sunnudagur, nóvember 30

Jólaglögg, afmæli og fleira

Fór í jólaglöggið á föstudagskvöldið. Karólína og Kristinn eiga hrós skilið fyrir glöggið. Við Óli skunduðum svo niður á Ölstofu þar sem við fengum okkur, eða aðallega ég, hvítvín hjá honum Héðni kynþokkafyllsta barþjóni sunnan alpafjalla. Ásdís og Matta bættust svo í hópinn. Var svo komin heim um 3 leytið, góður árangur það.

Á laugardaginn vaknaði ég á frekar ókristilegum tíma, eða um 10 leytið. Ég átti nefnilega eftir að gera eins og eitt ljóð fyrir hann afa minn og skrautskrifa á kort handa honum. Það tók ekki langan tíma. Frú Ásdís móðir mín hringdi svo um 11 til að athuga hvort að ég væri ekki örugglega vöknuð. Ég átti nefnilega að vera komin upp í Kjarnholt um 2 leytið. Ég tætti svo af stað um 12 til að vera örugglega komin á réttum tíma. Uppi í Kjarnholtum voru samankomnir allir afkomendur hans Una Garðars. Mér finnst alltaf jafn gaman að hitta þessa ættingja mína. Eru stundum aðeins of hávær en það venst. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að fylgjast með þegar ættingjar mínir eru að koma með kærastann eða kærustuna í fyrsta skipti og kynna fyrir fjölskyldunni. Nýliðarnir vita ekki alveg hvernig þeir eiga að taka þessum hávaðaseggjum. En þetta er indælasta fólk og skemmtilegt. Ég las ljóðið upp fyrir hann afa. Skaut aðeins á hann en honum fannst það bara fyndið. Svo var borðað og skemmt sér. Við eldri frændsystkinin fórum í 2ja tíma heimatilbúið Yatsí. Það var helv... skemmtilegt. Svo fór að ég fékk Gullið! Kannski var það af því að ég var sú eina sem var ekki með bjór í hönd. Nei, annars þetta er allt í úlnliðnum! Garðar frændi tók svo upp gítarinn og nokkrum söngbókum var dreift. Mömmu og systrum finnst fátt eins skemmtilegt og að syngja. Herra Einar faðir minn syngur aldrei en svei mér þá. Ég held að hann hafi sungið eitt viðlag í gær. Afi var líka mjög aktífur í söngnum. Enda hafði hann nóg af söngvatni. Hann var búinn að kaupa 5 flöskur af vodka og reyndi ákaft að koma þeim út. Hann kallaði þetta alltaf rauða vodkann (Smirnoff). Já, hann var kátur hann afi. Ég var orðin mjög þreytt klukkan eitt og fór að sofa. Merkilegt að ég gat sofið í öllum þessum hávaða og gítarspili. Svaf svo frameftir.

Fór úr Kjarnholtum um 12 í dag. Náði í Skrattheu Skorrdal á leiðinni í bæinn. Foreldrar hennar eig heima í Ölfusinu, rétt hjá Hveragerði. Snillingurinn ég náði að festa rauðu eldingUna. Var reyndar lán í óláni að ég festi bílinn hjá síðasta húsinu áður en ég kem í Ölfusið. Karlinn sem býr þar sá að ég var eitthvað að vandræðast með bílinn og hann og konan hans ýttu bílnum. Karlinn hefur örugglega tautað ,,þessi borgarbörn. Að þvælast hingað og festa sig. Eru ekki einu sinni almennilega klædd. Að vera í pilsi um hávetur". Náði svo í Skrattheu og við stormuðum í bæinn, við tók svo letidagurinn mikli. Hlédís slóst svo í hópinn. Fórum á Pizza Hut og leigðum 2 ræmur eða svo. Náði reyndar bara að horfa á eins og eina og hálfa en þá var mín orðin dulítið syfjuð og ákvað að fara heim í háttinn. Hlakka líka til að klára Ilminn. Best að skríða undir sæng og lesa. Góður endir á góðum degi. Góða nótt

