þriðjudagur, júlí 27

Helgin næsta
 
verður fín. Fer í frí á fimmtudaginn og þá skal haldið til Akureyrar og gist í eina nótt. Gistum hjá Mæju og Hrafni. Á föstudaginn verður haldið í sumarbústað rétt hjá Egilsstöðum. Skerjóhópurinn ætlar að leggja land undir fót. Sumir ætla í göngur en aðrir að gera eitthvað allt annað. En allir ætla að hafa gaman að. Við munum svo fara eitthvað í Nes Town (Neskaupstað). Kenndi í Grunnskóla Nes Town í fyrravetur og það verður gaman að hitta alla aftur. Unnur Ása er búin að byggja pall og þar er hægt að slá upp balli ef því er að skipta.  Er svo í sumarfríi alla næstu viku. Já, ég hlakka til. Ég hlakka alltaf svo til.  Mikið að gera, já svo mikið. Lifið heil og góðar stundir.

     |

Helgin síðasta
 
Var fín. Afmæli Maríönnu á Horninu á föstudagskvöldið, mót ættar á laugardaginn, Citýið á sunnudaginn og afmælisgrillveisla hjá Henrik frænda (20 ára) á mánudagskvöldið. Henrik og co búa í Luxemborg og því gaman að ná að hitta þau aðeins. Splendid alveg. Örblogg. Lifið heil.

     |

föstudagur, júlí 23

Afmælisbarn dagsins
 
er Maríanna Hansen vinkona mín. Hún verður kvartfjórðungsaldargömul+fjögur ár í dag. Maríanna er hjúkrunarfræðingur, býr núna á Akureyri ásamt Hrafni sínum og Mikael Mána syni þeirra. Hrafn er að þjálfa Þór í körfuboltanum og ætla  þau að parkera sér þar í einhvern tíma. Þau brunuðu suður í tilefni dagsins og til stendur að fara á Hornið í kvöld í afmælismat. Til lukku  með daginn Mæja mín.

     |

Jahá
 
Fór aldrei þessu vant úr vinnunni klukkan 17:00. Ástæðan fyrir því var að ég ætlaði að hitta Ásdísi og Skrattheu Skorrdal yfir kaffibolla/kakóbolla. Hitti þær í Kringlunni.  Með í för var Dóra, vinkona Ásdísar, sem ég hef oft hitt. Var meðal annars að vinna með Pétri, kærastanum hennar í félagsmiðstöðvageiranum. Þær voru búnar að vera í innkaupaleiðangri í Kringlunni í einhvern tíma þegar ég hitti þær. Þegar ég kom á staðinn spurði Ásdís mig: ,,Una, gettu hvað Dóra er að fara að gera á morgun?". Ég sagðist ekki vita það og þá segir Ásdís að Dóra (27 ára) og Pési (25 ára) ætli að gifta sig í dag (23.07). Jahá, segi ég. Varð svolítið hissa því flestir sem eru að fara að gifta sig plana þetta út í eitt. En ekki Dóra og Pési, þau giftu sig hjá Sýslumanni klukkan 15:00 í dag. Ætla svo út að borða með foreldrum og systkinum. Finnst þetta sniðugt hjá þeim. Þau eru að fara til Montreal og ætla að búa þar í 2 ár. Hún ætlar að vinna, er stjórnmálafræðingur, en hann er að fara í masterinn í þróunarmannfræði. En aftur að Kringlunni. Tilvonandi brúðurinn keyupti sér brúðarskó og eins og einar gallabuxur. Segir að Ásdís hafi smitað sig af kaupæði. Látum það liggja á milli hluta hvort svo sé. Sátum svo á kaffihúsi og höfðum það gott. Skutluðum svo tilvonandi brúður að kíkja á brúðarvöndinn sinn. Að því loknu héldum við í snæðing á Vegamót. Síðasta kvöldmáltíðin, ja alla vega Dóru sem Ungfrúr. Þegar þetta er skrifað er hún orðin Frú. Fékk svo ís að snæðingi loknum, eins konar gæsun en þó ekki. Brúðurinn fór heim en ég og Skratthea og Arndís skunduðum í bíó á Atrhúr konung. Ágætis ræma, ekki meira en það. Náði mér ekki alveg. Hefði viljað meiri dramatík og meira gert úr Lancelot. En Arthúr var svolítið augnakonfekt þannig að þetta reddaðist allt saman. Góðar stundir.
 

