár. Datt allt í einu í hug að hringja í mig og athuga hvað ég væri að gera í lífinu. Var reyndar dulítið fúll út í mig því að ég þekkti hann ekki strax. Við hverju býst maðurinn! Honum datt í hug að við gætum kannski hist. Jah, hérna. það sem fólki dettur í hug. Lifið heil

     |

Snúlli litli Perdue skoðaður

Fór í Cityið strax eftir vinnu og nú er rauða eldingin komin með mannbrodda (þýðing: vetrardekkin komin undir bílinn). Mamma bauð mér svo í mat og ég og Emil Karel fórum svo á körfuboltaleik. Eftir leikinn brunaði ég heim til foreldra og horfði á Idolið. Þar næst var hin nýbakaða Anna heimsótt og Snúlli litli. Júlíus, faðir Önnu, bauð okkur upp á köku sem hann hafði keypt á kökubasar hjá leikskólakonunum heima. Þær eru víst að safna fyrir utanlandsferð. Ágætiskaka alveg hreint. Júlli klikkar ekki. Góðar stundir

     |

föstudagur, október 24

Again

Jæja, þá er einn föstudagurinn enn upp runninn og er það vel. Er að fara í Cityið á eftir til að láta setja vetrardekkin undir rauðu eldingUna mína. Svo ætla ég að fara með Emil Karel litla bróður minn á körfuboltaleik, Þór Þorlákshöfn - Njarðvík. Að því loknu er meiningin að fara til Önnu Júl og skoða Snúlla litla Perdue sem er hálfs mánaða gamall í dag. Keypti smá pakka handa þeim áðan. Á morgun er svo meiningin að fara í afmæli til hans Tittis. Hann er ítalskur stjórnmálafræðingur og maðurinn hennar Heiðu vinkonu. Alltaf gaman að hitta þau. þar sem við erum bæði stjórnmálafræðingar finnst okkur ægilega gaman að tala um stjórnmál í partýum. það finnst vinum okkar ekki. Guðni Ágústsson myndi segja: þar sem 2 stjórnmálafræðingar koma saman, þar eru leiðinlegar umræður. En hann Guðni veit víst ekki neitt þannig að það er erfitt að taka mark á honum. Hann sagði líka einu sinni: staða konunnar er bak við eldavélina!" Já, ekki mikið að marka hann karltuskUna. Líf og fjör. Yfir og út. Góðar stundir

     |

Dúndur hjá Dúndurfréttum

Á varla orð til að lýsa tónleikunum hjá Dúndurfréttum í gærkvöldi. Settur helst í hug orðið trubbbblað, eins og Kristín Þórarins komst svo skemmtilega að orði þegar hún sá fermingarvaralitinn hennar Stínu árið 1991. Dúndurfréttir voru alveg ótrúlega góðir. Pétur nær söngnum svona líka assgoti vel, Einar Þór á gítarnum var ótrúlegur. Reyndar voru þeir allir góðir. Spiluðu eins og vindurinn. Fékk gæsahúð á tímabili! Við Soffía og Óli hressi vorum alveg sammála um ágæti tónleikanna. það er ekki hægt að lýsa þessu. Hefðir þurft að vera þar. Þarna var margt um manninn. Hitti meðal annarra Kristínu Laufeyju Röskvukonu, Ármann, minn elskulega bróður, Ingvar og Flame vini hans. Góðar stundir

     |

fimmtudagur, október 23

Myndband

Hún Jórunn sem er að vinna með mér á AFM var að sýna mér nýja myndbandið með Maus. Hún er nefnilega móðir hans Bigga í Maus. Þetta er teiknimyndamyndband við lagið my Favorite excuse. Ágætis myndband alveg, verður frumsýnt í næstu viku. Nú verður Soffía veik af öfund. Maus er nefnilega ein af uppáhöldunum hennar! jájá, gaman að því. Lifið heil.

     |

Afmælisbarn dagsins

Er hún Anna Júl nýbökuð mamma. Hún er kvartfjórðungsaldargömul+3ár (28 ára) í dag. Til lukku með daginn Anna mín. Lifðu heil

     |

Tónleikar

Það er stefnan að fara á Dúndurfréttir í kvöld. Pantaði miða fyrir okkur Soffíu og Óla áðan. Hlakka til. Jei. Lifið heil

     |

SvuntuBogga og þjóðlegur matarklúbbur

Dreif mig í matarklúbbinn í gær eftir Fimina. Á móti mér tók ungfrú Bogga með svuntUna framan á sér. Hún stóð og var að hræra í kjötsúpu. Hún og Dóri elduðu þessa dýrindis kjötsúpu handa okkur og bökuðu rúgbrauð. Einnig var á borðum taðreyktur silungur sem Dóri veiddi fyrir norðan. Ekki amaleg veisla þetta. Ægilega þjóðlegt allt saman. Alltaf finnst mér jafn gaman að hitta Skerjóliðið. Hún Guðbjörg Inga, fyrsta Skerjóbarnið, átti afmæli í gær. Hún varð eins árs. Til lukku með það foreldrar. Hún er mikil skvísa. Ákveðið var að halda myndasýningu fyrir gönguklúbbinn Of Langt Gengið. Ég er ekki í honum, það væri of langt gengið og gengi líklega fram af mér. Gæti þó stolist á myndasýningUna. Kemur í ljós. Næsti klúbbur er svo hjá Munda og Gerði. Gaman að því. Góðar stundir