     |

Besti útvarpsþáttur á Norðurlöndum

... er ,,með sítt að aftan" sem snillingurinn Stjáni Stuð er með. Þátturinn er á milli 12 og 13 alla laugardaga og sunnudaga. Ég reyni að missa aldrei af þessum þáttum. Hann spilar hressa tónlist. Í dag spilaði hann til dæmis Run DMC og Cure. Ekki slæmt það. Hann er í senn góður skemmtikraftur, kemur mér alla vega í gott skap, og spilar góð lög. Hann er hetjan mín. Góðar stundir

     |

föstudagur, nóvember 28

Bíó

Fór í bíó í gær á brasilísku myndina City of God. Þetta er snilldarmynd. Fjallar um ákveðið fátækrahverfi nálægt Rio de Janeiro og fólkið sem þar býr. Það er einn sögumaður og hann segir sögu margra í myndinni. Hún er byggð á sönnum atburðum og svona er lífið þarna. Myndin var textuð á ensku en það truflaði ekki. Ráðlegg fólki að fara á þessa mynd. Góðar stundir og góða helgi.

     |

Los helgos

Stefnan er tekin á jólaglögg í kvöld ásamt fríðu föruneyti gamalla, en þó ekki aldraðra, Röskvuliða. Glöggið verður haldið heima hjá Karolínu og hennar herra. Gaman að því. Þetta verður ugglaust skemmtilegt. Enda með eindæmum skemmtilegt fólk. Á morgun er svo stefnan tekin í sveitina. Nánar tiltekið í Kjarnholt þar sem öll fjölskyldan ætlar að safnast saman í tilefni afmælisins hans afa míns. Sem er með skemmtilegri mönnum sem fyrirfinnast. Kannski ég láti eina sögu, eða tvær, flakka af honum í tilefni dagsins. Hann Uni Garðar er ekki alveg á því að fara á elliheimilið í Cityinu. Hann segir að það sé ekki fyrir sig. Hann fékk þá, þá flugu í höfuðið að það væri sniðugt að byggja raðhús við hliðina á elliheimilinu. orðinn 75 ára og ætlaði að byggja! Hann var búinn að sannfæra fólk og einhver ætlaði að byggja með honum. Hann var því ekki sáttur þegar þetta sveitastjórnin heima stöðvaði málið í einhverri nefnd! Hann er líka svolítið pólitískur. Var Framsóknarmaður þegar Denni (Steingrímur Hermannsson) var og hét formaður þess flokks. Fyrir 3 árum bjallaði hann í mig, stjórnmálafræðinemann, og sagðist vera orðinn anarkisti. Það væri eina vitið í dag. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að taka þessu. En þetta var nú hann afi minn og ég sagði bara að ef þetta væri sannfæring hans þá væri það gott mál. Svo fyrir síðustu sveitarstjórnar kosningar þá vildi hann endilega að ég færi í framboð fyrir vinstri græna. Ég hélt nú ekki. Hann glott bara. Núna segist hann vera að hallast að Frjálslynda flokknum. Ég held reyndar að hann sé ekki með þennan hringlandahátt, hann nýtur þess að æsa fólk upp og situr svo bara og glottir. Pólitík er nefnilega mikið rædd í minni fjölskyldu. Enda eru allra flokka sauðir þar. Hann afi lætur líka flest sig varða. Meira að segja hvernig ég greiði á mér hárið. Ef honum finnst ég ekki vera að standa mig í hárgreiðslunum þá spyr hann mig: ,,ertu með skólagreiðslUna núna Una Björg?". Já, það er ekki hægt annað en að þykja vænt um svona perlur. Góðar stundir.

