mánudagur, júní 23

2 mánuðir í settan dag

eða þar um bil. Óléttustússið gengur bara vel og bumbubúinn vex og dafnar. Er farin að halda að krílið sé svolítill púki, alltaf þegar tilvonandi faðir reynir að finna ungann sparka dettur allt í dúnalogn honum til mikillar mæðu. Finn reyndar ekki mikið fyrir spörkum því fylgjan er að framan, finn meira svona brölt í bumbunni.

Fórum í mæðraskoðun í morgun og krílið er akkurat á meðalkúrfunni. Reynar finnst tilvonandi móður kúlan stækka óvenju hratt þessa dagana, þýtur fram en við því er víst að búast. Var víst búin að lofa Akureyrarmærinni Hansen að setja inn aðra bumbumynd:

31. vika

Hreiðurgerð er farin að gera vart við sig í Álfkonuhvarfinu og Hr. R finnst stundum nóg um. Hann biður sambýliskonuna um að hægja aðeins á sér og kallar hana Tasmaníudjöfulinn á stundum. Fengum frú Guðmundu tilvonandi tengdamóður og hennar ektamann til að hjálpa okkur að bera á pallinn á sunnudaginn og ég sendi Hr. R og mág hans í kommóðu innkaup þann sama dag. Nú á ég bara eftir að dobbla hann til að hjálpa mér við að taka niður eins og eitt skrifborð sem hann er ekki alveg á að því að láta niður í geymslu, færa bókahillur og setja kommóðuna saman. Ekkert mál fyrir Jón Pál.

Núna eru fjórir dagar þar til sumarfríið skellur á. Förum í bústað í viku og það verður kærkomið frí. Jatt bra eins og einhver myndi segja. Annars hefur lítið á daga okkar drifið frá því ég reit síðast. Það helsta er:

- hin fínasta sumarbústaðarferð með Signýju & Þrándi
- brann á nefinu í sumarbústaðarferðinni og almenn flögnun á þeim stað í vikunni á eftir. Lekkert
- heimsókn til útilegufara á Álfaskeið (eini staðurinn á landinu sem rigndi þann daginn...)
- sundferð á Flúðir
- Horfði á fótboltaleik í fellihýsi sem er hálf súrrealísk upplifun
- Lunch á Vegamótum með Sveinsdóttur í blíðskaparveðri
- Kaffisamsæti í Þorlákshöfn Citý í tilefni þess að Gyða amma hefði orðið 80 þann 16. júní
- útskrift Rakelar Aspar


Góðar stundir

     |

laugardagur, júní 14

Hitt & þetta

Lífið í Álfkonuhvarfinu gengur sinn vanagang og bumban stækkar. Meðgangan hefur gengið vel og ungfrúin er bara hress, reynir að sprikla í bumbuleikfimi og borðar súkkulaði þess á milli. Eins og það á að vera. Tíminn er farinn að líða ansi hratt, júní mánuður kominn og erfinginn væntanlegur þann 24. ágúst, erum því komin 30 vikur núna (af 40). Ungfrúin fékk smá sjokk um daginn þegar hún fattaði hve stutt er í komu barnsins og skráði og skjalfesti allt sem vantaði þegar barnið kæmi í heiminn. Leið mun betur eftir það þó undirbúningurinn væri ekki kominn lengra. Þetta kemur allt með kalda vatninu. Er ekki best að skella inn eins og einni bumbumynd, á þó ekki margar. Erum lítið að stressa okkur á myndatökum. Þurfum að bæta út því.

Bumbumynd: komin 29 vikur


Það er ótrúlega gott að sumarið hefur hafið innreið sína á klakann. Reyndar verður ekki mikið um sumarfrí á þessu heimili. Verðum í fríi núna á mánudaginn (16. júní) og lengjum helgina örlítið. Rakel systir Hr. R útskrifast sem hjúkrunarfræðingur í dag (14. júní) og því verða veisluhöld í tilefni dagsins. Stefnan er að svo að fara á sunnudaginn í sumarbústað til Signýjar & Þrándar og dvelja fram á mánudag. Nóg að gera á stóru heimili.

Líf & fjör!

     |

mánudagur, júní 2

Löngu komin frá Nýju Jórvík

Já, já og sei sei. Félagsskapurinn var frábær og ferðin einnig. Við lögðum af stað 12 dömur fimmtudaginn 8. maí áleiðis til Nýju Jórvíkur. Loksins var komið að ferðinni sem við höfðum lengi beðið eftir. Í flugvélinni á leiðinni út kom skemmtileg tilviljun í ljós, Stebbi Dabbi gamall bekkjarfélagi okkar úr ML var flugstjórinn. Við rissuðum því limru á blað og létum flugfreyjurnar bera honum kveðju okkar. Hann tók þó ekki áskorun okkar um að vera smámæltur þegar hann þurfti að tilkynna eitthvað í kallkerfið. Það er víst ekki við hæfi. Við brölluðum margt og mikið á þessum 4,5 dögum okkar úti. Við versluðum (ungfrúin keypti sér 3 kjóla, 3 peysur, skó, 2 veski, undirföt og glingur), fórum á góða veitingastaði, löbbuðum, fórum í siglingu í kringum frelsisstyttuna, sáum Ground Zero (ekki mikið að sjá reyndar), hlógum þessi lifandis ósköp, fórum í pikk nikk í Central park og skoðuðum okkur um.

Laugardagurinn skar sig úr hvað varðar glamúrinn. Við tókum limmósínu á veitingastaðinn Tao sem er ótrúlega flottur staður. Mæli hiklaust með honum fyrir þá sem fara til NY og maturinn var mjög góður. Hann þykir greinilega ,,hipp & kúl" því hann var þéttsetinn en það kom ekki að sök því það er hátt til lofts og vítt til veggja. Þegar við höfðum snætt dýrindis mat var eðalvagninn aftur tekinn og nú lá leið okkur í Regnbogasalinn sem er á 65. hæð í Rockefeller Center. Þar blasti við frábært útsýni og auðvitað var skálað í kokteilum (þó ég hafi reyndar skálað í sódavatni sökum kúlunnar framan á mér). Ég lenti mjög sérstökum atburði á salerni Regnbogasalarins. Þegar ég stóð við vaskinn og var að þvo á mér hendurnar þá vatt dama ein sér upp að mér og sagði "oh my go, your hair is gorgeous! With that bang, short in the back and longer at the sides. I know now how my next haircut is going to be". Ég þakkaði pent fyrir hrósið og skildi við hana þar sem hún var að athuga hvernig hún liti út með topp. Það verður seint sagt að Kanar séu opnir.

Myndir segja meira en þúsund orð:

Að leggja upp í ævintýrið


Komnar til ,,lands frelsisins og heimkynna hinna hugrökku..."


Æsa í "Prom" deildinni í Macy´s


Ég og Hildur á Tao

Júlía hress

Við dömurnar í regnbogasalnum:


Ásdís, Hildur & Matta á góðri stund

Æsa, Dagný og Vigdís að taka matseðilinn á Tao út

Hluti af Ömmunum á Times Square

     |
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com