þriðjudagur, apríl 22

Matarboðið mikla

Við Reynir svili buðum mökum okkar í matarboð um daginn. Systkinin Rakel og Hr. R sjá yfirleitt um eldamennskUna á sínu heimili og við Reynir höfum lengi grínast með að slá þeim við í eldhúsinu. Við létum loks verða af þessu um daginn. Systkinin fengu formlegt bréf og í því stóð:

Ágæti Rúnar Örn,

Þér er boðið upp á dýrindis kvöldverð a la Reynir & Una, laugardagskvöldið 29. mars 2008 að Álfkonuhvarfi 41 Kópavogi. Herlegheitin byrja kl. 19:00 að staðartíma og þemað að þessu sinni er ,,fjúsion”.

Boðið er þó háð einu skilyrði: að þú skrifir undir samning þess efnis að þú sverjir þess eið að þú munir ekki koma að eldamennskunni á neinn hátt né veita kokkunum ,,gagnleg” ráð. Samningur þess efnis er hér að neðan og honum skal skilað til Unu fyrir föstudaginn 28. mars.

Hann skrifaði undir eftirfarandi samning:

Ég undirritaður, Rúnar Örn Hafsteinsson, skrifa hér með undir það að ég mun ekki með nokkrum hætti koma að eldamennskunni þann 29. mars 2008 né reyna að veita kokkunum ,,gagnleg” ráð. Ég treysti kokkunum fullkomlega fyrir eldamennskunni. Einnig lofa ég því að veita kokkunum 2ja klukkustunda vinnufrið og ekki stíga fæti inn í eldhúsið að Álfkonuhvarfi 41 á meðan kokkarnir eru að störfum.

Eldamennskan heppnaðist líka svona ljómandi vel og við fengum 9 - 9,5 í einkunn en við buðum upp á steiktan saltfisk í humarsósu í forrétt, nautafile með kryddsmjöri og kartöflumús í aðalrétt og ís, ávexti og mars sósu í eftirrétt. Eldamennskan byrjaði reyndar ekkert allt of vel. Þegar við Reynir fórum að versla þá áttuðum við okkur á því að fiskbúðir voru flestar lokaðar og við redduðum saltfisknum því eftir krókaleiðum. Ég læsti mig svo úti þannig að ég þurfti að hringja í Hr. R til að láta hann hleypa okkur inn svo við gætum hafið eldamennskuna. Honum fannst hjálpin á gráu svæði, hann hafði jú skrifað undir samning þess efnis að hjálpa ekkert til við eldamennskUna...

Sem sagt ljómandi vel heppnað kvöld. Það verður erfitt að toppa þetta en þau systkini eiga eftir að reyna það.

Góðar stundir.

     |

miðvikudagur, apríl 16

Mikið að gera á stóru heimili...

síðasta vika var fjörug og mikið að gera. Á þriðjudaginn var matarboð hjá Mæju og Nökkva vinum Hr. R ásamt Sillu og Gumma. Á miðvikudaginn hitti ég Ömmurnar mínar (ML dömurnar) heima hjá Skrattheu Skorrdal og New York dömuferðin var skipulögð. Hildur hin ofurskipulagða tók fram ,,lappann", skráði og undirstrikaði aðalatriðin. Meðal atburða eru pikk nikk í Central Park, út að borða á Tao, verslunarferðir, Regnbogasalurinn og ýmislegt fleira. Á laugardaginn hitti ég Citý dömurnar mínar heima hjá Sigurrós og Sálin hans Jóns míns var þema kvöldsins. Smá nostalgía í gangi og kvöldið endaði á því að þær skunduðu á ball. Ábúendur hvarfs þess er kennt er við álfkonu byrjuðu sunnudaginn á því að hitta Skerjógengið í brunch heima hjá Lindu og Helga. Mjög góð hugmynd hjá þeim hjúum og hópurinn mætti nánast allur, meira að segja Maríanna, Hrafn og prinsarnir þrír að norðan. Þegar ég kom heim þá lagðist ég í rúmið með hita, hósta og beinverki. Frábært. Var búin að finna fyrir einhverju frá því á föstudagskvöldið en var í afneitun. Við kíktum upp á læknavakt á sunnudagskvöldið og læknirinn setti stimpilinn ,,svæsin flensa" á mig og skipaði mér upp í rúm að drekka te og hafa hægt um mig. Hægt um mig! Það er ekkert leiðinlegra en að gera ekki neitt og herrann á heimilinu er duglegur við að skipa mér að hætta að setja í vél eða ryksuga. Eða það er að segja ef að ég hef ekki þegar sest niður vegna svima. Er að skríða saman og ætla í vinnuna á morgun, hlakka til!

Lifið heil.

     |

miðvikudagur, apríl 2

Nýr mánuður - nýtt blogg

ég er greinilega afskaplega afkastamikill bloggari. Blogga sirka einu sinni í mánuði, lofa ekki tíðari uppfærslum en reyni mitt besta. Alla vega mínu næst besta.

Yngsti meðlimur fjölskyldunnar að Básahrauni 3 var fermdur þann 16. mars ásamt 2 öðrum drengjum. Hann var fermdur í fyrra lagi því drengurinn átti pantað far til Svíþjóðar til að keppa í körfubolta um páskana ásamt 8. flokki Þórs. Drengurinn fékk I-book tölvu frá foreldrum og systkinum að gjöf og var ákaflega lukkulegur með hana. Þess má geta að ,,litli" bróðir (er 1,90 að hæð) er kominn í U 15 ára landsliðið í körfubolta og er vel að því kominn. Best að smella inn einni mynd af landsliðsmanninum.Páskarnir voru hinir ljúfustu. Fóru að mestu í afslöppun og í að hitta vini og ættingja. Fórum í afmæli til Kidda Kalla, vorum með matarboð, fengum mömmu, pabba, Ármann, Þórhöllu og Jón litla Hjaltalin í mat á páskadag og fórum í 5tugs afmæli tengdaföður á annan í páskum. Það hefði verið gott að fá smá frí eftir fríið, en það virkar víst ekki þannig.

Bumban vex og dafnar og það eru viss forréttindi fólgin í því að vera ólétt. Núna er löglegt að vera með bumbuna út í loftið og það er vel. Hef nokkra mánuði í viðbót með bumbuna út í loftið á löglegan hátt, best að njóta þess.

Lifið heil.

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com