     |

Frostlög

Ég sá það í gær að ég þyrfti vinsamlegast að fara og fjárfesta í sköfu fyrir rauðu eldingUna mína. Núverandi skafa hefur reyndar staðið sig prýðilega. Það er spóla sem ber það kaldhæðnislega nafn Frostlög. Er búin að eiga þessa spólu síðan ég var 12 ára, að ég held. Þetta er eðalspóla. Þarna eru perlur á borð við Neistann með Sálinni og við erum stórir strákar á ströndinni, man ekki nafnið á hljómsveitinni. Þetta eru kannski ekki skemmtilegustu lög í heimi en nostalgían gerir skemmtilega vart við sig þegar maður hlustar á hana. En nú er hún ónýt eftir mikla sköfuþjónustu. Ætli Frostlög sé til á geisladiski? Lifið heil.

     |

fimmtudagur, nóvember 27

Óheppin og utan við mig

Þetta var þema dagsins. Byrjaði strax í morgun. Mér var eitthvað kalt þegar ég vaknaði. Ákvað að skella mér í heita sturtu til að hlýja mér. Heita sturtan varð eiginlega að gufubaði því að ég ætlaði aldrei að nenna að fara undan heitri bununni. Þegar ég opnaði baðherbergisdyrnar þá vildi ekki betur til en að helv... reykskynjarinn fór í gang. Og ég sem var á Evuklæðunum með handklæðið á hausnum. Dró stól að ólíkindatólinu og reyndi allt hvað ég gat til að láta skynjarann þagna. Tókst það á endanum en eitthvað hefur gengið á því að ég lá sár eftir. Hlaut skurð á fingur, uss uss suss. Fegin að það er ekki gluggi þar sem skynjarinn er því annars hefði tækið fengið að pípa. Spéhrædd eins og ég er. Kaldhæðnisleg er þó að við Soffía vorum að tala um það í vikunni að kaupa batterí í skynjara þann er við reyk er kenndur. Héldum að þau væru búin. Get vottað það að svo er ekki. Ég gerði þó ekki neitt stórvægilegt af mér í vinnunni en svo fór ég í Smáralindina, þegar ég var búin að vinna, til að kaupa kort handa honum Una Garðari afa mínum sem verður 75 ára á morgun. Já, og svo nokkur jólakort. Ég byrjaði á því að reyna að taka rúllustigann niður, en það gekk ekki sem skyldi því að ég var fyrir framan rúllustigann sem fór upp! Fór svo lítið bar á í áttina að hinum stiganum. Fór í Eymundsson og keypti afmæliskortið. Því næst fór ég í Hagkaup að kaupa jólakort. Ég labbaði búðina þvera og endilanga, en ekki fann ég kortin. Fór því að kassanum og spurði afgreiðslustúlkUna hvar þær geymdu kortin. Hún svaraði:,,nú, þarna þar sem stendur stórum stöfum KORT". Ég roðna aldrei en hefði kannski átt að gera það. Sandra Bjarna hefði alla vega orðið eins og epli í framan. Ég var samt skömmustuleg og reyndi að gera gott úr þessu og sagði: ,,já, það er nú óþarfi að fela þau, hihi". Ég held að afgreiðslustúlkunni hafi ekki þótt ég fyndin. Nú vona ég bara að ég sé hætt að vera utan við mig og óheppin. Það er fínt að taka einn dag í þetta á ári. Góðar stundir

     |

miðvikudagur, nóvember 26

Kertagerðin mikla

Kertagerðin mikla var haldin heima hjá hjónakornunum Heiðu og Titti í gærkvöldi. Heiða er svo mikil húsmóðir og það er alltaf gott að sækja þau hjón heim. Hún var búin að búa til jólaglögg handa okkur en sjálf fékk hún bara malt og appelsín þar sem hún á von á erfingja. Titti skar niður kerti eins og óður og sagði að það væri það karlmannlegasta við að búa til kerti. Við stöðvuðum hann ekki í því. Þetta var mjög skemmtilegt. Ég bjó til 6 kerti og öll voru þau mismunandi að lit og lögun. Ásdís átti tilþrif kvöldins þegar mótið hennar bráðnaði og kertið varð fatlað. En það var allt í lagi. Titti benti okkur á að í ár væri ár fatlaðra og því væri þetta vel við hæfi. Já, og svo braut hún flest mótin sín þegar hún reyndi að ná kertunum úr. En það var allt líka í lagi. Kertin voru flott. Splendid kvöld alveg. Lifið heil

