fimmtudagur, september 29

Best að

blogga í tilefni þess að það er fimmtudagur. Síðasta helgi var splendid. Blanda af afslöppun, lærdómi og félagslegum athöfnum.

Er farin að vera heimakærari. Kannski nýt ég þess betur að vera heima núna því ég er það svo sjaldan. Var frekar þreytt eftir vinnu á föstudaginn og hélt sófanum mínum félagsskap allt kvöldið. Bauðst að fara í bíó en ákvað að halda mig bara heima. Mundi ekki kalla það ellimerki, heldur þroskamerki. Já.

Var ægilega aktíf á laugardaginn. Byrjaði á því að fara í klukkutíma spinning tíma í Sporthúsinu kl. 09:30. Eftir sturtu og sjæningu hélt ég á BókhlöðUna og var þar til lokunar. Með hálftíma matarhléi með Sveinsdóttur. Náði að einbeita mér vel og komst yfir svolítið efni í stjórnun og forystu. Fannst svolítið skrítið að koma aftur á hlöðuna. Fékk ekki beint fortíðarljóma en eitthvað fortíðar gerði vart við sig. Þegar bjallan glumdi og sagði námsmönnum að hypja sig út, bregður alltaf jafn mikið við ,,Guðsröddina", kíkti ég í KringlUna. Hitti svo Ásdísi, Helgu og Möttu á Vegamótum í kvöldverð í tilefni þess að Ásdís er að flytja til Frakklands á morgun. Kíktum á nýja matseðilinn og hann lítur vel út.

Laugardagskvöldinu var varið í félagsskap Ásdísar, Helgu og Möttu. Heiður bættist svo í hópinn. Stelpurnar drukku Cosmopolitan af miklum móð en ég ákvað að vera skynsöm og eiga sunnudaginn til lærdóms og Citýferðar. Kíktum á ÖlstofUna, 11Una og Kaffibarinn. Fínt kvöld,var orðin frekar þreytt um 3 leytið og keyrði þá stelpurnar heim. Þær voru alveg jafn þreyttar og ég. Aftur, ekki ellimerki. Þroskamerki.

Ákvað að leyfa mér að sofa út á sunnudaginn. Langt síðan ég hef sofið út. Vaknaði um hálf eitt! og bjóst til Citýfarar. Langaði að hreyfa mig eitthvað þannig að ég ók í Heiðmörk og labbaði/hljóp einn hring og keyrði svo í Citýið. Maður verður að koma í mínus hitaeiningum í Citýið því maður er svo vel fóðraður þegar maður kemur. Eyddi svo sunnudeginum í Þorlákshöfn Citý hjá foreldrum og Emsla. Fékk meðal annars nautasteik og köku með rjóma.

Ég er þannig gerð að ég verð yfirleitt að hafa tónlist í kringum mig, í vinnunni, bílnum og heima. Áttaði mig á því á sun hvaðan ég hef það. Sátum við eldhúsborðið og vorum að gæða okkur á súkkulaðiköku með rjóma og spjölluðum saman. Allt í einu veitti ég því eftirtekt að ég var farin að syngja með útvarpinu lagið Lick it up með Kiss. Rás 2 er alltaf á, í Básahrauninu, og þar af leiðandi hlusta foreldrar á allar tegundir tónlistar. Mér fannst einkar heimilislegt að borða sunnudagskökUna, ræða við foreldra og hlusta á Kiss. Nú veit ég hvaðan ég hef þörfina fyrir að hlusta á tónlist allan daginn.

Hr. Einar og Frú Ásdís foreldrar mínir eru orðin tæknivædd. Eru komin með internetið. Mamma var ekki alveg að kaupa gagnsemi þess fyrst en er nú farin að sjá örlitla gagnsemi í því, því nú getur hún reynt að ,,hafa áhrif" á Ármann og tengdadótturina sem búa í Danmörku, í gegnum Skype-ið. Er það ekki Pabbi? (foreldrar fylgjast með dótturinni í gegnum bloggsíðUna). Heyrðum einmitt í Baunabúunum á sun og fengum að sjá íbúðina þeirra í gegnum vefmyndavél. Tæknin, maður minn lifandi. Magnað.

Sem sagt fín helgi.