     |

miðvikudagur, júlí 21

Splendid útilega
 
Miklar umræður voru í síðustu viku um hvert skyldi halda í útilegu. Áætlunin breyttist alloft á föstudaginn en loks var ákvörðun tekin. Húsafell skyldi það vera heillin. Sólin var elt. Ég brunaði í Citýið eftir vinnu til að ná í útilegudót. Hélt að ég mundi verða síðust til að leggja af stað. Svo var nú aldeilis ekki. Ingimundur, Tóti og Gerður mættu 3 korterum á eftir mér og Ástu Rós. Biðum eftir þeim hjá Nesti. Brunuðum út úr bænum um 22:00 leytið. Foreldrar voru í útilegu hjá Þórisvatni og við komum við hjá þeim. Mamma þrældi Jagermaster í liðið, ég slapp hins vegar við það. Stundum er gott að vera bílstjóri. Lentum svo í Húsafelli um hálf eitt. Þá var bara um að gera að henda tjöldunum upp. Tjaldvörðurinn sagði okkur að það ætti að halda 30 afmæli rétt hjá lundinum þar sem við tjölduðum, fannst það ekkert verra. Þá var alla vega von á fólki, ég átti hins vegar ekki von á að þekkja afmælisbarnið. En það fór nefnilega svo. Við vorum á rölti um svæðið og kíktum á afmælistjaldsvæðið. Þar hitti ég hana Dísu sem var einu sinni að vinna með mér í Citýinu og hún bauð okkur í afmælið. Laugardagurinn var heitur veðurfarslega séð. Ég, sem yfirleitt hata sundlaugar, var orðinn besti vinur laugarinnar í Húsafelli. Flúðum þangað um hálf tvö leytið vegna hita. Tóti sýndi snilldartakta því þegar við vorum búin að keyra að sundlauginni og leggja, þá segir piltur: ,,ah, ég gleymdi sunddótinu".  Ekki alveg með á nótunum karltuskan. Það þurfti því að snúa við og ná í draslið. Sundlaugin varð áningastaðurinn næstu 3 klukkutímana eða svo. Linda og Helgi bættust svo í hópinn á laugardagskvöldið. Þá var grillað og haft það gott. Ferðageislaspilaranum  fannst við greinilega vera of hress fyrir sinn smekk og ákvað því að klára rafhlöðurnar. Við Ingimundur fórum í batteríisleiðangur í þjónustumiðstöðina en, sorrý Stína. Allar rafhlöður búnar. Heyrði að hann muldraði eitthvað í barm sér um 12 volt og að það gæti gengið. Þegar við komum aftur á tjaldsvæðið þá tók verkfræðigengið sig til (3 verkfræðingar voru meðal vor) og reif geyminn úr bílnum hans Tóta, fundu 2 víra úr einnota grillunum og tengdu þetta við ferðageislaspilarann. Hann virkaði fínt eftir þetta.  Það borgar sig greinilega að hafa svona fólk með sér í útilegu. Við stormuðum svo í afmælið eftir miðnætti. Það var ótrúlega gaman. Stórt hvítt tjald var á flötinni og þar var hvorki meira né minna en eitt stykki hljómsveit! Schnilld. Tóku sér pásu á köflum til að setja bensín á mótorinn sem knúði rafmagnið. Þetta var hrein snilld. Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur, en einum of heitur. Ég rak því alla í sund. Þar var spilaður vatnapóló og vorum við næstum ein í annarri lauginni. Skrýtið.... eða ekki. Kannski finnst fólki ekki gott að fá bolta í hausinn. Svo var dagurinn tekinn í sólbað og aflslappelsi. Vorum ekki komin í bæinn fyrr en um 21.  Æðisleg helgi. Langar í útilegu aftur. Sólbrann. Góðar stundir.


     |

fimmtudagur, júlí 15

Allt er vænt sem vel er grænt...
 