     |

Ryksugan mikla

Ég stormaði í Elko eftir vinnu og keypti mér eins og eitt stykki ryksugu. (Ef ég vildi koma nafninu mínu að þá gæti ég sagt ryksugUna, en held að ég geri það ekki) Fór svo í bónus og keypti inn til heimilisins. Kannski leynast húsmóður gen í mér eftir allt saman! Kom reyndar alveg af fjöllum þegar ungfrú Soffía spurði mig hve mörg wött ryksugan væri. Hvernig átti ég að vita það! Las mér til um það og hún er eittþúsundogfjögurhundruð wött. Þar hafið þið það. Stormaði svo um með ryksugUna og gerði fínt. Stórfín græja alveg hreint, sem gerir alveg hreint. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, nóvember 25

Jóla jóla

Við í Ömmuklúbbnum erum að fara í kertagerð í kvöld. Já, hún Heiða ætlar að kenna okkur að búa til kerti. Hvorki meira né minna. Hlakka til. Fengum þessi skilaboð frá henni:

Jóla-smákökur, jóla- kertaljós, jóla- kertagerð, jólaglögg, jólaöl (fyrir verðandi mæður) og svo auðvitað jólatónlist í Reynihvammi, þriðjudaginn 25 nóv. Hefst um kl 19.30 hlakka mikið til að sjá ykkur og fá ykkur ;o)
Jóla hvað....

Kossar og faðmlög
HeiðaFyrir þá sem ekki vita þá er Ömmuklúbburinn menntaskólaskutlurnar mínar.

...ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til... Góðar ,,kerta" stundir

     |

mánudagur, nóvember 24

Fínt alveg

Þá er enn ein helgin liðin í aldanna skaut. Fór í mat til Signýjar Zen á föstudagskvöldið. Horfðum á Idol, ruglaða að vísu en heyrðum hljóðið því að sjónvarpið hennar Heiðu er með steríósándi. Svo var horft á Jessie James og félaga með Colin Farrel í aðalhlutverki. Fannst hún alveg hreint ágæt. Held reyndar að þó að söguþráðurinn hefði verið enginn þá hefði mér þótt þetta fínt. Colin er nefnilega þessi ótrúlega myndarlega týpa og sjónin beindist því fyrst og fremst að honum

Á laugardaginn þá dreif ég mig á lappir og henti mér í ræktina. Sem er nú reyndar ekki alveg nógu gott. Er núna með harðsperrur sem gætu riðið manneskju með lágan sársaukaþröskuld að fullu. Niles Crane mundi ekki þola þetta til dæmis. Ekki er allt tekið út með sældinni. Svo var ég bara að dúlla mér heima þangað til ég fór í matarklúbb/afmæli til hans Valda (ÚtValda). Spúsa hans, hún Sædís, var búin að elda dýrindismáltíð. Takk fyrir mig og til lukku með daginn í dag Valdi. Gísla fannst við greinilega of dönnuð þannig að hann tók upp á því að fara í drykkjuleiki. Þeir heppnuðust mjög vel. Svo vel að Sveinsdóttir skilaði kræsingunum sem Valdi og Sædís buðu upp á. javla fyrir hana. 15 er leikur sem mér fannst skemmtilegur. Enda fékk ég að setja flestar reglurnar. Ekki ónýtt það. Eftir matarklúbb/afmælið var stormað í annað afmæli. Til Hafdísar hans Lalla. Þar var fullt af skemmtilegu fólki. Meðal annarra ein vinkona hennar sem hélt varla vatni yfir rauða pilsinu sem ég hafði saumað og nýju rauðu skónum mínum. Alltaf gaman þegar fötin manns vekja athygli. Við stormuðum svo niður í bæ og ég held að ég hafi dansað af mér rassinn. Hann hlýtur að vera minni en fyrir helgi!

