miðvikudagur, júlí 27

Esjan

Ungfrú Una Björg labbaði á Esjuna í gær ásamt Helgu og Ásdísi. Það fannst mér skemmtilegt. Við ákváðum á laugardagskvöldið, yfir rauðvínsglasi, að labba Esjuna þriðjudaginn 26. júlí. Að sjálfsögðu stóðum við, við það. Lögðum af stað upp, í blíðskaparveðri, um 17:45 og komum á toppinn einni klukkustund og 40 mínútum síðar. Fórum lengri og óbrattari leiðina. Stoppuðum ekki mikið á leiðinni. Stelpurnar segja að ég sé svolítið ,,keppnis" en það verður aldrei sannað. Vil þó láta það fljóta með að við tókum þó fram úr 3 dömum sem lögðu af stað á undan okkur. Held að ég sé búin að smitast af útivistarbakteríunni. Vorum farnar að skipuleggja aðra gönguferð á leiðinni niður og þá verður labbað á annað fjall. Þetta fannst mér magnað.

Eftir gönguferðina var planið að hitta Skrattheu Skorrdal, Arndísi, Snædísi og Vilborgu á Oliver. Henti mér í sturtu og mætti á Oliver 20 mínútum síðar. Ásdís og Helga voru þó mættar á undan og voru búnar að panta salat handa Ungfrúnni, því ekki er hægt að fá afgreiddan mat eftir kl. 22:00. Salatið beið eftir mér þegar ég mætti á staðinn. Ingimundur spariskór bættist svo í hópinn. Sátum á Oliver og kjöftuðum til að verða eitt. Jytte Bra og góðar stundir.

     |

föstudagur, júlí 22

Miss Granger

You scored as Hermione Granger. You're one intelligent witch, but you have a hard time believing it and require constant reassurance. You are a very supportive friend who would do anything and everything to help her friends out.

Hermione Granger

85%

Remus Lupin

75%

Albus Dumbledore

75%

Harry Potter

65%

Severus Snape

65%

Sirius Black

60%

Draco Malfoy

55%

Ginny Weasley

50%

Ron Weasley

50%

Lord Voldemort

40%

Your Harry Potter Alter Ego Is...?
created with QuizFarm.com

     |

fimmtudagur, júlí 21

Suma

daga gengur meira á en aðra. Dagurinn í gær er dæmi um slíkan dag. Ég vaknaði í blíðskaparveðri. Klæddi mig í sumarleg föt og strunsaði í vinnUna. Þegar líða fór á morguninn fannst mér alger óhæfa að vera inni í þessu góða veðri. Ég plataði Sigurrós því með mér í Lunch á Vegamót. Sesar salatið þar klikkar seint. Sátum þar úti í blíðskaparveðri og sóluðum okkur. Þetta sló aðeins á eirðarleysið. Held að ég hafi verið smá óróleg út af tannlæknatímanum sem ég átti seinna um daginn.

Þegar ég var nýmætt aftur í vinnUna þá hafði vinkona mín samband við mig og sagði mér ekki svo gleðilegar fréttir. Hún var að greinast með illkynja æxli í hálsinum. Skjaldkirtlinum nánar tiltekið. Fann hnút í hálsinum um daginn og lét taka sýni. Það reyndist vera illkynja. Hún tekur þessu þó með ró og ég veit að þetta fer allt saman vel. Þetta fer allt saman vel ezkan.


Var nýbúin að fá þessar fréttir þegar ég átti að mæta til tannsa. Það brotnaði nefnilega upp úr tönn um daginn og það varð auðvitað að laga hana. Auðvitað, segi ég með stirðnað bros á vör. Ungfrú Una hefur netta tannlækafóbíu. Sat stjörf við tölvUna þar til ég átti að arka upp og láta kíkja á herlegheitin (tannlæknastofan er á hæðinni fyrir ofan þar sem ég vinn). Ég var búin að barma mér yfir því að þurfa að fara til tannlæknis en fannst minn vandi smávægilegur eftir fréttirnar sem ég var nýbúin að fá. Ég nefndi það við tannlækninn að ég væri með netta fóbíu gagnvart tannlæknum. Það væri þó ekkert persónulegt. Hún tók þessu vel og brá á það ráð að deyfa vel og vandlega svo að ég myndi ekki finna fyrir neinu. Það virkaði. Fannst þetta ekki mikið mál og hef jafnvel, en bara jafnvel, komist yfir þessa fóbíu mína. Ég var þó mjöööög dofin í hálfu andlitinu (nefið þar ekki undanskilið) þegar ég kom aftur í vinnUna. Talaði frekar skringilega.