Fór til augnlæknis í morgun vegna pirrings í augum. Sem er kannski ekki í frásögur færandi nema bara hvað að hann lét meðal annars grænt litarefni í augun á mér og skoðaði svo með einhverju tæki. Hann rétti mér svo klút til að þurrka mér í framan. Hélt að ég væri með smá lit í kringum augun og hefði náð að þurrka það allt af. Svo var nú aldeilis ekki. Þegar ég kom út í bíl þá var ég öll græn í framan! Fékk hálfgert áfall og ég sem var búin að vera frammi í afgreiðslu í einhven tíma. Konan sem rukkaði mig var nú ekki að hafa orð á því að ég væri með ööööörlítið græn í framan.  Augnlæknirinn var heldur ekkert að minnast á þetta. Skil ekki hvernig hann gat verið alvarlegur og rætt við mig án þess að stökkva bros á vör. Var ægilega alvarlegur þegar hann var að útskýra hin ýmsu smyrsl sem ég þarf að bera í augun næstu daga.  Hann er greinilega með betra pókerandlit en hún Una. Ég á voðalega bágt með að leyna því ef mér finnst eitthvað fyndið eða þegar ég er hneyksluð. Nú, ég reyndi mitt besta til að þrífa þetta framan úr mér en gekk ekkert voðalega vel. Keyrði af stað og viti menn, lendi við hliðina á herra Birni Bjarnasyni á ljósum. Sá að hann pírði augun í áttina til mín en var ekkert að athuga hvort að honum fannst ég fyndin eður ei. Alla vega er hlátur mér síst í huga þegar ég sé hann. Kannski af því að hann var ekki grænn í framan. Fór beint í vinnUna og reyndi að ná þessu framan úr mér. Varð samt að leyfa vinnufélögunum að sjá herlegheitin. Var farið að finnast þetta skondið, en var ekki hlátur í huga fyrst. Núna er örlítið eftir að litnum en bara lítið. Er eins og ég sé með grænan augnskugga. Grænn fer mér ágætlega þannig að það er allt í lagi. Lifið heil.
 
Svo er það bara útilega um helgina. Ekki er það slæmt. Det var Bra!


     |

miðvikudagur, júlí 14

Ég var

að vinna í félagsmiðstöð í Grafarvoginum í 2 og hálft ár, á meðan ég var í Háskólanum, og það kemur fyrir að ég rekist á krakka sem voru þar, á förnum vegi. Eru þó varla krakkar lengur, orðin 18-19 ára. Hitti nokkra á Placebo tónleikunum. Lenti í fyndnu atviki,að mér fannst:

Sigrún: er þetta þú Una? Ætlaði varla að þekkja þig.
Una: já, örlítið breytt. Komin með sítt ljóst hár. (var með svart og stutt hár)
Sigrún: já, alger pæja!
Una: já, takk eða hvað meinarðu. Ertu að segja að ég hafi ekki verið pæja áður?
Sigrún: Ha, jú! Ég meinti þetta ekki þannig. Var bara að segja að mér finnst hárið á þér flott.
Una: Haha, ég var bara að grínast!

Stelpugreyið fór alveg í hnút. En mér fannst þetta bara svo fyndið að ég varð að skjóta þessu að. Hún jafnaði sig. Varð frekar hissa fyrst en áttaði sig svo og hló að þessu. Góðar stundir.

     |

þriðjudagur, júlí 13

Það örlar á

þreytu í dag. Skellti mér í saumaklúbb hjá Júlíu í gærkvöldi. Ömmuklúbburinn, eins og við ML skutlur erum búnar að kalla okkur síðan í 2. bekk í menntó, hittist. Löng saga að baki nafninu. Eða kannski ekki. Nenni bara ekki að segja hana. Örlítill útúrdúr. Tilgangurinn með sögunni var að segja að ég væri þreytt í dag því klúbburinn var til hálf 2 í nótt. Misstum okkur aðeins í spjallið. Gaman að því. Get sofið seinna. Lifið heil.

     |

Brullaup Huldu og Gústa og frú Ásdís Schumacher

Fór úr vinnunni um 18:00 leytið á föstudaginn og hélt heim á leið. Er ekki búin að sjá mikið af íbúðinni minni þessa vikUna. Settist niður og skrifaði grein á Selluna, átti reyndar að skila henni inn á miðvikudaginn en tókst ekki vegna tímaskorts. Tók svo örlítið til og hélt svo í Citýið. Var komin þangað um miðnætti. Alltaf gott að koma heim til foreldra. Mikið var gott að sofa út. Svaf sem sagt frameftir og dólaði mér. Átti að vera mætt í brúðkaup klukkan fimm í Kotstrandarkirkju (á milli Hveragerðis og Selfoss). Ég dólaði mér aðeins of mikið. Frú Ásdís var farin að reka á eftir mér klukkan hálf fimm og ég ekki tilbúin. Lögðum af stað korter í fimm. Bað frú Ásdísi vinsamlegast um að keyra ekki á 90 km hraða því að þá mundi ég ekki ná brúðkaupinu. Eftirfarandi samtal átti sér stað klukkan 16:47, laugardaginn 10. júlí:

Una: mamma, ég næ ekki brúðkaupinu ef þú keyrir bara á 90.
Frú Ásdís: Una Björg,ég hef aldrei keyrt hraðar en 100!
Una: Hraðar, frú Ásdís.
Frú Ásdís: já, ég er að gefa í!

kl. 16:50

Frú Ásdís: Una Björg, ég er komin upp í 120, hef aldrei keyrt svona hratt!
Una: Þú ert svo mikill Rebel.
Frú Ásdís: þú átt eftir að mæta of seint í þitt eigið brúðkaup. Hvaðan hefurðu þetta. Ekki frá mér. Svo mikið er víst. Jæja, við náum þessu.

Þannig að seinagangurinn í mér gerði frú Ásdísi, móður mína, að lögbrjót. Ásdís Schumacher. Ég rétt náði brúðkaupinu. Mætti á slaginu fimm. Geri aðrir betur.

Brúðkaupið var indælt og kirkjan er æðisleg. Gömul sveitakirkja. Veislan var svo haldin í Hvíta húsinu á Selfossi. Fínt alveg. Hélt ræðu. Stikkorðablogg. Ásdís vinkona skutlaði mér svo í Citýið að brúðkaupi loknu. Hún hélt sig þó innan ramma laganna í sambandi við hraðann. Hún var því ekki Ásdís Schumacher II. Góðar stundir

     |

fimmtudagur, júlí 8

Baugar/Baugur

Það er verið að setja lög sem eiga að hafa áhrif á Baugsveldið. Verða þá líka sett lög á þá Júníussyni í Vínyl (Baugabræður). Nei, bara svona vangavelta...

     |

miðvikudagur, júlí 7

Tónleikar

Þá er það ákveðið. Vigdís María var að hafa samband og hún ætlar að bjóða mér á Placebo. Þórður Freyr er veikur og kemst ekki. Jei, Placebo! Lifið heil

     |

þriðjudagur, júlí 6

U

Vantar fleiri klukkutíma í sólarhringinn. Enginn tími til að blogga. Mikið að gera í vinnunni & lífinu.

Gaman að hitta Citý stelpurnar. Vorum 8, en í reynd vorum við 10 því Fríða á von á tvíburum. Grilluðum og höfðum það gott. Sandra og Anna komu með gamlar myndir, mikið hlegið. Nokkurra var reyndar sárt saknað. Bætum það upp á hafnardögunum í sumar.

Splendid á Metallicu. Þeir voru hressir. Fékk stundum gæsahúð, sérstaklega þegar þeir spiluðu Nothing else matters. Fannst þó að hljóðið hefði mátt vera betra. Töskufíaskóið náði ekki að eyðileggja góða tónleika.

Shit, á eftir að skrifa grein á SellUna. Best að fara í það. Góðar stundir.

     |

föstudagur, júlí 2

Hnuss og ei hnuss

Tékkar dottnir út, hnuss. Skandall að Grikkir eru komnir í úrslit. Spila álíka skemmtilegan fótbolta og Ísland eða Þýskaland. Trébolti. Hef núna ekki mikinn áhuga á að sjá úrslitaleikinn. Eins gott að ég verð á Metallicu tónleikum. En snúum okkur nú að ei hnussinu.

Anna Júl bauð mér í mat í gær, ásamt Söndru og Sigurrós. Prinsarnir Sölvi Hrafn og Ísak Júlíus hittust einnig hressir. Tilefnið var flutingur Rósar kenndri við Sigur heim á Skerið eftir nám. Gáfum henni þessa líka dýrindis útskriftargjöf sem hún getur borið um hálsinn. Mjög skemmtilegt kvöld. Sátum að spjalli til klukkan eitt í nótt. Vorum að plana laugardaginn, meðal annars, en þá ætlum við Þorlákshafnar Citý skutlur að hittast únd gera okkur glaðan dag. Ekki leiðinlegt það. Lifið heil.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com