Sunnudeginum var svo eytt í leti. Kláraði eins og eina bók og svaf. Fínn sunnudagur. Lifið heil

     |

fimmtudagur, nóvember 20

J nálgast eins og óð fluga

Í gær áttaði ég mig á því að það eru engin próf og ekkert stress fyrir jólin. Tók mig til og skrifaði jólakortalista. Já, svei mér þá. Nú ætla ég að vera tímanlega í þessu. Undandarin ár hefur fólk annað hvort ekki fengið kort frá mér eða þá að ég ber þau út sjálf á þorláksmessu eða á aðfangadag. Nú er öllu slíku rugli hætt. Þar sem ég er svona tímanlega í þessu get ég gert þetta Monica´s way. Það er að segja sett þetta upp í stafrófsröð, eða raðað eftir búsetu eða... Óteljandi möguleikar.... Matta, ég gæti jafnvel highlitað þetta! Er samt ekki eins tímanlega og Ungfrú Hansen. En henni er fyrirgefið. Hún býr á Ísafirði og er ólétt. Lifið heil

     |

miðvikudagur, nóvember 19

Mexikanskt þema

Það var mexikanskt þema í Hófgerðinu í gær. Elduð var dýrindis lúða a la mexíkó. Hún var meira að segja steikt upp úr Nachos flögum (Soffía eldaði). Gaf Ástu Rós að smakka í vinnunni í dag, tók sem sagt afganginn með, og hún ætlar að elda þetta innan tíðar. Þetta var svo borðað með salati og hvítvíni sem Árni kom með. Svo var líka lagað til á mexíkóskan hátt, sem ekki fæst upp gefið hvernig er. Ég er greinilega ægilega leyndardómsfull þessa dagana! já, já. Nú er bara um að gera að drífa sig í ræktina til að hlaupa lúðUna af. Það dugir ekkert minna. Góðar stundir.

     |

mánudagur, nóvember 17

Helgarfléttan

Dreif mig í Cityið eftir vinnu á föstudaginn. Varð að fara með gjöfina til mömmu, sem ég keypti í síðustu viku. Hún var svona líka ægilega ánægð með hana. Ég var nýkomin heim þegar að frú Ásdís tilkynnti að ég ætti að lita á henni hárið. Gott og vel, ég gerði það. Svona klukkutíma eftir það þá voru elsta og yngsta móðursystir mín mættar vopnaðar háralit og augnháralit. Snyrtistofa Unu var því sett upp heima hjá foreldrum mínum. Þetta var reyndar mjög indælt. Mamma gaf okkur osta og vínber og þær fengu sér bjór í glas. Ekki mikið stress þetta föstudagskvöld.