     |

miðvikudagur, október 22

Ég verð svo hoppandi vond

Þegar ég sé svona dóma: Karlmaður hefur verið dæmdur í eins árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum í fyrra og hitteðfyrra. Þá þarf hann að borga stúlkunum 560 þúsund krónur í miskabætur - en farið var fram á rúmlega 2,3 milljónir - og 740 þúsund krónur í málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun.
Brotin, sem voru misjafnlega alvarleg, framdi maðurinn á þáverandi heimili sínu í Reykjavík en þau framdi hann gagnvart þremur stúlkum sem voru vinkonur stjúpdóttur hans og komu því oft á heimili hans. Þótti hann hafa misnotað aðstöðumun í aldri og þroska gagnvart stúlkunum og brugðist trúnaðartrausti þeirra, en þær voru á fermingaraldri.

Brot mannsins gegn einni stúlkunni þótti sérlega gróft, að mati Héraðsdóms Reykjavíkur sem kvað dóminn upp í gær. Það átti sér stað að morgni sunnudags í nóvember sl., en þá lagðist hann upp í rúm þar sem stúlkan svaf, káfaði á rassi hennar utan klæða, brjóstum og maga innan klæða, sleikti á henni brjóstin og lagðist loks ofan á stúlkuna og reyndi að klæða hana úr náttbuxum auk þess sem hann lét hendur hennar á kynfæri sín. Þótti dómnum ljóst af vætti sérfróðra að stúlkan hafi borið þess merki að hafa orðið fyrir verulegu áfalli þennan morgun.

Og karlhelvítið fékk bara eins árs fangelsisdóm. Það þarf að endurskoða löggjöfina og íslenskt réttarkerfi. Hnuss!!!


     |

Afmælisbarn dagsins

... er hún Elín. Stundum kölluð Dós. Hún var að vinna með mér í félagsmiðstöðinni Sigyn þegar ég var að vinna þar. Við tökum alltaf hallærisdansa þegar við hittumst. Til lukku með daginn Elín mín. Lifðu heil

     |

Farangur

Það var eins og að ég væri að fara með einhvern á leikskóla í morgun því að ég var með svo mikinn farangur. Var með nesti fyrir hádegið og leikfimistöskUna mína. Svolítið bissí dagur. Ætla í ræktina beint eftir vinnu, mikið verður gott að fara þangað aftur. Hef ekki farið í meira en viku út af hálsveseninu. Nú er það komið í lag og verð í ræktinni þar til ég fer í matarklúbb til Boggu og Dóra (eða Dóru og Bogga eins og þau eru stundum kölluð) um 19:00 leytið. Kem því ekki heim fyrr en seint í kvöld. Ja hérna hér. Lifið heil.

     |

Dúndurfréttir

Við Soffía ætlum að drífa okkur á tónleika með Dúndurfréttir í Loftkastalanum annað kvöld. Fréttir kenndar við Dúndur ætla að spila Led Zeppelin. Fórum um daginn á Gaukinn þegar þeir spiluðu Pink Floyd og Led. Það var magnað og um að gera að drífa sig aftur. Allir velkomnir með. Lifið heil

     |

Tiltekt

Þriðjudagar eru tiltektardagar í Hofgerðinu. Allt spikk og span. Aðallega span þó því að okkur vantar enn ryksugu. Redda því þegar mánuðirnir mætast. Eldaði dýrindis lasagnia og Hlaupaskvís gerði þetta líka ágæta salat. Steini var svo heppinn að kíkja í heimsókn í matartímanum. Það var því slett á disk fyrir hann líka. Við erum greinilega höfðingjar heim að sækja. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, október 21

Merkileg þessi tækni

Er búin að tala mikið við Sigurrós á msn-inu upp á síðkastið. Hún er í DK að læra margmiðlunarhönnun. Hún er með svona Web cam og ég sé hana þegar ég er að pikka inn stafi á lyklaborðið. Er búin að sýna mér íbúðina með þessari tækni og hann Nökkva Rey son hennar. Undravert tæki alveg hreint. Var svo að fá tölvupóst frá henni Ágústu sem er í Mastersnámi í Manchester. Allt að gerast hjá henni. Ágústa þú lætur okkur vita hvernig fer með læknanemann;) Já, Tóti tölvukarl hefur varla roð í okkur tækniskvísurnar núna. Góðar stundir

     |

mánudagur, október 20

Splendid helgi alveg

Fór á föstudaginn með Signýju út að borða á Hornið. Fórum svo að hitta Skrattheu Skorrdal og Ásdísi heima hjá Möttu. Matta og Signý kláruðu eitthvað magn af rauðvíni og svo keyrði ég þær+Ásdísi niður í bæ. Löbbuðum á milli staða og hittum fólk. Hittum meðal annars herra Kjána og Hárliða+Gulla. Alltaf gaman að hitta þá. Keyrði svo Ásdísi heim og svo var það bara Kópavogurinn og undir sæng.