Var nýsest aftur við vinnu þegar ég fékk ánægjulegt símtal. Þóra Brynjars vinkona mín, sem bjó einu sinni í Citýinu, hringdi í mig. Hún flutti frá Þorlákshöfn árið 1988 til Keflavíkur. Ég hafði sem sagt ekki heyrt í henni í 17 ár þegar hún hringdi. Ég talaði þó hálf skringilega og sagði: ,,þsú verþður að afþsaka hve þskringilega ég tala. Var að koma frá tþannlækni og er enn deyfþð. Henni fannst það ekki mikið mál. Já, hún býr sem sagt enn í Keflavík, á mann, hús, bíl, 2 börn og það 3ja er á leiðinni núna í ágúst. Frábært að heyra í henni eftir allan þennan tíma. Held að það líði ekki önnur 17 ár þar til ég heyri í henni aftur.

Ég vann örlítið eftir þetta og svo var pizza og bjór í vinnunni.

Eftir pizzUna fór ég heim og sólaði mig aðeins. Þar sem ég sat og sólaði mig þá rekur Hólmstein leigusala á fjörur mínar. Hann er afskaplega kómískur maður. Er um 7tugt og er mikill prinsip maður. Hann bað mig um að afsaka ónæðið en hann bara varð að spyrja hvort að ég hefði tekið eftir býflugnabúinu sem væri beint fyrir utan svefnherbergisgluggann minn. Hjartað tók kipp en ég var að viðurkenna að svo hefði ég ekki gert. Ég rauk inn til að athuga þetta og viti menn, heljarstórt býflugnabú hékk þar! Hvernig gat þetta farið fram hjá mér! Hólmsteinn spurði hvort að ég vildi hnýta eitthvert reipi við ofninn og henda reipinu út um gluggann. Ég sagði að hann mætti bara fara inn í herbergi og hnýta þetta blessaða band. Hann sagði að það væri alger nauðsyn að hafa það, svo að hann slasaði sig ekki. Hann sagðist ætla að taka búið um kvöldið og bætti við að hann yrði sennilega að klæða sig vel og hylja andlitið. Really...

Ég henti mér svo í ræktina og þegar ég kom heim var býflugnabúið farið. En býflugurnar ekki. Hann Hólmsteinn hefur greinilega ekki verið að hafa fyrir því að eitra fyrir kvikindunum. Þær gistu því á glugganum mínu í nótt! Ég þorði ekki að taka bandið niður og því svaf ég með snæri yfir hausamótunum á mér og býflugur á glugganum. Wunderbar! Kannski ég tali við Hólmstein um að fá meindýraeyði á kvikindin. Hann er samt þannig gerður að hann vill gera sem mest sjálfur. Ekkert að kalla til menn eða konur til að laga hlutina. Það eru 2 innstungur sem virka ekki í stofunni en ég hef ekkert verið að láta hann vita af því. Hann mundi örugglega vaða í það að laga þær sjálfur og skaða sig. Betra að láta það vera. Góðar stundir

     |

þriðjudagur, júlí 19

5x30 ára afmæli

var haldið í Húsafelli á laugardaginn. 5 virtir meðlimir í Skerjógenginu, Mæja, Signý, Bragi, Ingimundur og Þráinn héldu upp á þrírognúll áfangann með heljarveislu. Til stóð að mæta á staðinn um kl. 14:00. Ég fékk far með Mæju og Hrafni en þau ætluðu að leggja af stað um hádegisbilið, enda Mæja ein af afmælisbörnunum. Þau töfðust öööörlítið og við lögðum af stað kl. 13:30. Hún þurfti reyndar að útrétta fyrir afmælið. Við þurftum svo að ná í fellihýsið sem við ætluðum að gista í, í Borgarnes og við vorum mætt í Húsafell um 16:30. Ágætis árangur það. Þó nokkrir voru mættir þegar við komum á staðinn og búið var að reisa stórt veislutjald og hljóðkerfi komið upp. Það kom sér ágætlega þegar það byrjaði að rigna. Rigningin stóð þó ekki lengi yfir og var það vel. Því næst var grillað og farið í leiki. Þegar leið á kvöldið stóð restin af Skerjóhópnum (þau sem ekki voru að halda upp á afmælið) fyrir skemmtiatriði. Við tókum lagið íslenskir karlmenn, breyttum textanum og sungum til heiðurs afmælisbörnunum. Vorum búin að hittast 2x til að koma okkur saman um lag og semja texta. Við höfðum þó aldrei sungið hann yfir og því var general prufan í tjaldinu hans Haffa hálftíma áður en við áttum að flytja það (breyttum textanum meira að segja örlítið...) Þetta tókst þó allt saman vel og afmælisbörnin voru ánægð með framtakið. Útdeildum svo gjöfunum þegar atriðið hafði farið fram. Síðan tók við gítarspil, söngur og gleði.