Laugardagurinn

Vaknaði um 10 leytið og horfði á Cats and Dogs með snúllanum mínum honum Emil Karel. Mamma eldaði svo indverskan kjúklingarétt handa okkur. Dreif mig svo í bæinn eftir hádegið. Náði að eyða smá pening. Keypti mér nærföt fyrir um 15.000 ísl krónur. Ágætt dagsverk það. Keypti mér líka efni í 2 pils og saumaði annað þeirra á meðan Soffía og Matta voru að greina kennsluhætti Voffíu. Ætlaði að vera í því um kvöldið en hætti við það. Eftir að hafa saumað pilsið fórum við Skratthea Skorrdal í KringlUna og hún leitaði sem óð að rauðri flík. Þemað fyrir Ömmupartýið var rauð flík, rauður varalitur og spöng. Hún gerði sitt besta en fann enga sem henni fannst hæfa tilefninu. Hittum Dettísi (Ásdísi)þar. Hittum líka Bón Jarma (Jón Bjarma) þar. Hann var með litla strákinn sinn þar og hann hélt að pabbi sinn væri róla! Dreif mig svo heim að gera klárt fyrir kvöldið. Ömmufundurinn var mjöööög skemmtilegur. Mér finnst að Eva Dögg eigi að fá verðlaun fyrir hve duglega hún er að storma í bæinn að hitta okkur (Býr í Vík í Mýrdal) Ég og Falldís fórum á ÖlstofUna en Matta fór til Arndísar. Reyndar átti Kollhnís (Ásdís) tilþrif kvöldsins þegar hún hrundi á hausinn á hálri gangstéttinni þegar við vorum að fara í leigubílinn. Skratthea öskraði úr hlátri en uppskar samviskubit þegar leigubílsjórinn húðskammaði hana fyrir það. Skemmtilegt kvöld. Var næstum búin að gera asnastrik í strákamálum en var ótrúlega skynsöm og gerði það rétta. (Klapp á öxlina Una)

Sunnudagurinn

Fór út að borða með Marblettdísi, Skrattheu og Signýju. Helv...fínt alveg. Kom svo heim og svaf svefni hinna réttlátu. Soffía eldaði fína máltíð og svo horfðum við á Pure. Sem er bresk perla. Mjög góð svo ekki sé fastara að orði kveðið. Átti svo spennandi kvöld, sem kannski upplýsist síðar! Góðar stundir

     |

Lögreglan svipast um eftir rauðum bíl vegna bankaránsins

Lögreglan í Reykjavík hefur svipast um eftir rauðri Nissanbifreið sem maður er framdi rán í Búnaðarbankanum við Vesturgötu í dag er talin hafa komist undan á. Sjónarvottar náðu fyrstu stöfum númeraplötu bílsins sem vitorðsmaður ræningjans ók. Þetta er frétt af Mbl.is. Ég var í vinnunni þegar þetta var framið, Þannig að ekki var það rauði bíllinn minn sem var notaður. Eeeeen ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að Sveinsdóttir hafi ekki verið að kenna á þessum tíma...

     |

föstudagur, nóvember 14

Frábært

Var að fá ánægjulega gjöf frá Kaupþingi í vinnunni (Við miðlum til þeirra). Fékk blóm og 10.000 króna gjafabréf á veitingastað einn í bænum. Ekki slæmt það! Lifið heil

     |

Muse

Ég, Sveinsdóttir og Ásdís ætlum að fara á Muse tónleikana þann 10. des. Við vorum með áform um það að hann Sveinn, pabbi hennar Sveinsdóttur, mundi kaupa miða fyrir okkur á Selfossi því að þar vær örugglega minnsta röðin og þá gætum við kannski fengið miða í stúku. Það fór ekki svo. Það var byrjuð að myndast biðröð á Selfossi og því ákvað ég að fara í Smáralindina til að athuga með miða. Ægilega bjartsýn. Kom þarna um 9 leytið og þá var geðveik röð sem hreyfðist ekki neitt. Ég var þarna í nokkurn tíma en sá að þetta gengi ekki og fór í vinnUna. Hringdi í Ásdísi og hún náði að ná á Pétur sem beið í einhverri röð úti í bæ. Við eigum miða, jei!, en þó ekki í stúku. Það er allt í lagi. Lifið heil!

     |

Dugleg

Var alveg ægilega dugleg í allan gærdag...ja, nema kannski við það að blogga. Ég vaknaði klukkan 6:15 og dreif mig í ræktina. Fór svo í vinnUna og var þar til 17:00. Eftir það fór ég í vefnaðarvörubúð og keypti mér efni í 2 pils. Fór svo heim og eldaði mér ágætis mat. Saumaði svo á mig tvö pils, horfði á Sex & the City, vaskaði upp og las svo smávegis. Ekki ein mínúta sem var ónýtt í gær. Helv...gott! Góðar stundir

     |

fimmtudagur, nóvember 13

U

Mér finnst epli góð. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, nóvember 11

