föstudagur, febrúar 23

London calling

Sambýlismaðurinn bauð mér til London í tilefni þrírognúll afmælisins, sem er á sunnudaginn (25.02). Sitjum nú í Leifsstöð og bíðum þess að verða kölluð út í vél, ekki amalegt líf það. Dagskrá er ekki plönuð, nema bara að hitta hana Ásdísi mína sem býr í London. Hún ætlar að fara með mér að versla,út að borða og sýna okkur markaði. Ekki amalegt líf það.

Þetta er síðustu línurnar sem ég rita á bloggið sem twenty something, ekki það að ég sé með einhverja aldurkomplexa. Nei, nei það verður aldrei sannað...

Lifið heil

     |

fimmtudagur, febrúar 22

Þorrablót Skerjóhópsins

var haldið á Grundarfirði síðustu helgi. Snilldarhelgi. Leigðum tvo sumarbústaði rétt fyrir utan Grundarfjörð og blótið sjálft var haldið í félagsheimili hestamanna. Við mættum flest á föstudeginum og þar sem tveir Skerjóliðar koma saman, þar er gleði. Vöknuðum frekar snemma á laugardeginum og útbjuggum Brunch. Skelltum okkur svo á Stykkishólm og skoðuðum bæinn. Eftir gönguferð um plássið var haldið í Narfeyrarstofu. Góður matur og skemmtilegur staður.


Hluti af Skerjóhópnum

Eftir skoðunarferðina var kominn tími til að taka sig til fyrir blótið. Vorum mætt á slaginu 19:00 upp í félagsheimili þar sem Gísli og Sonja gestgjafar tóku á móti okkur. Svo var etið og horft á Evrósjón og samkvæmisleikir voru leiknir. Ég hélt með Eirík Ha-u og honum Haffa mínum. Að sjálfsögðu var veðjað um úrslitin, 3 efstu sætin, og Hr. R hirti pottinn. Að Evrósjón loknu var Sing star svo dregið upp. Það er alveg merkilega skemmtilegt!


Svo var það bara potturinn og í háttinn. Snilldarhelgi.
Góðar stundir

     |

fimmtudagur, febrúar 15

Lyklar

eru ekki mínir bestu vinir. Ég á það til að gleyma þeim. Gott dæmi um andúð mína á lyklum er síðasta vika, ég vil greinilega hafa þá sem lengst frá mér. Á miðvikudaginn í síðustu viku átti ég að mæta á fund við konu eina sem stýrir Höfuðborgarstofu, ásamt hópnum mínum í verkefnastjórnun. Ég var hálf veik en ákvað samt að fara. Ég renndi í hlað hjá Tollhúsinu og týndi fram peningana til að setja í stöðumælinn. Læsti svo bílnum, í því er ég lokaði hurðinni á bílnum fatta ég að lyklarnir eru í svissinum og ég stend alls laus fyrir utan 120 kr í klinki. Frábært! Tölvutaskan, með tölvunni sem ég ætlaði að nota í viðtalinu, blasir við í framsætinu. Síminn og veskið var einmitt í sömu tösku. Hvað gerir ungfrú þegar hún er að vera of sein á fund og allslaus. Nú hún stormar upp í Höfuðborgarstofu, er hálf utan við sig allan fundinn því hún hefur áhyggjur af að það sé búið að stela bílnum eða tölvutöskunni og fær næsta síma lánaðan um leið og fundurinn er búinn. Hringir í lásasmið og hann segist koma eftir 20 mínútur. Því næst bíður lyklahatarinn í 30 mínútur í nístingskulda fyrir utan bílinn til að passa hann og lætur svo rukka sig um 5.000 kr fyrir að opna helv... bílinn.

Það er dýrt að vera lyklahatari.
Lifið heil

     |

mánudagur, febrúar 12

Helgin

var hin bezta. Þegar ég kom heim úr vinnu á föstudaginn beið sambýlismaðurinn eftir mér og sagði mér að fara inn í stofu og loka augunum, sem ég og gerði. Eftir dulitla stund kemur hann inn í stofu og biður mig um að rétta út hendurnar, sem ég og gerði. Hann réttir mér þá kassa og segir að ég megi opna augun. Nú, ég opna kassann og í þeim liggja stígvélin sem ég var að dást að um daginn. Mátaði þau nefnilega, en ákvað að kaupa ekki. Hr. R hefur tekið eftir skónúmerinu og farið og keypt stígvélin þessi elska. Sagðist hafa keypt þau fyrir löngu síðan en gæti ekki beðið lengur. Er fyrirfram afmælisgjöf (senn líður að 3ognúll afmælinu) þar sem hann ætlar að bjóða mér til London afmælishelgina mína. Ég er lukkuleg dama.

Við brunuðum í Citýið á föstudagskvöldið að samfagna Guðlaugu og Settu með 80 ára afmælið (Guðlaug 30. og Setta 50.) Kvöldið var hið bezta, fullt af fólki og heilt djassband í stofunni. Hr. R var sem sagt frumsýndur í Citýinu og held að hann hafi sloppið heill frá því ;) Gistum svo hjá foreldrum.

Laugardagurinn fór í tiltekt og tilraun til lærdóms og sunnudagurinn fór í lunch á Vegamót og Kolaportsrúnt. Eitthvað var rembst við lærdóm líka.

Allt í allt fyrirtakshelgi.
Góðar stundir.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com