Þetta var ótrúlega gaman. Kannski maður geri eitthvað svipað þegar maður stendur á þessum tímamótum. En það er bara svo langt í það ...

Lifið heil.

     |

föstudagur, júlí 15

Sko

þetta litla orð ,,sko" fer gríðarlega í taugarnar á mér. Þorri landsmanna virðist nota þetta orð í annarri hverri setningu núorðið. Flestir enda alla vega setningarnar á þessu orði, ,,sko" Takið eftir þessu næst þegar þið hlustið á fólk tala. Góðar stundir

     |

fimmtudagur, júlí 14

Ættarmót

Fór á ættarmót á Arnarstapa á Snæfellsnesi á laugardaginn. Verð að viðurkenna að ég þekkti ekki marga. Auðvitað þekkti ég þá nánustu en aðra hafði ég aldrei séð. Þetta var þó hið ágætasta mót. Ég komst meðal annars að því að ég átti nöfnu sem var uppi á síðustu öld. Hún mun hafa verið, sem nú er skilgreint, þroskaheft. Hún Una var þó skáldmælt og orti meðal annars þessa vísu:

Kiss mig einn og kiss mig tvo,
kiss mig þrjá og fjóra.
Hundrað þúsund milljónir
níu átta og fjóra.

Mér finnst þetta hin fínasta vísa hjá henni. Ólína frænka mín er músíkant og hún heyrði þessa vísu hjá föður sínum fyrir löngu. Hún gleymdi henni aldrei og orti lag og texta í kringum þessa vísu. Þetta lag var meðal annars flutt á ættarmótinu. Gaman að því.

Já, ég er semt sagt ættuð að hluta af Snæfellsnesinu. Ættingjar mínir bjuggu að Hellnum. Einn frændi minn rekur eitt sérstæðasta kaffihús landsins. Magnað útsýni, beint að sjó, og kaffihúsið á sína sögu. Er pínulítið hús sem var eitt sinn salthús föður hans (eða afa, man það ekki svo glöggt). Þar fæst mögnuð sjávarréttasúpa. Við kíktum þangað á sunnudaginn. Mér fannst ég kannast við eitt erlent nafn í gestabókinni sem var á undan þar sem ég skrifaði. Spáði þó ekki meira í því, en sagði í gamni að hann væri alnafni leikara eins sem ekki væri leiðinlegt að horfa á. Sá svo í fréttablaðinu að Gael Garcia Bernal hefði verið á Búðum um helgina. Þetta var sem sagt ekki alnafni hans sem var á kaffihúsinu, þetta var hann sjálfur. Ef ég hefði einungis mætt korteri fyrr...

Lifið heil

     |

föstudagur, júlí 8

Búin að

skerða hár mitt töluvert. Er þó ekki komin með drengjakoll eins og ég sagði einhverjum. Aldrei skal þó góð saga gjalda sannleikans. Er búin að stytta hár mitt verulega og er það nú við hálsmálið. Jamm & já. Var kölluð krútt í vinnunni, af einum samstarfsfélaga, vegna nýju klippingarinnar. Krútt! Hélt að það orð væri bara notað um lítil börn. Veit ekki alveg hvernig ég að að taka þessu ,,hóli". Aðilinn lét þó vera að klípa í kinnarnar á mér...

Lifið heil.

     |

fimmtudagur, júlí 7

Reunion

Við hittumst í gær Cityeyjarnar og skipulögðum eins og eitt stykki Reunion. Fyrir árganga 1977, 1976 & 1975. Það verður haldið á Hafnardögunum 6. ágúst í Þorlákshöfn Citý. Takið daginn frá. Fyrrum nemendur við Grunnskólann í Þorlákshöfn, þið megið eiga von á bréfi í næstu viku. Líf og fjör! Góðar stundir.

     |

þriðjudagur, júlí 5

Tónlistarsmekkur...

Ég fór í spinning í morgun, sem er ekki í frásögur færandi, nema bara hvað að þetta var síðasti tíminn hennar Bjarneyjar spinningkennara fyrir sumarfrí. Hún leyfði okkur að velja á milli Scooter og Billy Idol í næst síðasta laginu. Ég og ein önnur sál völdum Billly Idol en allir hinir völdu Scooter. Þegar það var ljóst þá dæsti ég ,,æ, nei ekki Scooter" aðeins of hátt. Uppskar augnatillit. Hver velur scooter fram yfir Billy Idol? Það er ofar mínum skilningi, hann er þó ekki í neinu sérstöku uppáhaldi. En allt er skárra en Scooter! Það þarf greinilega að planta fleiri rokkurum í spinningtímana í Sporthúsinu. Lifið heil.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com