Bloggleti

Þjáist af bloggleti. Vonum að það sé ekki krónískt. Er annars að fara í saumaklúbb til Júlíu í kvöld. Þá mun ég upplýsa þemað sem verður í Ömmuklúbbs partýinu um helgina. Lifið heil

     |

mánudagur, nóvember 10

Ágætt alveg

Þetta var ágætis helgi alveg. Fór í bíó með Skrattheu Skorrdal og Arndísi á föstudagskvöldið. Sáum ræmUna Intolerable Cruelty eftir snillingana Cohen bræður. Hún var mjög góð. Þeir eru snillingar í að búa til skemmtilegar persónur. Hló eins og mér væri borgað fyrir það. mér finnst Catheryn Z jones leiðinleg leikkona en hún var allt í­ lagi í þessari mynd.

Á laugardaginn vaknaði ég um 9:30 til að ná í­ Unni Ásu fatlafól út á flugvöll. Var orðið flugfært að Austan. Hún þurfti að koma Suður til að hitta lækni. Hittum síðan Möttu og fórum í verslunarleiðangur. Árangurinn var ágætur hjá mér. Einn bolur. Soffía eldaði svo alveg hreint frábæranmat fyrir okkur. Indverskur kjúklingaréttur og N - Afrí­skt brauð. Skerjóliðið + Matta og Ásdís komu svo heim og það var geim. Fórum því næst á Hverfisbarinn þar sem Ingimundur reddaði okkur inn. Hann er tungulipur drengurinn.Ágætis kvöld alveg.

Var vakin um 12 leytið á sunnudag og drifin á lappir. Það var skundað í HúsasmiðjUna því að Unni vantaði ljós í kofann sinn. Matta verslaði líka ljós. Það voru tilboðsdagará ljósum og ég þurfti að verja eitt ljósið sem Matta ætlaði að kaupa með kjafti og klóm. Ég verslaði mér ekki ljós en keypti eitt stykki jólatré með ljósleiðara fyrir mömmu. Ætla að gefa henni það því að hana hefur lengi langað í svoleiðis. Missti reyndar kassann á planinu og uppskar hlátur frá Skrattheu. Þetta var þakklætið eftir að hafa varið ljósið hennar :) Annars bara fínn afslöppunardagur. Fór svo í ísbíltúr. Malt og appelsín kórónaði svo kvöldið. Assgoti gott. Góðar stundir

     |

föstudagur, nóvember 7

Mynd

Var að tala við Magga Sæla á MSN-inu og hann sendi mér ægilega sæta mynda af Hönnu Karítas dóttur sinni. Ekkert smá sæt. Þau skötuhjúin+dóttirin búa nú í Danaveldi eins og svo margir aðrir nú um stundir. Góðar stundir.

     |

fimmtudagur, nóvember 6

Pixies próf

Ég varð auðvitað að taka þetta próf líka eins og Sveinsdóttir. Ég er...

With your feet in the air and your head on the ground
Try this trick and spin it, yeah
Your head will collapse
But there's nothing in it
And you'll ask yourself


Where is my mind,
Where is my mind,
Where is my mind?


Where is my Mind?
You're smart, shy, and often nonsensical. You have dreams of being famous, and you're quirky enough that you just might pull them off. Some would call you a genius, others would call you insane, but in reality you're pretty well-adjusted. Take a vacation once in a while- it'll help take your mind off of your troubles.
Which Pixies song are you?Erþetta ég? Erfitt að segja...