Laugardagurinn

Byrjaði daginn á því að fara í KringlUna og keypti mér eins og einn bol og svo eina flík í Noa Noa. Náði svo í Heiðu og Titti og við stormuðum í Vík. Þar tóku gestgjafarnir Æsa og Þráinn á móti okkur. Komum flest um svipað leyti, um klukkan 5. Þegar við komum þá blasti við okkur ferðaeldhús fyrir framan gistiheimilið. Þar inni var Gísli kokkur, vinur Æsu og Þráins, að kokka alveg ótrúlegustu rétti. Við slöppuðum bara af og létum fara vel um okkur þangað til maturinn hófst. Við vorum sirka 40. Vinir þeirra úr ML og æskuvinir. Við borðuðum upp úr 19:00. Þvílíkur matur. Það var forréttur, aðalréttur og eftirréttur. Æsa og Þráinn eiga þvíkíkt hrós skilið og einnig Gísli kokkur fyrir þessa villibráðaveislu. Eftir matinn var farið í drykkjuleikja bingó. Voru með ekta spjöld og vél sem þau hafa örugglega fengið lánað í félagsheimilinu í Vík. Mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt. Þetta var þannig að spiluð var til dæmis B röðin og þegar einhver fékk bingó þá átti hann að taka staup og velja 5 aðra til að gera slíkt hið sama. Ég fékk einu sinni bingó og fannst það ekki leiðinlegt. Síðan var stefnan tekin á Halldórskaffi. Pöbbinn á staðnum. Dönsuðum þar í all nokkurn tíma en svo var farið aftur upp á gistiheimilil, spilað á gítar og dansað meira. Ótrúlega skemmtilegt kvöld!

Sunnudagurinn

Vaknaði um 12 leytið en þá voru ekki margir komnir á ról. Skratthea var þó vöknuð og búin að ná í Kötlu, dóttur Æsu og Þráins. Þær voru að fara út á róló og ég slóst í för með þeim. Hún Katla Þöll er ótrúlegt krútt. Hún er 2ja ára og ótrúlega skýr. Hún kann að syngja "Country Road" og syngur það af innlifun. Hún var einu sinni með Möttu í labbitúr og var alltaf að taka upp steina, lét svo Möttu halda á þeim. Matta nennti ekki að halda á þeim öllum og sagði við Kötlu að einn steinninn væri sofandi og það mætti ekki taka hann upp því að þá mundi hann vakna. Katla lét það ekki slá sig út af laginu. Hún var að leggja steininn niður þegar hún sagði: ,,nei góðan daginn herra steinn. Ertu vaknaður". Fyrst steinninn var vaknaður þá mátti hún taka hann með! Hún er bara yndisleg. Fórum með hana á róló og í bíltúr. Heimferð var um 15:00. Fór í Cityið og lagði mig. Kom í bæinn í morgun

Æsa og Þráinn. Takk kærlega fyrir mig.

Lfiið heil

     |

föstudagur, október 17

Þraut

Lagði þraut fyrir sölustjórann hjá okkur. Hann ætlaði að leysa þessa þraut og spígsporaði um fyrirtækið og hugsaði. Hann er ekki mjög þolinmóður en gekk um gólf í 10 mín áður en hann játaði sig sigraðan. Ég heyrði svo áðan að hann var að leggja þessa þraut fyrir Kalla sem er að vinna með okkur. Þrautin er svona: Það eru þrír rofar fyrir utan herbergi eitt. Einn af þeim kveikir ljósið í herberginu. Það eru engir gluggar á herberginu og það er ekki hægt að sjá ljós fyrir neðan dyrnar. Spurningin er þessi: hvernig geturðu fundið út hvaða rofi kveikir ljósið. Þú mátt kíkja inn í herbergið þegar það er slökkt á öllum rofunum en ekki meðan það er kveikt á þeim. Sem sagt engin ljóstýra skín frá herberginu og þú mátt ekki fara inn þegar kveikt er. Hvernig finnurðu út hvaða rofi kveikir á ljósinu? Sá/sú sem verður fyrst/ur til að leysa þrautina fær það að launum að vera hamingjusöm/hamingjusamur í klukkutíma! Góðar stundir

     |

Villibráða veisla í Vík

...hvað eru mörg V í því? Æsa og Þráinn vinir mínir úr ML eiga gistiheimili í Vík og þau ætla að halda veislu fyrir okkur (Ömmurnar og klíkUna=félögin okkar í ML) á laugardaginn. Gistum svo náttúrulega á gistiheimilinu. Þetta verður æðislegt. Góðar stundir og góða helgi!

     |

Það er alltaf föstudagur!

