fimmtudagur, júní 30

Vikulegt blogg

Af einhverjum ástæðum þá virðist ég bara blogga á fimmtudögum, eða svo til. Búin að hafa nóg fyrir stafni síðustu daga. Ég:

- fór á kaffihús með Mæju, Lindu, Signýju og Boggu á fimmtudaginn.
- fór í grillveislu hjá Hauki og Kollu, ásamt gamla Röskvugenginu, á föstudagskvöldið.
- fór í útskriftarveislu hjá Sigfúsi í Safnaðarheimilinu á Seltjarnarnesi á laugardaginn (var að útskrifast með master í viðskiptafræði) Linda var viss um að hann og Magga ætluðu að gifta sig, fannst staðsetningin grunsamleg. Þau létu þó ekki pússa sig saman. Hins vegar eignuðust Sigfús og Magga dóttur á mánudaginn, hana Kristínu Dóru. Til lukku með þetta allt saman Sigfús.
- fór í útskriftargrillveislu hjá Ármanni bróður og Þórhöllu mágkonu á laugardaginn. Þau voru að útskrifast úr viðskiptafræðinni. Góður matur og góður félgasskapur. Til lukku með útskriftina bæði tvö.
- dró Signýju og Munda í Heiðmörk á sunnudaginn, í 50 mínútna göngu. Var þunnudagur hjá þeim. Ekki mér. Mundi segir að ég skuldi honum 50 mínútur af lífi sínu. Hann hafði hins vegar mjög gott af göngutúrnum.
- strunsaði í bíó með Helgu á Batman á sunnudaginn. Fín ræma.
- kvaddi Ágústu og Andy á mánudaginn. Voru að fara aftur til Manchester eftir 14 daga stopp. Sveinsdóttir bauð upp á lunch í Hófgerðinu. Kvaddi líka Maríönnu en hún var að leggja af stað í langferð. Alla leiðina heim til Akureyrar.
- er greinilega búin að vera ofvirk upp á síðkastið. Fínt.

Góðar stundir

     |

fimmtudagur, júní 23

Noh

Ég verð auðvitað að taka áskorun Sigurrósar og blogga í dag. Tvö blogg á jafnmörgum dögum. Ég fæ örugglega harðsperrur í fingurna, er ekki í bloggformi þessa dagana.

Ég hef alltaf verið frekar áttblind og hef þess vegna 2 símaskrár inni í bíl, ef ske kynni að ég þyrfti að nota kortin í þeim til að rata. (ekki spyrja mig af hverju ég hef 2, þar sem ein ætti að vera nóg...) Þessar framkvæmdir niðri í bæ eru ekki fyrir áttblint og áttavillt fólk eins og hana mig. Þegar ég keyrði nýju Hringbrautina í fyrsta sinn varð mér ekki um sel. Hvert var ég að fara og hvar myndi ég lenda! Umferðarmiðstöðin var mér á hægri hönd í stað vinstri. Ekki gátu blessuð kortin í símaskránni hjálpað mér því þau eru orðin úrelt... þetta reddaðist allt saman. Ég bara hélt ró minni og keyrði áfram og fann að lokum kunnuglegar slóðir. Finnst þessi nýju gatnamót minna mig oggulítið á gatnakerfin erlendis. En það er önnur saga.

Ég er orðin vön því að villast í höfuðborginni en um daginn villtist ég þegar ég var í göngutúr í Heiðmörk. Símaskráin gat ekki hjálpað mér þar. Við Sigurrós röltum yfirleitt einu sinni í viku um Heiðmörkina. Frábær staður Heiðmörk. Nema þegar maður villist. Þannig var mál með vexti að við tókum einn hálftíma göngutúr um einhvern stíg en okkur fannst það ekki alveg nógu langur göngutúr. Við röltum því eftir einhverjum öðrum stíg og komum niður af honum á fáránlegum stað, til hægri við aðalveginn. Okkur sýndist sem við kæmumst ekki lengra áfram og því hlyti bíllinn að vera neðar á veginum. Rangt. Við vorum búnar að rölta í 20 mín eftir veginum og orðnar eitt spurningamerki hvar blessaður bíllinn var, þegar við gerðum okkur grein fyrir því að við vorum að ganga í átt að höfuðborginni. Ekki var bíllinn á þeirri leið. Okkur var eiginlega létt við þessa uppgötvun. Vorum farnar að velta því fyrir okkur hvort bílnum hefði verið stolið. Ingvi hefði ekki verið hrifinn af því. Við töltum því til baka og þegar við komum loks að gatnamótunum þar sem við komum niður af göngustígnum þá blasti við okkur beinn og breiður vegur áfram... Hvernig er hægt að missa af heilum vegi? Mér er spurn. Þessi smá göngutúr varð að eins og hálfs tíma för! Leiðin að bílnum var greinilega lengri heldur en leiðin frá honum. Lifið heil

     |

miðvikudagur, júní 22

Á lífi

Það er fokið í flest skjól þegar hr. Einar faðir minn er farinn að kvarta undan bloggleysi Ungfrúarinnar. Já, nú er síðasta vígið fallið. Hr. Einar og frú Ásdís hafa fengið sér internetið í Citýið. Frú Ásdís snertir reyndar ekki tölvUna en Hr. Einar er að verða nokkuð lunkinn á netinu. Kominn með netfang og talar við Laufeyju systur sína í Lúx í gegnun Skyp-ið. Jahá! Hann les líka blogg dótturinnar. Segir stundum við mig þegar ég er að segja honum eitthvað ,,já, ég las það einmitt á blogginu þínu". Hr. Einar, nú er bara að kommenta. Skora á þig!

     |

fimmtudagur, júní 9

Jahá

Ástu Rós samstarfskonu minni, og vinkonu, detta stundum skrýtnir hlutir í hug. Í gær sagði hún: ,,ég fór í ljós í gær, hafið þið ekki tekið eftir því?". Við játtum því. Þá heyrist í henni: ,,ég tók nefnilega eftir því í gær að þú ert orðin svolítið föl Una" Hún ákvað því að skella sér í eins og einn ljósatíma. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Ég vissi ekki að minn ljósi húðlitur mundi hrekja fólk í geislamengunartíma. Spurning um að fá prósentur hjá einhverri geislamengunarstofunni. Maður hefur greinilega hin ýmsu áhrif á fólk. Það er nefnilega það. Lifið heil.

     |

fimmtudagur, júní 2

Hápunktur

dagsins var tvímælalaust þegar ég mútaði Jóni samstarfsfélaga, með 100 kr, til að sippa með símasnúru inn dulítið langan gang að fundarherbergi 3. Þar átti hann að koma símasnúrunni fyrir í símann sem þar er. Hann sippaði alla leiðina, en því miður var fundur í gangi. Hann komst því ekki inn í herbergið og varð af fjármununum. Lifið heil.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com