     |

Hádegisverður

Fór og hitti fyrrverandi Röskvuliða á Vegamótum í hádeginu í dag. Alltaf gaman að hitta þau. Lifið heil

     |

Plús

Frú Ásdís móðir mín hringdi í mig í vinnUna í gær. Þau skötuhjúin voru í Smáralindinni að versla sér baðvog. Eru að fara í keppni um hvor léttist meira fyrir jól. Hún var sem sagt með veskið mitt. Gleymdi því í Cityinu um helgina og hef því ekkert getað eytt. Ég ætlaði að fara í leikfimi en hætti snarlega við það. Hitti þau skötuhjú á kaffihúsi og fékk mér heitt kakó, eða súkkulaði eins og sumir kalla það. Eftir kaffihúsið datt okkur mömmu í hug að kíkja aðeins í búðir. Pabbi nennti ekki með okkur. Hann fór í ríkið og keypti bjór á meðan. Við ætluðum ekki að kaupa neitt en svo fór nú aldeilis ekki. Við keyptum okkur báðar skó og hún keypti sér líka peysu. Ég er búin að kaupa mér 4rna skó á innan við 2 mánuðum. Geri aðrir betur. Þetta voru reyndar upphá stígvél sem ég keypti mér í gær. Ég keypti mér líka veski. Eftir verslunarleiðangurinn skundaði ég svo í Matarklúbbinn. Ég kom sem sagt út í gróða í gær. Ég hefði tapað kaloríum ef ég hefði farið í ræktina. En ég græddi skó og veski+smá kalóríur. Þetta kalla ég hagstæðan vöruskiptajöfnuð! Góðar stundir

     |

miðvikudagur, nóvember 5

Stoltur eigandi bókasafnsskírteinis

Í gær gerðist ég stoltur eigandi bólasafnsskírteinis. Get brúkað það á safni Kópavogsbæjar. Stormaði og tók mér 3 bækur und pantaði eina. Nú er bara að leggjast undir sæng og lesa í kuldanum. Ekki slæmt það. Bækurnar eru mismikl bókmenntaverk. Tók Glæpur og refsing eftir Fjodor Dostojevski, hef ekki kíkt á hana síðan í menntaskóla. Síðan tók ég eina ástarvellu. Kláraði hana á klukkutíma eða svo og henti henni frá mér full af viðbjóði. Allt of klisjukennt fyrir mig. Svo tók ég bókina Ilminn, sem á víst að vera ofsalega góð. Byrja á henni í kvöld eftir matarklúbbinn hjá Munda og Gerði. Lifið heil

     |

þriðjudagur, nóvember 4

Ágætis helgi

Þetta var ægilega fín helgi. Róleg og góð. Fór að versla með frú Ásdísi móður minni á laugardaginn. Komumst meira að segja í smá jólafíling. Það var eins og það væri Þorláksmessa a Ikea planinu. Það var alger örtröð þar...og jólafílingurinn kominn. Voila! Örkuðum svo aðeins um KringlUna. Mamma endaði í nammilandinu til að velja nammi til að skreyta piparkökuhúsið sem við familían bökuðum á sunnudaginn. Hún var svo fyndin. Skoðaði nammið vel og vandlega, með tilliti til skreytingargildis þess. Setningar eins og: ,,Sérðu Una Björg, þetta getur verið sería. Eða: ,,nei nei nei þetta getur verið jólaskór!". Fólkð horfði svolítið stóreygt á okkur en það var bara gaman að því. Fór svo heim í Hófgerðið og hafði það gott. Var með appelsín og malt í sitt hvorri hendinni. Ægilega kósí hjá mér. Reif mig svo upp á rassgatinu og kíkti í afmæli hjá Arndísi og Sæunni. Hitti þar mikið af skemmtilegu fólki. Ásdís var svona líka ægilega hress og nú er mynd af henni framan á blaði einu. Keyrði svo heim um eitt, hálf tvö. Stormaði svo í Cityið um hádegi á sunnudag. Piparkökuhúsa bakstur beið með fjölskyldunni. Ármann og Þórhalla tóku myndir af þessu og sendu mér. Kann bara ekki að setja þær á netið. Kannski að ég biðji einhvern að hjálpa mér við það. Lifið heil

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com