Mikið líður tíminn hratt á gerfihnattaöld eins og karlinn sagði (Pálmi í Gleðibankanum). Mér finnst alltaf vera föstudagur, og ég sem er hvorki á föstu né fasta reglulega! Uss uss uss. Tókum myndbandsspólu í gær. "Confessions of a Dangerous Mind" Hún var ekki nærri því nógu góð. Gerði ákveðnar væntingar til hennar og hún stóðst þær engan veginn. Það voru líka alltaf einhverjar myndtruflanir. Annað hvort er videoið bilað eða sjónvarpið að syngja sitt síðasta. Skal engan undra. Það er búið að syngja síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Góðar stundir

     |

miðvikudagur, október 15

Læknisferð og matarboð

Hunskaðist til læknis áðan. Hann tékkaði á hnjaskinu mínu. Bauðst til að sprauta í hálsinn og vöðvana með einhverjum efnum en ég er svo hryllilega hrædd við sprautur að ég afþakkaði það pent. Fékk þá einhver lyf sem að ég vona að virki. Hann Ármann elskulegur var svo að hringja í mig og bjóða mér í mat. Gaman að því. Góðar stundir

     |

Bíóferð og skapsveiflur

Mikið skelfing verður maður bilaður í skapinu þegar maður er veikur og vansvefta. Ég var ýmist með kökkinn í hálsinum í gær eða brjáluð í skapinu. Verð að viðurkenna það að þegar ég las skilaboðin frá einum ónefndum um illan svefn þá var kökkurinn ekki langt undan. Þegar ég kom heim þá hefði ég náttúrulega átt að leggja mig en gerði ekki. Rauk frekar í það að laga til, í mínu pirringskasti! Það er ekki eðlilegt, sérstaklega þar sem maður hefur takmarkaða hreyfiþörf í hálsinum. Eftir tiltektina fór ég á Pizza Hut og í bíó með Ásdísi og Helgu. Hafði gott af því. Sáum Down with love og hún kom skemmtilega á óvart. Allt er ótrúlega ýkt en kemur samt á óvart. Tekur allt aðra stefnu en maður átti von á. Gaman að því. LIfið heil

     |

þriðjudagur, október 14

Lengsta nótt lífs míns

Þegar ég lagðist upp í rúm í gærkvöldi þá fékk ég verk frá helvíti í hálsinn og allar vöðvafestingarnar niður á axlir. Mátti ekki hreyfa mig þá táraðist ég af sársauka. Var svona í alla nótt. Svaf í klukkutíma samanlagt. Táraðist og bölvaði alla nóttina. Helvítis andskotans djöfulsins...

     |

Saumaklúbbur

Fór í saumaklúbb til Heiðu í gær en við Ömmurnar hittumst alltaf einu sinni í mánuði. Heiða er svo mikil húsmóðir að það hálfa væri nóg. Ég var samt enn föst í hálsinum, en lét það ekki stoppa mig. Hildur, sem er að útskrifast úr sjúkraþjálfun, leist ekkert á þetta. Hún lét mig leggjast á gólfið þar sem hún teygði mig og togaði. Nuddaði og nuddaði. Þetta lagaðist aðeins við það. Lifið heil

     |

mánudagur, október 13

Alveg rétt

Grillið glamraði. Góðar stundir

     |

Uss uss

Vaknaði í morgun og hálsinn á mér var fastur. Gat ekki hreyft hann. Var í einhverju svitamóki líka. Ekki skemmtilegt. Var heima fyrir hádegi en nennti svo ekki að vera þar lengur og er því í vinnunni núna. Er farin að geta hreyft hálsinn og því engin ástæða til að vera heima. Lifið heil

     |

Sunnudagurinn

Vaknaði eldhress en það átti ekki eftir að vara allan daginn. Fékk snert af einhverri flensudruslu. Nenni því ekki. Var bara heima á náttfötunum allan daginn og horfði á sjónvarpið. Fór svo á körfuboltaleik um kvöldið. Þór Þorlákshöfn-Haukar. Og auðvitað vann Þór. Lifið heill.