Góðar stundir

     |

fimmtudagur, september 22

Klukk

Var ,,klukkuð" af ungfrú Júlíusdóttur og verð því víst að setja fram 5 gagnslausar upplýsingar um mig. Ég:

  • elska að dansa
  • hef eiginlega eingöngu gengið í pilsum frá árinu 1998
  • er með skódellu
  • var kölluð indíánanafninu ,,barin í öxl" af vinum í menntaskóla vegna allra aulabrandaranna
  • þarf að fara að virkja skipulagshæfileika mína betur en ég geri akkúrat núna.

Ég klukka svo Skrattheu Skorrdal, Sveinsdóttur, Þórhildi Ástralíumær, Boggu og Írisi.

Lifið heil.

     |

mánudagur, september 19

Brullaup

Þráins og Sillu heppnaðist vel. Athöfnin var í Landakotskirkju, brúðurin er kaþólsk, og hún full hátíðleg að mér fannst. Kaþólskar athafnir eiga það til. Eftir kirkju var haldið í veislu á Nesjavelli, Nesbúð nánar tiltekið. Maturinn var fínn og brúðhjónin glæsileg. Skerjóhópurinn var búinn að undirbúa skemmtiatriði (tók 3 hittinga að púsla því saman!). Við gerðum mynda,,show" og sungum lag til brúðhjónanna. Ég fór svo með ræðu eða innganginn að skemmtiatriðinu. Það getur komið í bakið á mannni að heita Una. Það þykir víst við hæfi að Una fari með ræðUna. Gísli notaði það sem rök fyrir því að ég færi með ræðUna. Það virkaði.

En sem sagt hið fínasta brúðkaup. Verst að ég er enn þreytt eftir herlegheitin. Góðar stundir

     |

föstudagur, september 16

Óvissuferðin

Opperation Amma 2005 heppnaðist ljómandi vel. Við hittumst í Grasagarðinum um kl. 15:00 og þar var byrjað í ratleik. Ratleikurinn var að sjálfsögðu í bundnu máli, hér er dæmi:

Nú verður þrautin þyngri,
Hefði verið auðveldari þegar þið voruð yngri.
Nú í hlut þið þurfið að ná,
verður hann auðvelt að fá?

Uppi júgrum heldur hann,
hann passar ekki á hvern mann.
Maður þarf oftast að vera kona,

til að eiga svona

það var óborganlegt að sjá virðulegan lækni og virðulegan hjúkrunarfræðing vippa sér úr brjóstahaldaranum, notuðu þó mismunandi aðferðir. Meðal verkefna var að búa til myndaramma úr greinum. Púsla, búa til drykkjuvísu og finna mann í íþróttafötum og láta taka mynd af sér og margt fleira. Ásdís elti uppi þýskan skokkara og lét taka mynd af sér við hlið hans. Hann vissi ekkert um hvað málið snérist. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og Ömmurnar voru ekki lengi að leysa þrautirnar. Ratleikurinn endaði svo í Baðhúsinu og þar beið okkar heitur pottur og léttvín. Hópur eitt vann (Ásdís, Sigurbjörg, Þóra og Æsa).

Eftir að hafa svamlað í pottinum í meira en klukkutíma þá var haldið heim til Skrattheu Skorrdal og keppt í Hæ Gosa. Úrslit urðu þau að Sigurbjörg var krýnd Ungfrú Hæ Gosi 2005. Svo var farið í það að sjæna sig og klæða. Því næst var matur en við Skratthea pöntuðum mat frá Austurlandahraðlestinni (sama eldhús og Austur Indíafélagið) og maturinn var ótrúlega góður.

Eftir matinn var komið að því að flytja drykkjuvísurnar sem samdar voru í ratleiknum. Ásdís fékk það verkefni fyrir hönd hóps eitt og fórst henni það vel úr hendi. Hún þurfti sem sagt að flytja drykkjuvísuna smámælt. Hildur flutti vísuna fyrir hönd hóps 2 og þurfti hún að skrolla vísuna. Tókst merkilega vel.

Svo var komið að Singstar. Ég hef aldrei farið í Singstar áður og var búin að segja að ég mundi sjálfsagt ekki fást til að syngja í þetta tæki. Ég hafði rangt fyrir mér. Ég fékkst varla úr tækinu! Söng Franz Ferdinad slagarann " Take me out" til dæmis fimm sinnum. Geri aðrir betur. Já, eða Kolla hafði reyndar betur því hún var stigahæst og var því kjörin Ungfrú Singstar 2005 og á fegurðarsamkeppnisborða til að sanna það.

Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld og gaman að hitta Ömmurnar. Hlakka til að ári. Vigdís og Júlía voru kosnar rússneskri kosningu að skipuleggja óvissuferð að ári, voru kjörnar á meðan þær voru úti að reykja. Eru einu reykingamanneskjunar í hópnum, það var því tilvalið að kjósa þær. Ömmufélagið er sem sagt einstaklega lýðræðislegt. Góðar stundir

     |

föstudagur, september 9

Góðan daginn

Ég er ekki alveg að hafa tíma fyrir þetta blogg. En þetta á ekki að vera kvöð, gott að henda einhverju inn ef mér liggur eitthvað á hjarta. Jafnvel þó mér liggi ekkert á hjarta.

Það er búið að vera frekar mikið að gera undanfarið. Er að reyna að púsla saman 100% vinnu, mastersnámi, ræktinni og að rækta þá sem mér þykir vænt um. Veit ekki af hverju ég er að borga leigu, er eiginlega aldrei heima hjá mér þessa dagana. Það hlýtur að lagast. Þó ekki um helgina.

Á eftir er móttaka fyrir mastersnemana í viðskiptafræði og hagfræðideild. Ætli það sé ekki best að mæta þangað og reyna að kynnast eitthvað af þessu fólki sem er með manni í náminu. Ætla þó ekki að vera lengi. Á eftir að redda hinu og þessu fyrir óvissuferðina Operation Amma á morgun.

Á laugardaginn er sem sagt óvissuferðin Operation Amma, en við Matta erum búnar að vera að skipuleggja ferðina í vikunni. Er ferð Ömmuklúbbsins (vinkonuhópur úr ML) og við Matta vorum kosnar með rússneskri kosningu í saumaklúbb um daginn til að sjá um herlegheitin. Mjög lýðræðislegt allt saman. En þeir sem þekkja mig vita að mér finnst ekki leiðinlegt að skipuleggja svona lagað. Stelpurnar vita það eitt að þær eiga að mæta í Grasagarðinn kl. 15:00 á laugardaginn og hafa með sér nokkra hluti sem byrja á ess:

Sundföt
Snyrtidót
Spariföt
Sólgleraugu
Stafræna myndavél (þær sem eiga)
(s)vín
skrúfjárn

...og það sem þeim dettur í hug sem byrjar á S

þetta verður magnað!

Nokkrar Ömmur búa erlendis (Dagný í Japan, Íris í Danmörku, Þórhildur í Ástralíu og Guðrún í Austurríki). Þeirra verður saknað

Góðar stundir og góða helgi.

     |

mánudagur, september 5

Afmælisbarn dagsins

er elskulegur bróðir minn hann Ármann. Hann er 23ja ára í dag. Get ekki farið og smellt á hann kossi, svo auðveldlega, því hann og Þórhalla, + bumbubúinn, eru flutt til Kapmannahafnar. Eru í mastersnámi í viðskiptafræði. Sakna þeirra nú pínu. Elsku Ármann, til lukku með daginn. Góðar stundir.

     |

Franz Ferdinand

tónleikarnir voru þrusu góðir. Upphitunarhljómsveitin Jeff Who komst ágætlega frá þessu. Kannaðist þó bara við eitt lag, kannski ekki nema furða þar sem diskurinn þeirra er ekki kominn út. Eftir Jeff Who var Dj. Maggi lego að spila. Hann virðist ekki hafa verið með markhópinn alveg á hreinu. Spilaði mest teknó tónlist. Held að þeir sem fari á rokktónleika, hafi meira gaman af rokki en teknói. Alla vega ég.

Franz byrjaði svo loks að spila og biðin var alveg þess virði. Voru góðir. Ég skil ekki fólk sem getur setið á tónleikum. Þeir sem sátu í Kaplakrika klöppuðu varla með. Ég dillaði mér allan tíman. Góð stemning var á tónleikunum og ég var sátt. Góðar stundir.

     |

fimmtudagur, september 1

Var

að átta mig á því að ég hef um það bil 3 mánuði til að eignast kærasta til að taka með mér til Kanarí í janúar. Best að setja málið í nefnd. Eða hvað. Samkvæmt sumum kenningum Human Resource Management fræðanna er ekki líklegt til árangurs að setja mál í nefnd. Þarf greinilega að hugsa þetta eitthvað betur. Góðar stundir.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com