     |

Landsleikurinn og Cityið

Hitti Maríönnu fyrir landsleik og við fórum að sjá KFÍ stúlkurnar keppa í körfubolta. Brunuðum svo þaðan til Lalla og Hafdísar til að horfa á leikinn. Engum sögum fer um það hvernig hann fór. Síðast þegar ég vissi var hann enn! Brunaði þaðan í Cityið í læri til Hr. Einars og frú Ásdísar foreldra minna. Var reyndar mjög þreytt allan daginn. Skil það ekki. Var ekki alveg í stuði um kvöldið. Sat samt með mömmu, pabba, Emmu frænku, Jóa og honum Una Garðari afa mínum. Hann er alltaf jafn mikill gullmoli. Mamma og Emma voru að tala um aðhald. Afi sagðist kunna galdraformúlUna. Það væri að labba 20 km á viku og borða mjög feitt kjöt. það hefði dugað honum. Hann hefði gert þetta allt sitt líf og hann væri enn grannur og spengilegur. Þær voru ekki alveg að gútera þessa speki hjá honum. Kannski er afi kominn með nýtt hobbí. Að ráðleggja konum í cityinu hvernig á að grenna sig. Það kæmi mér ekki á óvart. Hann kom með vodkapela til að hlýja sér. Pabbi ætlaði að gefa honum Cointreau en það vildi hann ekki sjá. Eitthvað fínheita vín, fuss nei. Þá er nú vodkinn betri. Pabbi var búinn að láta staup hjá honum fyrir Cointreauið, ætlaði svo að láta afa hafa annað glas fyrir vodkað en það vildi hann heldur ekki sjá. Hann staupaði því blandaðan vodka pelann!! Það er enginn eins og hann afi minn. Var ekki alveg í gírnum og var að spá í að vera bara bílandi en þá hringdi Guðlaug og sagði mér að drífa mig í partý. Engan aumingjaskap. Það má ekki fréttast þannig að ég klæddi mig í föt og fór í partýið til Rebekku og Reynis. Eða Rebba sterka eins og hann var alltaf kallaður. þar var fullt af skemmtilegu fólki sem ég hef ekki séð lengi. Ólína átti frasa dagsins. Var að rifja upp ferð sem þau fóru til Feneyja. En mismælti sig og sagði: ,,ji munið þið þegar við vorum á gondólunum í Færeyjum" Ég hefði reyndar viljað sjá það. Um hálf eitt röltum við okkur á strætóstoppistöðina og tókum strætó í reiðhöllina þar sem ballið var. Þar var fullt af fólki. Mér fannst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt. Hulda Löve var í banastuði og tók Luftgítar í gríð og erg. Björk og Þráinn sýndu gamal kunna takta í dansinum. Það er alltaf gaman að fara í Cityið. Bogga kom einnig með vinkonum sínum. Fór heim um 3:30 alveg búin á því eftir að hafa dansað allt kvöldið. Saknaði þess reyndar að Stína gat ekki verið með okkur, en litli strákurinn hennar varð veikur um kvöldið þannig að hún komst ekki. Önnu og Sigurrósar var líka sárt saknað. Þær koma bara næst. Góðar stundir

     |

laugardagur, október 11

Gleðifréttir

Hún Anna Júlíusdóttir vinkona mín er orðin mamma! Átti 14,5 marka strák og hann er 52 cm. Þetta er dökkhærður prins. Jei. Nú erum við Sigurrós orðnar Guðmæður. Ekki leiðinlegt það. Oh, ég er svo hrifnæm. Tárast á meðan ég skrifa þetta. Ekki þarf mikið til. Lifið heil

     |

Last man standing

Ég fór í last man standing með Lalla og Ingimundi eftir afmælið hennar Signýjar í gærkvöldi. Það lýsir sér þannig að sá sem kemúr síðastur heim til sín eftir atburði næturinnar vinnur. Í verðlaun eru ferð í Bláa lónið á morgun. Heyrði í Lalla áðan og hann tapaði. Fór heim klukkan 3. Hann þarf því að borga undir okkur Munda í Bláa lónið ! Gaman að því. Veit ekki hvenær Mundi fór heim. Held samt að ég hafi unnið kom heim klukkan 5:35. Hitt Ármann bróður og Þórhöllu á Thorvaldssen. Gaman að því! Góðar stundir.

     |

föstudagur, október 10

AHAHAHAHA

Ég er sammála Gretti um að Baggalútur er glettilega fyndin síða. En er honum reyndar ekki sammála um þjóðsönginn. Baggalútur er að tala um landsleikinn, eins og allir aðrir. Þar á meðal er þetta. Taka einnig frúna í Hamborg tali og margt fleira. Kíkið á þetta. Og þá sérstaklega neðst í hægra horninu sem er merkt ,,helgin". Ég sat við skrifborðið og öskraði af hlátri yfir þessu öllu saman. Táraðist og allt! Lifið heil

     |

Annasöm helgi

...gæti verið nafn á einhverjum en er nú bara lýsing á komandi helgi. Er að fara í Skerjómatarklúbbinn í kvöld og svo er afmæli hjá Signý Zen. Þar sem 2 Skerjóbúar koma saman...þar er partý, eins og Guðni Ágústsson sagði eitt sinn. Á laugardaginn er svo planið að hitta Ömmurnar og horfa á landsleikinn. Þar sem 2 ömmur koma saman...þar er partý, eins og Guðni Ágústsson sagði eitt sinn. Á laugardagskvöldið er svo planið að fara í Þorlákshörn city á ball með Hinum Glaðbeittu Hálfbræðrum (Sólstrandargæjunum, Óli Hressi sagði það alla vega á föstudaginn en þá var hann líka extra hress). Það er frítt inn og aaaaaallir City búar ætlar að fara. Meira að segja hún Arna Björg ætlar að mæta því hún verður í sumarbústað rétt hjá, hún er samt ekki City mær. Ætla einnig að hitta Guðlaugu og fleira skemmtilegt fólk. þar sem 2 City búar koma saman......þar er partý, eins og Guðni Ágústsson sagði eitt sinn. Jei. Góðar stundir

     |

fimmtudagur, október 9

Verslunarferð

Fór áðan ásamt Signýju afmælisbarni á búðarrölt um KringlUna. Það vildi svo heppilega til að ég var með yfirlit yfir bankareikning sem að ég hafði ekki hugmynd að ég ætti. Kom inn um bréfalúgUna í gær. Og á bleðlinum stóð að ég ætti 44.500 kr inni á einhverjum bankareikning í Sparisjóðnum. Ég tók náttúrulega peninginn út, í Kringlunni, og verslaði mér mjöööög flott pils í Noa Noa og peysu sem ég held að hafi verið hönnuð á mig. Ef að ég væri að hanna þá mundi ég hanna svona peysu. Keypti mér líka veski og 2 hálsmen. Geri aðrir betur. Signý reyndi en hafði ekki roð í mig. Hún verslaði sér buxur í Cosmo og pils í oasis. það er ekki oft sem að ég fer með meiri pening út úr Kringlunni en inn í hana. Gerðist samt áðan. Ég var samt eitthvað slöpp. SKrítið. Klukkan 15:45 í dag þá helltist yfir mig sárindi í hálsi og almennt slen. Vona að það fari. keypti mér sólhatt og vítamín til að slá á ófögnuðinn. Núna ætla ég undir sæng með te og horfa á Sex and the city, samt ekki Þorlákshöfn city! Lifið heil

     |

já já já, Sjáið þessa frétt

,,Þór Þorlákshöfn vann sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni. Leikmenn Þórs í Þorlákshöfn láta ekki hrakspár slá sig út af laginu, en þeim er spáð falli úr úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Í kvöld þá bitu þeir í skjalarrendur og unnu ÍR-inga, 112:106, í framlengdum leik á heimavelli í fyrstu umferð Íslandsmótsins, en þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Þór leikur í úrvalsdeildinni. Eftir hefðbundinn leiktíma var staðan jöfn, 93:93" Þessi frétt var á mbl.is. Sko mína. Góðar stundir

     |

Afmælisbarn dagsins

...er hún Signý Zen vinkona mín. Hún er kvartfjórðungsaldargömul+3ár. Geri aðrir betur! Til lukku með daginn Signý mín. Lifðu heil

     |

miðvikudagur, október 8

Sniðugt

Þetta finnst mér sniðugt...og hver segir að karlmenn séu ekki eins og börn! Lifið heil

     |

Sögnin að dúlla sér

Ég er á einhverju dúllerí skeiði. Dúllaði mér í fótabaði yfir Alias á mánudaginn, dúllaði á mig maska í gærkvöldi og dúllaði mér svo í Jóga þar áður. Þessi sögn að dúlla sér hefur ótrúlega sterk áhrif á mig. Ef ég get sett þessa sögn fyrir framan eitthvað verk sem ég þarf að framkvæma þá verður það óhjákvæmilega skemmtilegra. Ég prufaði þetta um daginn. Sagði við sjálfa mig:,,best að dúlla sér við að vaska upp" og það hafði áhrif. Ég dúllaði mér við að vaska upp. Setti bara skemmtilega tónlist á og þetta var ekkert svo leiðinlegt. Svo prufaði ég þetta aftur við tiltektina og svínvirkaði. Þetta er náttúrulega að ljúga að sjálfum sér en ekki ber ég brigður á það sem virkar. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, október 7

Fatlafól

Rauk úr vinnunni áðan til að ná í Unni Ásu fatlafól upp á spítala. Hún átti að fara í flug til Egilsstaða klukkan 14. Það var ekki flogið þannig að ég keyrði hana bara heim til frænku hennar, en það verður tékkað á flugi klukkan 17. Það gekk samt ekkert allt of vel að flytja hana af sjúkrahúsinu. Hún er nefnilega með gips frá mjöðm og niður á ökkla. Hún getur því ekki beygt fótinn. Það er ekki alveg nógu sniðugt fyrir litla Yarisinn minn. Náðum þó að planta henni fyrir í aftursætinu. Ef við héldum að það væri erfitt að koma henni inn þá var það kidstuff miðað við að koma fætinum út (og henni náttúrulega). Yarisinn er nefnilega bara tveggja dyra kaggi. Þetta hófst þó að lokum. Kom henni fyrir hjá frænku sinni með 7 fjarstýringar sér við hlið. Rétti henni allar þær fjarstýringar sem ég fann, svo að henni leiddist ekki. Ég þurfti nefnilega að rjúka aftur í vinnUna. Ekki tekið út með sældinni að vera fatlafól! Ég ætla hins vegar að fara í jóga í kvöld. Er meira að segja búin að plata Júlíu með mér í það verkefni. Ætla að fara þrátt fyrir að ég sé með harðsperrur í rassinum frá því í gær. ,,Já, já nú ertu dugleg Una mín. Vona bara að þetta haldist". Góðar stundir

     |

mánudagur, október 6

Uss uss uss

Er að fara upp á Borgarspítala að heimsækja Unni Ásu. Hún þurfti að leggjast inn og fara í aðgerð við þessu hnjaski sínu. íþróttir eru stórhættulegar. Uss uss ussssssss. Góðar stundir

     |

sunnudagur, október 5

Helgin

Föstudagurinn

Ætlaði ekki að gera neitt um helgina en það fór aðeins öðruvísi en ætlað var. Elín, vinkona mín sem var að vinna með mér í félagsmiðstöðinni Sigyn, manaði mig í að drekka með sér hvítvín og dansa hallærisdansa. Gerum það alltaf alla vega einu sinni á ári. Byrjaði þó á að fara á Októberfest í tjaldi við Háskólann. Var ekta þýsk stemning. Ódýr bjór, Bratwurst og Pretzels. Fór þangað með Sveinsdóttur, Sædísi, Valdinsky og Þráni. Það var ekkert smá mikið af fólki þarna. Ef Íslendingar frétta af ódýrum bjór þá sækja þeir í hann eins og flugur í ljós. Hitti herra Hressan þar ásamt Steinari Erni og Helga Val. Var þar í nokkurn tíma. Spændi svo heim því að Elín og Magga ætluðu að koma þangað eftir vinnu, eða um 23:00 leytið. Vorum í Hófgerðinu í nokkurn tíma en ákváðum svo að fara á ÖlstofUna. Mér finnst alltaf ágætt að vera þar. Nema kannski helst að það vantar betri loftræstingu. Eftir StofUna var haldið á 22 til að dansa hallærisdansa. Góðar stundir

     |

Laugardagurinn

Var eins og draugur allan daginn. Byrjaði daginn á því að fara með Skrattheu Skorrdal út að borða. Var samt frekar framlág. En það var engin miskunn. Þurfti svo að fara að ná í Unni Ásu út á flugvöll. Var að koma að Austan til að keppa í blaki. Drifum okkur í KriglUna og versluðum eins og vindurinn. Er samt ekki viss um að fólk hafi séð mig. Svo glær var ég. Náði samt að versla mér tvennar peysur, íþróttabuxur, snyrtidót og einn bol. Nokkuð vel að verki staðið miðað við að ég hafði nánast enga orku. Hafdís og Lalli buðu mér í mat um kvöldið ásamt Þráni, Signýju, Gústa og Magga. Agalega góður matur. Fengum graflax í forrétt og humar í aðalrétt. Horfðum á fyrsta þátt 10.seríu Friends. Hrottalega fyndinn þáttur sem Lalli var að ná í á netinu. Alger snilld. Svo var bara spjallað og hlegið langt fram á kvöld. Strákarnir voru í bjórnum en ég hefði ekki getað komið einum sopa niður. Var orðin mjög þreytt um eitt leytið og stormaði þá heim eftir gott kvöld. Lifið heil

     |

Sunnudagurinn

Svaf út og það var himneskt. Við sambýlingarnir elduðum okkur svo eitt stykku kjúlla eða svo. Fór svo og ætlaði að sjá Þrótt Nes og Unni Ásu spila blak í Austurbergi. Þegar ég kom inn þá var lögreglan akkurat á undan mér. Spáði ekki mikið í því hvað lögreglan var að gera þarna. Þar sem ég stíg inn í íþróttahúsið þá hringir Auður Karen í mig og segir mér að Unnur hafi slasað sig. Þess vegna var lögreglan þarna. Ég sagðist vera í húsinu og að ég mundi koma til þeirra. Gerði það og sá að það var 50 manns í kringum hana á blakvellinum. Það kom í ljós að Unnur hafði verið að smassa bolta í einum leiknum og hafi meitt sig í hnénu. Þetta var nokkuð alvarlegt og það þurfti að kalla til sjúkrabíl. Ég fór með henni niður á Slysó. Það var svo mikið að gera að henni og sjúkrarúminu var ýtt upp að vegg einum þarna og við látnar húka þar í hálftíma eða svo. Svo var henni ýtt í röntgenmyndatöku. Vorum þarna í allan dag. Það er greinilega ekki lengur sunnudagur til sælu, heldur sunnudagur til Slysó! Þegar að öllu þessu var lokið var hún orðin mjög svöng. Ekki búin að borða í allan dag. Hún heimtaði að fá að fara á KFC. Fannst eiga það skilið eftir allar hrakningarnar. Ég varð náttúrulega að verða við því. Fór með sjúklinginn að hitta kjúklinginn. Ég var sem sagt hjúkrunarkona í allan dag. Það sem mér fannst merkilegast við þetta allt saman að það leið ekki yfir mig á Slysó eða varð óglatt og kríthvít í framan. Það gerist alltaf þegar ég kem nálægt sjúkrahúsi. Þetta er greinilega allt að koma. Skutlaði svo sjúklingnum til frænku sinnar. Hún missti náttúrulega af fluginu til Egilsstaða. Varð hvort sem er að gista í Rvk því að hún á að fara í speglun á morgun upp á spítala. Þróttur Nes varð samt mótsmeistari þrátt fyrir að það vantaði hana. Voru búnar að keppa 4 af 5 leikjum þegar hún meiddi sig. Gott hjá þeim stúlkum. Góðar stundir

     |

föstudagur, október 3

Hælsæri

Er með hælsæri undan nýju Camper skónum mínum. Ekki kát með það. Þarf að spranga um á sokkabuxnaleistunum í vinnunni (og pilsi náttúrulega). Uss uss. Góðar stundir

     |

fimmtudagur, október 2

Húmor

Var að lesa morgunblaðið áðan og rakst á eitt býsna athyglisvert í Velvakanda. Þetta er auglýsing sem hljóðar svo:

Dansgólf óskast

Ég óska eftir dansgólfi sem er stærra en frímerki svona eins og Glaumbar í gamla daga. Dansgólfi þar sem hægt er að taka krúsídúllur án þess að trampa á næsta manni við hress lög.

Undirritun þessa manns eða þessarar konu er ,,Dansfífl".

Þetta finnst mér húmor. Lifið heil

     |

Læti

Læti í Heimdalli. Gaman að því. Góðar stundir.

     |

Sjóræningjar

Fór í bíó í gærkvöldi með Önnu hinni óléttu. Fórum á Pirates of the Caribbean. Frábær ræma. Er núna sýnd í litlum sal og það finnst mér gott. Héðan í frá ætla ég að bíða þar til myndirnar fara í minni sali. Þá eru ekki þessar endalausu auglýsingar alltaf hreint. Bara byrjað á myndinni og ekkert múður. Er búin að komast að því að mér finnst ævintýramyndir mjöööög skemmtilegar. Johnny var fantagóður og líka hann O.B. sem lék Legolas í Hringadróttinssögu. Væri til í að sjá hana aftur. Góðar stundir


Utan við mig, partur II

Mér er ekki viðbjargandi. Var að keyra Signýju heim um daginn og var byrjuð að keyra í áttina að Kleppsveginum. Hún spyr mig hvert ég sé að fara. Ég svara: ,,nú, að keyra þig heim". Hún horfði á mig eins og ég væri með skorstein á höfðinu og sagði:,, en ég á heima á Sólvallargötunni!". Þá var það fast í mér að hún ætti enn heima á Kleppsveginum. Það er að verða ár síðan hún bjó þar. Það sem meira er, við bjuggum þar saman og hún flutti út um leið og ég. Þetta er í annað skipti sem ég geri þetta. Ja, sei sei. Lifið heil

     |

miðvikudagur, október 1

Vitlaus bíll

Fór í Smáralindina áðan til að kaupa mér hádegismat. Sem er ekki í frásögur færandi nema bara hvað að þegar ég kom að bílnum mínum þá gat ég ekki opnað hann. Kíkti aðeins betur á hann og sá að þetta var ekki bíllinn minn. Heldur annar alveg eins. Leitaði að mínum og þá voru 2 bílar á milli. Leit vandræðalega í kringum mig til að athuga hvort að einhver hefði séð þetta. Held að svo hafi ekki verið. Verð að fara að hætta að vera svona utan við mig. Góðar stundir.

     |

Skókaup

Fór í Kron í gær og keypti mér 2 pör af skóm. Var til svo mikið af flottum skóm. Var í vandræðum með að velja á milli tveggja para þannig að ég keypti þau bæði. Ekki verið að velta hlutunum mikið fyrir sér á þessum bæ! Lifið heil

     |

Smá pirringur

Fór í jóga í baðhúsinu í gær. Keypti mér lás á skáp. Var í 10 mín að reyna að opna umbúðirnar og hugsaði með mér að þetta hlyti að vera góður lás fyrst að það tekur 10 mín að opna umbúðirnar. Þegar ég var loksins búin að opna helv...draslið áttaði ég mig á að ég kunni ekkert á hann. Hann fór því bara inn í skápinn með fötunum og hann var ólæstur. Gerir mikið gagn þar! Á meðan ég var að bisast við lásinn þá komu 2 ungar stúlkur þar inn með unglingaveiki á háu stigi. Það var allt ,,ógesslega flott" ,,Geðgt" (lesist:geðveikt) eða ,,kúl". Önnur var með þvílíka tyggjóslummu uppi í sér og spurði vinkonu sína í sífellu hvort þetta væri kvennaklefinn. Hin svaraði ekki í fyrstu en ég var búin að svara henni svona 20 sinnum í huganum að það væru bara kvennaklefar í Baðhúsinu...fíflið þitt! Svo fór hún að öskra og reyna að finna aðrar þrjár vinkonur sínar. Fundu þær loksins og fóru til þeirra. Ég hló bara og fannst þær nokkuð fyndnar...þangað til í jóga tímanum. Þær voru greinilega að prófa þetta í fyrsta skipti og fannst allt fyndið. Flissuðu eins og vindurinn. Horfði á þær með morðsvip í miðjum tímanum og þá lagaðist þetta eitthvað. Ekki alveg þó. Fannst þær ekki fyndnar lengur. Usss uss uss. Góðar stundir

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com